Eyðilegging orkugeirans heldur áfram

  Tengivirki                                        Mynd: pexels.com

Árið 2003 samþykkti Alþingi að skilja raforkuframleiðslu og dreifingu að. Þetta var, eins og því miður oft hjá Alþingi síðustu áratugina, gert vegna tilskipunar ESB (nr 96/92) en það merkilega var að Ísland hefði ekki þurft að hlýða þessari tilskipun. Ástæðan hlýtur því að hafa verið undirlægja við ESB, vankunnátta um orkuframleiðslu eða eitthvað annað. Þessi samþykkt verður að teljast byrjunin á eyðileggingu íslenska orkugeirans sem heldur áfram um þessar mundir með tveim lagafrumvörpum og nokkrum þingsályktunartillögum. Þær gera orkugeirann dýran í rekstri, færa yfirstjón orkumála landsins til ESB og eru undirbúningur að einkavæðingu kerfisins og að lokum að leiða raforkuna úr landi.

Í framhaldi af lögunum (nr 65/2003) voru íslensku orkufyrirtækin klofin í tvennt. Nokkur lítil fyrirtæki voru gerð tvöfalt fleiri og minni sem segir allt um skynsemina á bak við samþykktina. Íslensk orkuver hafa frá byrjun verið í almannaeigu og dreift orku mestmegnis á sínu nærsvæði sem er hagkvæmt þar eð mikil töp eru við leiðlsu orkunnar lengri vegalengdir. Afsakanirnar fyrir að kljúfa fyrirtækin voru að koma á fót „markaðsvæðingu“, þ.e. samkeppni milli orkufyrirtækjanna að fyrirmynd ESB. En það gefur auga leið að orkuver á suðvesturhorninu á ekki að selja sína orku í Laxárdal, þar er Laxárvirkjun og raflínur stuttar. Þegar orkuverin framleiddu á nærsvæði sínu var íslenski orkugeirinn hvað ódýrastur í rekstri og hagkvæmastur. Eftir 2003 fóru að koma dýrar æfingar í anda ESB um að afla markaða í öðrum landshlutum og auka samkeppni. En það þurfti ekki að auka samkeppni, aðhaldið var hjá notendunum, sem voru líka eigendur orkuveranna. Það virkaði, þegar á heildina er litið, nægilega vel í um 100 ár, allt frá því fyrsta virkjunin var byggð í Hafnarfjarðarlæknum.

Stórt orkuflutningsfyrirtæki, Landsnet, var í framhaldi laganna stofnað af ríkinu og hlutunum síðan skipt á milli almenningsorkufyrirtækjanna. En nú á að „innleiða“ stefnuna samkvæmt EES-tilskipunum og undirbúa að íslenska orkukerfið verði almennilega „samkeppnisvætt“, einkavætt og stjórnað af ESB. Það mun þá fljótlega lenda í höndum fjárfesta og erlendra orkufyrirtækja sem verður til þess að als kyns fjáreigendur þurfa að fá árlegan arð út úr fyrirtækjunum sem íslenska þjóðin hefur byggt til eigin nota á 114 árum. Þar með hækkar raforkuverðið og orkan verður óaðgengilegri.

Ef einhverrar hagkvæmni og skynsemi um rekstur væri gætt ætti Landsnet að vera hluti af Landsvirkjun, viss minnihluti mögulega í eigu RARIK, og í eigu ríkisins, þjóðarinnar. Einkavæðing raforkukerfis hefur almennt gefist illa í löndum þar sem hún hefur verið framkvæmd.

Með nýju lagaákvæðunum nú með vorinu verður líka reglusetningavald í orkugeiranum fært til Orkustofnunar og frá hinu lýðkjörna stjórnkerfi (Þingmál 115: „—Með frumvarpinu er lagt til að samþykki reglnanna færist frá ráðherra til Orkustofnunar. Það er almennt í höndum eftirlitsaðila á EES—“). En það er bara byrjunin; að lokum verður Orkustofnun (eða „markaðs“-hluti Orkustofnunar eða hvað sem ESB-umboðið verður kallað) fengið í hendur mikilvægasa valdið yrir orkudreifikerfinu. Afskipti íslenskra stjórnvalda af Orkustofnun, og þar með stjórn orkubúsins Íslands, verða bönnuð! ESB fær síðan völdin yfir Orkustofnun og þar með yfir íslenska orkugeiranum. Með því hækkar orkuverðið. Að lokum er á stefnuskrá ESB að „fjárfestar“, með aðstoð ESB, leggi sæstreng til Evrópu til að flytja orkuna út, frá og með 2027. Þá fer orkuverðið hér upp í það sem er í ESB og stór hluti iðnaðarins skreppur saman eða leggur upp laupana eins og í ESB. Þekkt lögmál.

https://www.frjalstland.is/2018/03/04/yfirstjorn-orkukerfisins-flutt-til-esb/

Heimatilbúin eyðilegging orkugeirans hefur líka verið í gangi. Orkuverin hafa verið að eyða fé almennings í gæluverkefni, sæstrengur til Skotlands er ein dýrasta vanhugsunin. Vindmyllugarðar eru líka dýrir. Með gæluverkefnunum fer mikið fé til spillis. Aðgerðir eru í gangi um að láta orkuverin greiða arð í „þjóðarsjóð“. En orkuverin eru í almannaeigu og besti arður þeirra til almennings í landinu er ódýr orka. „Þjóðarsjóðurinn“ verður því óþarfa eyðsla til skrifstofuhalds og stjórnendalauna. Afleiðingin af þessum óþörfu fjárútlátum orkuveranna er að þau verða að hækka orkuverðið. Nú þegar er svo komið að Ísland stefnir í að verða ósamkeppnisfært um iðnað, miðað við okkar helstu samkeppnislönd: Bandaríkin, Kanada og Noreg. Þegar er komið í ljós að íslensku iðjuverin telja sig trauðla geta vaxið og dafnað hér og eru jafnvel að hyggja á flutning. Farin að banka á dyr í Noregi og Québec. Iðjuver munu leita hingað í minna mæli. Engin ný eru að fara í byggingu. Grunnur þróaðs iðnaðarlands á Íslandi er að morkna.

This entry was posted in EES, Orka. Bookmark the permalink.