Löggiltar blekkingar EES um orku

Orkustofnun, sem hefur til skamms tíma verið ein mikilvægasta stofnun landsins, getur ekki stillt sig um að koma sannleikanum að þó aðeins sé með lítilli og óáberandi setningu neðst á heimasíðu stofnunarinnar um upprunavottorðin:

—„Athygli er vakin á því að þrátt fyrir útreiknaðan uppruna raforku á Íslandi er Íslensk raforka nánast öll framleidd úr endurnýjanlegum orkugjöfum.“—

Stór valdabákn nota oft sérstök orð og hugtök yfir kvaðir sem þau setja á borgarana, stundum er beitt hreinum blekkingum til þess að dylja hið rétta eðli aðgerða eða til þess að láta skína í að verið sé að uppfylla einhver æðri markmið. Núna er ESB að berjast gegn losun „gróðurhúsalofttegunda“ og því allt leyfilegt, næstum því. En þeir sem leita að sannleikanum koma á endanum upp um blekkingarnar. Aflátssala Rómarkirkjunnar fyrir 500 árum endaði með að hún missti völdin í Norður-Evrópu.

Evrópsk blekkingakerfi eru komin aftur til Íslands með EES-samningnum. Íslensk fyrirtæki, sem státa af að nota eingöngu endurnýjanlega orku, er búið að gera að lygurum á EES-pappírunum. Þegar fyrirtækin eru beðin að sanna sitt mál fyrir sínum viðskiptavinum kemur í ljós að obbinn af orkunni (59%) sem notuð er á Íslandi er úr kolum, olíu og jarðgasi! Það er að segja samkvæmt bókhaldi Orkustofnunar um upprunavottorð en þau má versla með samkvæmt tilskipunum á EES. Alþingi beygði sig fyrir EES-tilskipununum eins og verið hefur og setti þær í lög (nr. 30/2008 með síðari breytingum) og stjórnarráðið setti svo reglugerð (nr. 757/2012). Árið 2016 var búið að selja vottorð um nærri 79% af fallvatns-og jarðhitaorku Íslands til fyrirtækja í ESB.

http://www.orkustofnun.is/yfirflokkur/raforkunotandinn/uppruni-raforku/

https://www.bbl.is/files/pdf/bbl-13tbl-2017-web.pdf

This entry was posted in EES, Orka. Bookmark the permalink.