Heilsunni og atvinnunni fórnað

Alþingi ræður ekki við að verja landsmenn fyrir sýklaburði með innfluttum matvælum. Ekki heldur við að verja grunnatvinnuveg fyrir þvingunum um að opna landið fyrir niðurgreiddum og misjöfnum matvælum sem innihalda mikið magn sýklalyfja og eiturefna úr fóðurjurtaræktun, auk framandi sýkla. Ástæðan fyrir ráðaleysinu er afsal löggjafarvalds til Evrópusambandsins. Afsalið heitir EES-samningur.

Sýkingar af kamfílóbakter, salmónellu, sýklalyfjaþolnum gerlum og fleiri sýklum, sem berast m.a. með sláturdýraafurðum, eru ekki algengar á Íslandi. Þær eru aftur á móti algengar í ESB-löndum, jafnvel í Danmörku þar sem tíðnin hefur lengi verið að aukast. Yfirvöld í ESB virðast hafa gefist upp við að kljást við kamfílóbaktersýkingar. Sýkingarnar kosta þúsindir mannslífa. Þær valda og miklum vanda og kostnaði fyrir heilbrigðiskerfið í ESB-löndum og víðar. Þannig kostnað þurfum við Íslendingar ekki að bera. Ekki ennþá en ESB vill þvinga Ísland til þess að leyfa innflutning á hráum sláturdýraafurðum frá ESB sem auka mun slíkar sýkingar hérlendis. Sparnaðurinn í heilbrigðiskerfinu rýkur þar með burt og heilsufar landsmanna versnar. Íslenskir læknar og sýklafræðingar hafa varað við þessu. Verði innflutningur hrárra sláturdýrahluta leyfður er það í andstöðu við bestu vísindamenn landsins og læknastéttina sem hefur afrekað að gera Íslendinga að einni heilsuhraustustu þjóð heims.

Vaxandi fjölda sýkinga ræðst ekki við þar eð sýklarnir þola sýklalyfin sem eru á markaðnum. Rannsókna- og heilsustofnanir víða um heim hafa varað við hætunni af sýklalyfjaþolnum gerlum og ofrusýklum. Alþjóða heilbrigðisstofnunin (http://www.who.int/mediacentre/factsheets/fs194/en/) spáir að 390.000 Evrópubúar muni deyja af sýklalyfjaónæmum sýklum á næstu rúmum þrem áratugum með sama framhaldi.

Ein ástæðan fyrir þessu vaxandi lyfjaþoli sýkla er ofnotkun sýklalyfja. Sýklalyfjanotkun í landbúnaði sumra ESB-landa er allt að 88 sinnum meiri en hér. Og mun meiri víða þar eð mikið magn dýralyfja fer framhjá venjulegum viðskiptaleiðum.

Stjórnvöld hér eru að missa stjórn á vörnum landsmanna gegn smithættum. Og að vernda heimalandbúnaðinn sem er undirstaða góðrar lýheilsu hér. Fyrir þrem árum var gerður samningur við ESB um að lækka tolla á m.a. landbúnaðarvörum þaðan „til þess að lækka matvöruverð“. Auk þess liggur fyrir þinginu að breyta lögum um sýkingavarnir og innflutning hrárra dýraafurða. (https://www.frjalstland.is/2017/12/08/ees-gerlar-skulu-fluttir-inn/). Þessi samningur og lagabreytingin mun hleypa inn í landið m.a. varasömum og niðurgreiddum vörum.  Auk þess að spilla lýðheilsunni og auka skattbyrði koma þessi mistök í sýkingavörnum til með að fara illa með atvinnuvegina. Fyrst og fremst landbúnaðinn og í kjölfarið ýmsar þjónustu- og iðngreinar sem byggja á grunnatvinnugreinum.

Ef á að flytja inn góðar og ódýrar landbúnaðarvörur fást þær í Bandaríkjunum og Kanda sem EES-samningurinn hefur spillt verslun við. En tekjumiklar velmegunarþjóðir eins og Íslendingar hafa efni á að tryggja góða matvöru í landinu með heimaframleislu af landinu sjálfu. Og það sem á vantar með vandvirkni við að velja innflutningsvörur, það þarf ekki að opna landið fyrir hverju sem er sem landsmenn vita ekki gjörla hvaðan kemur eða hvernig er framleitt.

http://www.bbl.is/files/pdf/bbl.-4.tbl.2018_web.pdf

This entry was posted in EES, Landbúnaður. Bookmark the permalink.