Alþingismenn ofkeyrðir?

Þingmálaskráin fyrir starfsvetur Alþingis er með 150 mál, 25 þéttskrifaðar síður, þar af eru 14 (um 55%) um tilskipanir frá Evrópusambandinu, 52 mál. Skriffinnamál ESB er vafningasamt, langmált og þreytandi, oft með texta sem ekki kemur málinu beint við, og því erfitt yfirferðar fyrir alþingismenn og krefst mikillar vinnu og einbeitingar. Sum málanna eru flókin og í hverju máli eru oft margar tilskipanir. Ýmiss einkennileg orð eru notuð, t.d. yfir tilskipanirnar; gerð, framkvæmdareglugerð, ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar, reglugerð o.s.frv.

Í þingsályktunartillögu frá utanríkisráðuneytinu um að leggja orkukerfi Íslands undir eftirlit og stjórn ESB eru 5 tilskipanir um raforkukerfi. Iðnaðarráðuneyti leggur líka fram lagafrumvarp til þess m.a. að valds- og eftirlitsstofnun ESB (ACER) með íslenska orkukerfinu verði óháð Íslendingum

Fjármálaráðherra og utanríkisráðherra leggja fram samanlagt nærri tvo tugi mála um fjármálageirann. Í einu þingmálinu eru 15 tilskipanir! Ofhleðsla regluverks um fjármálafyrirtækin virðist ekki ætla að taka enda. Í vor leið setti Alþingi í lög tilskipanir um fjórar eftirlitsstofnanir ESB með fjármálageiranum hérlendis (Nr 24/2017).

Flóknar tilskipanir um einstaklingsvernd og upplýsingamál (persónuvernd) bíður þingmanna að setja sig inn í. Og að finna fjárveitingar handa ríkisstofnunum sem þurfa fúlgur til að uppfylla tilskipanirnar. Einnig heldur áfram reglusetning um verslunarhindranir á vörur umheimsins utan ESB. O.fl. O.fl.

Það er hætta á að alþingismenn ofkeyri sig á öllum tilskipununum. Það sem gæti bjargað er að þeir þurfa ekki að hafa eins miklar áhyggjur af að setja landsmönnum lög. Það gerir greinilega ESB gegnum EES-samninginn að verulegu leyti.

 

EES-tilskipanir-til-Alþingis2017-2018

This entry was posted in EES. Bookmark the permalink.