EES-samningurinn þarf að fara í þjóðaratkvæði

Evrópusambandið sendir skaðlegri EES-tilskipanir með hverju árinu og er að taka til sín meiri völd en EES-samningurinn gerði ráð fyrir. Það fyrirskipar nú að stjórnvald yfir heilu málaflokkunum færist beint undir valdastofnanir þess þar sem EES-löndin eru áhrifalaus. Reynt hefur verið að dylja valdatökuna með því að nota eftirlitsstofnunina ESA sem millilið. Áform ESB um valdatöku hefur komist í hámæli síðustu mánuði í nokkrum tilskipunum sem eru afarkostir fyrir Ísland að gangast undir, dæmi:

Orkumál. “Þriðji orkupakki ESB”

Einstaklingsvernd og upplýsingameðferð. Persónuverndarlög

Fjármálastarfsemi. Ný framkvæmdastofnun yfir fjármálaeftirlit.

Það koma um hálft þúsund EES-tilskipanir árlega til Íslands. Meir en þriðjungur mála á þingmálaskrá vetrarins er EES-tilskipanir, og nærri helmingur reglugerða ársins 2017 voru valdsboð ESB. Dæmi:

Umhverfismál. Ný lög um umhverfismat.

Starfsleyfi, losun efna. Ný reglugerð.

Tæknileg verslunarhöft. Kvaðir, leyfi, merkingar.

Leigubílaakstur. Tilskipanir eiga ekki við hér.

Margar tilskipanir hafa fengið umsagnir og breytingatillögur og mótmæli hafa borist við mörgum þeirra frá aðilum sem málin varða. EES-tilskipunum hefur aldrei verið hanfnað, úrbótatillögur eru því léttvægar. Valdsboðum ESB er alltaf hrint í framkvæmd hér.

Evrópusambandið er komið langt út fyrir EES-samninginn með EES-valdsboðunum. Sambandið er því búið að að rykkja fótunum undan EES-samningnum þar sem bæði ESB og EES-löndin áttu aðkomu að framkvæmd tilskipananna (tveggja stoða kerfið, þó áhrif EES-landanna þar væru hverfandi í raun).

Dómsvald hefur einnig færst frá EES-ríkjununum. Valdsboð í vissum málum frá eftirlitsstofnun og dómstól EES (s.k EFTA-dómstól) eru orðin aðfararhæf. Sérstök yfirlýsing, Protocol 35, sem EES-lönd voru látin samþykkja, segir að EES-valdsboð eigi EES-löndin að gera æðri sínum eigin reglum. Bæði dómstóllinn og ESA hafa verið að reyna að stjórna Alþingi og dómstólum Íslands, þar á meðal Hæstarétti Íslands, 13 blaðsíðna umvöndunarbréf  kom frá ESA í desember s.l.

Aðgangur að innri markaðnum“ hefur verið ein helsta röksemdin fyrir veru Íslands í EES. Þessi röksemd er rangfærsla, m.a. vegna tollalækkana í milliríkjaviðskiptum en einnig vegna fríverlsunarsamningsins sem Ísland er með við EB. EES-samninguninn tryggir okkur ekki besta aðgang að mörkuðum ESB. Hann er aftur á móti orðinn mjög hamlandi og með vaxandi og flókið kerfi verslunarhafta, flest tæknileg eða stofnanaleg, en þau koma í veg fyrir frjálsa verlsun við heiminn utan ESB. EES-samningurinn verður svo orðinn sérlega skaðlegur sem „viðskiptasamningur“ fyrir Ísland næsta vor (2019) þegar Bretland verður komið úr ESB.

EES-samningurinn er því kominn í uppnám og EES-löndin eru að gefast upp á honum. Skoðanakannanir um valtatöku ESB í orkumálum í Noregi s.l vetur sýndu að minna en 1/10 studdu valdatökuna og nýleg könnun á Íslandi sýndi að yfir 4/5 Íslendinga eru á móti slíkri valdatöku. Nú í vetur hefir komist af stað rökræn umræða um samninginn hérlendis og eru landsmenn því farnir að átta sig á honum og þeim skaða sem hann veldur.

Það er því kominn tími til að segja EES-samningnum upp eða að halda þjóðaratkvæðagreiðslu sem þjóðin fékk ekki veturinn 1992-93 þegar Alþingi samþykkti hann með 33/63 atkvæða í trássi við mótmæli almennings og viðvaranir kunnáttumanna.

This entry was posted in EES. Bookmark the permalink.