Dýrt og lélegt bensín veldur umhverfisálagi

Alþingi setti lög (nr. 40/2013) um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi, ekki íslensk lagasmíð heldur „innleiðing“ á EES-tilskipun 2009/28. Í þetta skipti var líklega óþarfi samkvæmt EES að setja tilskipunina í lög hér en eins og lesendur þessarar síðu þekkja hefur Ísland ekki hafnað neinni af þeim 12.000 EES-tilskipunum sem komið hafa frá ESB.

(Það er ekki til endurnýjanlegt eldsneyti eins og meining orðanna er. Átt er við eldsneyti sem er sérstaklega búið til af manna höndum úr koltvísýringi með að hvarfa hann við önnur efni, eða með því láta jurtirnar búa til efni úr koltvísýring og búa síðan til eldsneyti úr þeim. Tilurð eldsneytisefna úr koltvísýringsefnum í iðrum jarðar er ekki talin með og lítil þekking til um hana)

Endurnýjanlega eldsneytið er til dæmis hægt að vinna sem tréspritt úr koltvísýringi og vatni en sú vinnsla er mjög dýr og orkufrek og aðeins hluti þeirrar orku sem fer í framleiðsluna skilar sér. Eina aðgengilega endurnýjanlega eldsneytið nú, sem kemur til greina sem íblöndunarefni í bensín, er vínandi (etanól) úr jurtum, „orkujurtunum“ maís, byggi og sykurreyr aðallega. Í díselolíuna er bætt jurtaolíuafleiðum auk tilbúinna bætiefna. Lögin fyrirskipa íblöndun sem nemur að minnsta kosti 5,0% af heildarorkugildi eldsneytis sem þýðir að blanda þarf um 7% rúmmáls af vínanda í bensínið þar eð hann er orkurýrari.

Tilgangur laganna er að „minnka losun gróðurhúsalofttegunda“, aðallega koltvísýrings. Orkujurtirnar til vínandaframleiðslunnar vinna eldsneytishráefnið úr koltvísýringi loftsins og við brennslu eldsneytisins kemur hann svo aftur út í lofthjúpinn svo úr verður hringrás sem í fljótu bragði virðist tryggja að ekki aukist koltvísýringurinn í lofthjúpnum. Við nánari skoðu kemur í ljós að ekki er hægt að tryggja þann árangur.

(Orkujurtirnar taka koltvísýring úr lofthjúpnum en þær anda líka frá sér koltvísýringi, það gera líka akrarnir þar sem þær eru ræktaðar, efnaafrakstur ræktunarinnar er því flókinn og hefur ekki verið greindur til fulls við mismunandi ræktunarskilyrði)

Það þarf oft yfir þriðjungi meiri orku til að framleiða vínandann en hann inniheldur. Það þarf jarðefnaeldsneyti á landbúnaðrtækin í kornræktinni, á tækin sem vinna, gerja og eima bruggið og flytja vínandann til kaupenda. Þetta leiðir í vissri framleiðslu til þess að vínandinn inniheldur minni orku en jarðefnaeldsneytið sem notað var til framleiðslunnar! Íblöndunarefnin eru unnin úr matjurtum sem veldur verðhækkunum á matvælum, auknu umhverfisálagi, vandamálum í landnýtingu og skógaeyðingu.

Ýmiss vandamál fylgja íblöndun vínanda. Hann skemmir vélar sem ekki eru gerðar fyrir vínandblandað bensín. Hann skemmir viss gerviefni, tærir vissa málma, spillir innri smurningu vélanna, getur kekkjast, getur skilið sig með raka frá bensíninu og valdið gangtruflunum og tæringu. Hann er dýrari og varasamari við meðhöndlun sem kemur niður á kostnaði við dreifingu og meðferð. Í vínandanum geta verið óhreinindi sem spilla eldsneytinu enn frekar. Bifreiðaframleiðendur um allan heim hafa verið að gera stórátak í endurbótum á bílvélum til að minnka eldsneytiseyðslu og draga þannig úr útblæstri. Í raun er íblöndun eldsneytis að vinna gegn þessum ávinningi. Í sumum nýjum bílum er það skýrt tekið fram að ekki má nota íblandað eldsneyti (BBL).

Við þetta bætist síðan að íblöndun minnkar orkugildi bensínsins og stuðlar að meiri eldsneytiseyðslu ökutækja.

Árangurinn af lögum nr. 40/2013 er því ekki minni losun gróðurhúsalofttegunda.

Vínandinn er nærri þriðjungi orkuminni en bensínið og þarf því meira eldsneyti á bílinn, 5%-vínandablandaða bensínið verður um 3% orkuminna á hvern líter en hreint bensín. Vínandinn er auk þess talsvert dýrari en bensín í innkaupi, það kostar auk þess búnað og vinnu við að blanda, flytja og meðhöndla hann. Og íblöndunarefnin í díselolíuna eru ennþá dýrari en þau í bensín. Þess vegna þarf ríkissjóður að veita fé til íblöndunarinnar: „—ríkissjóður styrkti innflutning á þessu orkurýra og dýra eldsneyti um 1,1 – 1,3 milljarða árið 2015. Fjárhæðin hefur verið svipuð fyrir síðasta ár. Þessir fjármunir renna að mestu leyti úr landi til erlendra framleiðenda lífeldsneytis—“ (Andríki).

Íslenskir bílaeigendur verða að að kaupa dýrt og lélegt 95 oktana bensín og hafa ekki val á hreinu bensíni (dýrara 98 oktana er þó ennþá hreint) eins og er víða annars staðar, t.d. í Bandaríkjunum þó þar mikið framleitt af vínandablönduðu bensíni enda ræktun maíss þar sterk atvinnugrein. Hérlendis kostar íblöndunin skattgreiðendur milljarða króna árlega sem mundu nýtast vel í viðhald á yfirhlöðnu vegakerfi landsins. Ýmiss konar langsótt skattlagning er auk þess á bifreiðaeldsneyti sem kemur ekki heldur í holurnar á vegunum.

Nokkrir alþingismenn hafa reynt að ná fram breytingum á lögunum en án árangurs: „—helstu afleiðingar laganna yrðu m.a. þær að innkaupsverð á bifreiðaeldsneyti mun hækka, kostnaður vaxa við flutning, geymslu og íblöndun, eldsneytisnýting í bílvélum myndi versna, hætta á gæðafrávikum í eldsneyti myndi vaxa, ríkissjóður verða af um 800 milljóna króna tekjum árið 2014 og að umhverfislegur ávinningur þessa umstangs alls væri afar óviss. Þessi spá hefur því miður gengið eftir—“ (FÍB).

Í nágrannalöndum hafa smám saman runnið upp fyrir mönnum þessir ágallar. Evrópusambandið er líklegt til að draga úr áherlsum á endurnýjanlegt eldsneyti, m.a. vegna aukins álags á umhverfið og landnýtingarvandamál (Transport & Environment). Bandaríkin eru farin að breyta reglum um bílaeldsneyti af ýmsum ástæðu, m.a. vegna slæmra afleiðinga núverandi reglna. Þegar er verið að afnema eldri reglur um eldsneytisnotkun bifreiða (Platts).

This entry was posted in Landbúnaður, Umhverfismál. Bookmark the permalink.