Íslenskt stjórnkerfi í upplausn

Alþingi samþykkti nú í lok vorþingsins EES-tilskipun nr 2016/679 um meðferð upplýsinga og persónuvernd. Með samþykktinni afsalaði Alþingi bæði yfirstjórn yfir íslenskri stjórnsýslustofnun til stofnunar ESB en einnig dómsvaldi til dómstóls ESB. Hvorug á að hafa vald eða lögsögu hérlendis samkvæmt stjórnarskránni eða EES-samningnum.

Frá ESB koma um hálft þúsund valdsboð árlega og í raun er nú svo komið að ESB hefur tekið til sín löggjafar-, framkvæmda- og dómsvald hérlendis á mörgum sviðum stjórnsýslunnar og líka teygt sig yfir svið sem talið var að væru utan EES-samningsins. Alþingi og stjórnarráðið hafa aldrei hafnað EES-tilskipun frá ESB. En þær hafa þó gengið í gegnum skoðunarferli sem íslensk stjórnvöld hafa aðild að, sk. tveggja stoða kerfi. Það er og verður ekki með persónuverndarlögin né framtíðar tilskipanir þar. Þar fara valdsboðin milliliðalaust frá ESB-stofnun, þar sem Ísland hefur ekki atkvæðisrétt, til erindreka hennar hér sem lúta valdi hennar engöngu. Og dómstóll ESB fær dómsvald hérlendis í málaflokknum. Persónuverndarlögin eru toppurinn á ísjakanum. Þau eru sett undir mótmælum löglærðra manna, stofnana og fyrirtækja. Þau verða fyrirsjáanlega mjög dýr samfélaginu enda ekki samin fyrir íslenskar aðstæður.

Tilskipanirnar um fjármálageirann, og flókið stofnanakerfi ESB þar um, hafa hrannast upp og eru orðin ódulbúið valdahrifs af hálfu ESB. Í maí 2017 afhenti Alþingi EES-stofnunum (ESA og EFTA-dómstólnum) aðfararhæft úrskurðar- og dómsvald hérlendis.

Tilskipanir um yfirstjórn orkukerfisins bíða eftir stimpli Alþingis en með þeim fer mikilvæg stjórn íslenskra orkumála til ESB.

Tilskipanir í miklum fjölda sem eru sagðar um umhverfisvernd hafa verið færðar í lög og reglur hér án þess að kostnaður og gagn hafi verið metið.

Vaxandi fjöldi af verslunarhöftum, reglur og kvaðir á vöruinnflutning undir yfirskini gæða, samræmingar, merkinga eða unmhverfisverndar, hafa verið settar í íslenskar reglur og hamla verslun við umheiminn

Í janúar stimplaði utanríkisráðuneytið tilskipanir ESB (nr. 2017-/1561, -/1547, -/1549, -/2214, -/2426,- /2212) um refsiaðgerðir gegn sslandi sem Ísland hefur fram að þessu notið stuðnings frá og viðskipta við. Færeyingar héldu sig utan við, sömuleiðis samstarfsþjóð Íslands í EFTA, Sviss, sem ESB reyndi að fá með en Sviss er ekki í EES.

Peningamálastjórn landsins er undir hótunum frá ESB (EFTA-dómstólnum sem dæmir eftir regluverki frá ESB) um að opna á alskyns gjaldeyrisflutninga til og frá landinu. Forsenda þess að hægt sé að halda gangandi arðbærum efnahag Íslands er að Seðlabanki Íslands geti stjórnað peningamálum landsins í samræmi við aðstæður hverju sinni.

Verslun með landbúnaðarvörur er nú líka komin undir yfirstjórn ESB með fyrirsjáanlega slæmum afleiðingum fyrir íslenska menningu, efnahag og lýðheilsu

Valdamestu ráðamenn og áhrifamenn þegar EES-samningurinn var samþykktur hafa nú stigið fram og lýst hvernig Alþingi hefur sett í lög valdsboð ESB sem ekki samrýmast stjórnarskránni eða EES-samningnum:

…Frá því EES-samningurinn var gerður hefur það legið fyrir sem helsta forsenda hans að ekkert yrði hér leitt í lög í nafni hans sem augljóst væri eða ætla mætti að stangist á við stjórnarskrána. Hafni Ísland innleiðingu laga á þeirri rökstuddu forsendu að hún sé óheimil vegna ákvæða stjórnarskrár þá hefur Evrópusambandið ekki neina heimild til mótvægisákvörðunar. ESB er þessi staðreynd ljós og viðurkenndi það í aðdraganda EES-samningnis. Án þeirrar viðurkenningar hefði samningurinn aldrei verið afgreiddur á Alþingi…“ (úr Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins 17.6.2018. Davíð Oddsson var forsætisráðherra þegar samningurinn var samþykktur)

…Fyrir nokkrum dögum samþykkti Alþingi persónuverndarlöggjöf sem kom í heilu lagi frá Brussel… Þrátt fyrir rökstuddar athugasemdir hafði Alþingi þær að engu og samþykkti á methraða… EES-samningurinn er ekki heilagur. Han hentaði hagsmunum þjóðarinnar á þeim tíma sem hann var gerður… Það er hægt að krefjast breytinga á EES og það er líka hægt að segja þeim samningi upp…“ (Styrmir Gunnarsson var ritstjóri Morgunblaðsins þegr samningurinn var samþykktur, úr grein hans í blaðinu 17.6.2018)

Staðan er því orðin sú að hlutar af stjórnkerfi landsins virka ekki lengur eftir lýðræðislegum aðferðum sem gilda eiga fyrir íslenska lýðveldið. Erlendu valdi, sem byggir að hluta á hefð gamalla stórvelda sem er alls ólík íslenskum hefðum, hefur verið fengið vald sem stjórnskipulega á að vera hjá lýðræðislega grunduðu stofnanakerfi hins íslenska lýðveldis. ESB hefur í raun verið afhent löggjafarvald og stofnanir þess hafa fengið bæði framkvæmdavald og dómsvald hérlendis.

Alþingi hefur að því er virðist, með einbeittum vilja meirihluta þingmanna og með fulltingi stjórnarráðs og embættismanna íslenska ríkisins, horft framhjá grundvallar hagsmunum, lögum og stjórnarskrá lýðveldisins sem höfð hafa verið í heiðri síðan það var stofnað. Stjórnkerfi smíðað af landsmönnum sjálfum er tekið að leysast upp með valdsboðum Evrópusambandsins og EES-samningurinn borinn fyrir.

This entry was posted in EES. Bookmark the permalink.