ESB dylur ekki lengur ásóknina í völd yfir fjármálageiranum

Evrópusambandið hefur með EES-samningnum verið að taka til sín meiri völd yfir EES-löndunum. Mbl. segir frá því að nú hafa fjármálaráðherrar EES-landanna Noregs, Íslands og Liechtenstein misst þolinmæðina og kvartað bréflega yfir áformum ESB um að taka til sín enn meira vald yfir fjármálageirum landanna með nýrri stofnun: Framkvæmdastjórn fjármálaeftirlits ESB. EES-löndin fá enga aðkomu að þeirri stofnun.

Þeim sem muna hvernig faðmur ESB-regluverksins reyndist íslensku bönkunum (október 2008) rennur kalt vatn milli skinns og hörunds.

Það er þegar búið að færa mikil völd yfir fjármálakerfum EES-landanna til ESB. Nýlega (maí 2017) stimplaði Alþingi nærri heilan tug EES-tilskipana (lög nr. 24/2017). Þar segir

Tilgangur laga þessara er að lögfesta evrópskt (les ESB) eftirlitskerfi á fjármálamarkaði…“

Það voru hvorki meira né minna en 4 stofnanir sem fengu valdið: EBA, EIOPA, ESMA, ESRB. Það var ekkert nýtt við að fá haug af tilskipunum en það sem var nýtt var að var að ESA, eftirlitsstofnunin sem fylgist með að EES-löndin hlýði tilskipununum, fékk aukið hlutverk og nýtt vald. ESA og EFTA-dómstólinn (sem dæmir Noreg, Ísland og Liechtenstein til að hlýða tilskipununum) fengu með lögunum aðfararhæft dómsvald

Ákvarðanir ESA samkvæmt lögum þessum eru aðfararhæfar, sem og dómar og úrskurðir EFTA-dómstólsins“

En sameiginlega EES-nefndin, þar sem Ísland á sæti þó að við höfum engin áhrif á tilskipanirnar, var sett út fyrir samþykktarferlið. ESA, sem er „sjálfstæð“ (þ.e. hlýðir aðeins valdakerfi EES/ESB) og Ísland hefur enga stjórn á, er sett inn til að koma tilskipunum ESB í framkvæmd hér. Svipaða aðferð á að nota við að ná orkumálum undir beint vald ESB: Orkumálaskrifstofa ESB (ACER) sendir valdsboðin til ESA sem framsendir þau til Íslands án tafar.

Þolgæðum EES-ríkjanna virðist nú loksins ofboðið, þau hafa nú samkvæmt Mbl sent ESB bréf út af valdaáformum sambandsins yfir fjármálastarfseminni (“bréfið” er athugasemd frá fastanefnd  EES):

…Fjár­málaráðherr­ar þeirra þriggja ríkja sem aðild eiga að EES-samn­ingn­um, Nor­egs, Íslands og Liechten­stein, hafa mót­mælt áform­um Evr­ópu­sam­bands­ins um að gera breyt­ing­ar á fyr­ir­komu­lagi ákv­arðana­töku á vett­vangi yfirþjóðlegs fjár­mála­eft­ir­lits sam­bands­ins sem rík­in hafa geng­ist und­ir. Vísað er í bréf þess efnis frá ráðherr­un­um á norska frétta­vefn­um Abcnyheter þar sem óskað sé eft­ir því að fallið verði frá áform­um Evr­ópu­sam­bands­ins um að færa mik­il­vægt ákv­arðana­vald frá eft­ir­lits­stjórn fjár­mála­eft­ir­lits­ins, sem EES-rík­in eiga aðkomu að án at­kvæðarétt­ar, til nýrr­ar fram­kvæmda­stjórn­ar eft­ir­lits­ins sem rík­in eigi enga aðkomu að… Fram kem­ur enn­frem­ur í bréfi ráðherr­anna að erfitt sé að sjá hvernig hægt verði að viðhalda jafn­vægi á milli EFTA- og ESB-stoðar­inn­ar (s.k. EFTA-stoð er Noregur, Ísland og Liechtenstein) nema EES-rík­in hafi aðkomu að fyr­ir­hugaðri fram­kvæmda­stjórn fjár­mála­eft­ir­lits sam­bands­ins. Einnig er kallað eft­ir því að út­víkk­un á beinu eft­ir­liti fjár­mála­eft­ir­lits­ins verði ekki um­fram það sem inn­lend­ar stofn­an­ir geti sinnt… Þá er sömu­leiðis áréttað í bréf­inu að þegar hafi verið komið á kerfi miðlægs eft­ir­lits og ákv­arðana­töku inn­an tveggja stoða kerf­is­ins. Fyr­ir­ætlan­ir um frek­ara framsal vald­heim­ilda frá EES-ríkj­un­um til ESA á sviði fjár­mála­eft­ir­lits kunni að leiða til flók­inna stjórn­skipu­legra og stjórn­mála­legra vanda­mála sem erfitt gæti reynst að finna lausn­ir á…“

ESB er farið að taka til sín meiri völd en EES-samningurinn gerði ráð fyrir. Sambandið er farið að fyrirskipa að stjórnvald yfir heilu málaflokkunum færist beint undir valdastofnanir þess. Reynt hefur verið að dylja valdatökuna með því að nota ESA sem millilið. Nú á samkvæmt Mbl grímulaust að taka völdin yfir fjármálageiranum til ESB með nýrri valdastofnunstofnun þar sem EES-löndin hafa engin áhrif. Tilskipanir um yfirstjórn orkumála og upplýsingameðferðar, sem áttu að fara í lög á yfirstandandi þingi, eru önnur dæmi þar sem valdastofnanir ESB fá beint stjónvald hérlendis.

Með þessu er búið að rykkja fótunum undan EES-samningnum þar sem bæði ESB og EES-löndin áttu aðkomu að framkvæmd tilskipananna (tveggja stoða kerfið, þó áhrif EES-landanna þar væru hverfandi í raun) og aðfararhæft dómsvald átti að vera óbreytt innan landanna.

EES-samningurinn er því kominn í uppnám. Framundan er að sjá hvort ESB áttar sig á að EES-löndin eru að gefast upp á honum.

This entry was posted in Bankar, EES. Bookmark the permalink.