Við viljum fá landið okkar aftur

Bretar ákváðu í þjóðaratkvæðagreiðslu 23. júní 2016 að ganga úr Evrópusambandinu. Ein meginástæðan fyrir þeirri ákvörðun var að meirihluti landsmanna „vildi fá landið sitt aftur“ undan stjórn Evrópusambandsins eins og túlkendur atkvæðagreiðslunnar orðuðu það. Sams konar almenningsálit um stjórn ESB á íslenskum málefnum hefur nú verið að byggjast upp hér á þessu ári. Ástæðurnar eru aukin umræða um EES-samningin og afleiðingar hans en einnig vaxandi valdahrifs Evrópusambandsins hér í skjóli EES-samningsins.

Alþingi og ráðuneytin hafa það sem af er ári, eins og síðustu 25 ár, stimplað eina tilskipunina eftir aðra í hundraða vís frá ESB og, sem verra er, sumar mjög illa viðeigandi hérlendis og sumar mjög dýrar og íþyngjandi eða óþarfar og skaðlegar. EES-tilskipanir, sem og valdsboð frá erindrekum EES-samningsins (ESA og EFTA-dómstólnum) hafa þannig breyst í íslensk lög, reglugerðir og stjórnvaldsaðgerðir. Stjónvald mikilvægra málasviða landsins hefur nú færst undir Brussel: Yfir fjármálafyrirtækjunum, samkeppnismálefnum og fyrirtækjarekstri, umhverfismálum, verslun við útlönd, aðgerðum í utanríkismálum svo nokkur dæmi séu nefnd. Og nú í sumar bættust við lög um meðferð upplýsinga um einstaklinga. Þau höfðu það að meginmarkmiði af hálfu ESB að leggja stein í götu bandarískra upplýsingatæknifyrirtækja á markaði ESB. Við gleyptum lögin sem „framför í persónuvernd“! Þau eru torskilin og flókin langloka, 112 smáletraðar síður, að miklu leyti orðrétt tilskipun frá Brussel.

Forseti Bandaríkjanna sagði eftir samtöl við ESB-forkólfa nú í sumar að ESB væri óvinur Bandaríkjanna í verslun, ástæðan er einmitt sú að ESB -löndin hafa riðið feitu hrossi frá viðskiptum við Bandaríkin síðan í síðari heimsstyrjöld en eru nú búin að koma upp umfangsmiklu haftakerfi gegn bandarískum fyrirtækjum.

Með þessum „persónuverndarlögum ESB“ fara milljarðar króna í vaskinn hérlendis, ESB fær framkvæmdavald framhjá stjórnarráðinu yfir málaflokknum hér og dómstóll ESB fær dómsvald hérlendis. Þetta heitir fullveldisafsal.

Morgunblaðið 21. júlí 2018 gerir grein fyrir umfangsmiklum uppkaupum erlendra fjárfesta á íslensku landi. Það er í samræmi við ákvæði og heimildir EES-samningsins. Í sama blaði upplýsir Hjörleifur Guttormsson, f.v. ráðherrra, að ekki sé einungis um að ræða land á yfirborði jarðar heldur einnig auðlindir, svo sem jarðhita, undir yfirborði. Hann afhjúpar í grein sinni þau mistök sem gerð voru með EES-samningnum.

Núverandi ráðherrar hafa látið hafa eftir sér að hægt sé að stemma stigu við landakaupum með sérstökum aðgerðum „eins og t.d. Danir og Norðmenn“ gera. Greinilegt er að þeir hafa ekki skilið EES-samninginn. Það er hægt að krafsa með alskyns lögum og reglum en eftir stendur samningsákvæði EES, samþykkt af Alþingi, og yfirvofandi afskipti erindreka EES (ESA og EFTA-dómstólsins) ef Ísland hlýðir ekki.

Það er bara ein vís leið til að fá landið okkar aftur eins og Bretar: Að segja EES-samningnum upp.

This entry was posted in EES. Bookmark the permalink.