Gagnslaus fundur um orkumál og EES-samninginn

Fundurinn var haldinn í HR í gær, ræðumenn voru embættismenn frá ESB og Íslandi og lögfræðingar frá opinberum og hálfopinberum aðilum á Íslandi og Noregi. Enginn reyndur fagmaður í tæknimálum eða starfrækslu orkuvera eða orkukerfa hérlendis var á mælendaskrá. Ekki heldur neinn sem þekkir feril ESB í orkukerfum þarlendis eða hefur gagnrýnt valdahrifstilraunir ESB yfir íslenskum orkumálum. Lítið sem varðar hætturnar, vandamálin eða reynsluna af stjórn ESB á orkumálum Íslands eða annarra var reifað. Svör við ákveðnum mikilvægum spurningum fengust ekki þegar eftir var leitað.

Forstöðumaður ACER, orkuskrifstofu ESB, sagði frá þeim umfangsmiklu verkefnum og völdum sem hún hefur yfir orkumálum ESB landa. Stofnunin hefur stjórnsýslu um mikinn fjölda stórra og smárra málefna sem varða orkuflutningskerfið og tengingu þess við orkuver og notendur.

Helsta ástæðan fyrir stofnun ACER var sögð vera eftirlit með flutningi orku milli aðildarlandanna. ACER á því lítið erindi til Íslands. En hún hefur líka fengið umsjón með að löndin fari eftir ESB-reglum á sínum heimamarkaði. Forstöðumaðurinn sagði að ábati af ESB-reglum og starfi ACER fyrir orkunotendur í ESB væri um 1 milljarður evra á ári. Aðspurður af hverju orkuverð í sumum löndum eins og í Svíþjóð hefði hækkað sagði hann að árangur væri misjafn í aðildarlöndum. Hann var spurður hvort rétt væri að meginverkefni ACER væri að aðstoða eftirlitsstofnanir aðildarlandanna við að koma tilskipunum ESB í framkvæmd, svaraði hann því játandi og sagði hann að hlýðni við tilskipanirnar væri grundvallaratriði. https://www.frjalstland.is/2018/03/04/yfirstjorn-orkukerfisins-flutt-til-esb/

Lektor í lögum frá HR sagði frá lagalegri hlið tilskipunarinnar um yfirtöku ESB á stjórnsýslu um orkukerfið. Hún lýsti því hvernig íslenska eftirlitsstofnunin (“Raforkumarkaðseftirlit Orkustofnunar“) verður gert „sjálfstætt“ sem þýðir á máli ESB að það verður ekki undir stjórn hins lýðræðislega uppbyggða stjórnkerfis Íslands heldur óháð íslenskum stjórnvöldum en lýtur valdsboðum ESB.

Spurt var í sal hvort þetta væri lögbrot en ekki fengust svör. Einnig var spurt hvenær og hverjir hefðu fengið ESB völd yfir íslenskum orkumálum, sem voru ekki í EES-samningnum upprunalega, en ekki fengust svör (formlega varð valdataka ESB í orkumálum Íslands með raforkulögunm 2003, svo virðist sem þingmenn hafi ekki áttað sig á að verið var að rétta ESB litlafingur)

Prófessor við lagadeild háskólans i Osló sagði frá miklum væringum vegna tilskipunarinnar í Noregi og eru þær ekki útkljáðar enn þó Stortinget hafi samþykkt þær með naumum meirihluta.

Lögfræðingur Samorku fjallaði um hvernig tilskipanirnar horfa við þeim samtökum og virðast viðhorfin þar vera enn í mótun.

Orkumálastjóri fór yfir hlutverk Orkustofnunar og kom inn á hlutverk „Raforkumarkaðseftirlitsins“ sem verður ekki undir stjórn íslenskra stjórnvalda en tekur fyrirmæli frá ACER/ESB.

Spurt var úr sal hvenær yrði hægt að aflétta sölukerfi ESB um „upprunavottorð“ á umhverfisvænni orku sem hefur gert íslenskum fyrirtækjum erfitt fyrir að sanna að þau noti vatns- og hveraorku. Ákveðið svar fékkst ekki en málið verður skoðað.

Eftirfaranadi mikilvægum álitamálum var ekki gerð viðhlítandi skil á fundinum.

Lögbrot: Ekki var hægt að fá svör um hvort afsal valds íslenskrar stjórnsýslustofnunar og stjórnarráðsins yfir einu mikilvægasta málasviði landsins til ESB/ACER væri brot á landslögum.

ESA. Hið nýja verkefni ESA, eftirlitsstofnunar EES, var ekki krufið. Tilskipanir eða valdsboð frá ESB um orkumálin verða nú send frá ACER en í gegnum ljósrituarvélarnar hjá ESA sem fær þar með völd í málunum. Þetta er brot á EES samningnum þar sem sameiginlega EES-nefndin átti að stimpla valdsboðin. Ráðherra gæti hafa gengist inn á þetta og er spurningin hvort (stjórnskipulegur) fyrirvari hafi verið gerður, Alþingi á að hafa úrslitavald í slíku máli.

Dómsmál. Ekki var krufið hvernig dómsmál yrðu til lykta leidd. Afsal dómsvalds til ESB er stjórnarskrárbrot

Samkeppnisvæðingin. Ekki kom fram hvernig á að koma við samkeppnisvæðingu ESB á markaðnum hér sem er of lítill og frábrugðin ESB-löndum til að hægt sé að nota regluverk ESB.

Sæstrengur Ekki var heldur reifað markmið ACER um sæstreng til að flytja raforku úr landi en hann á að vera tilbúinn 2027 samkvæmt verkefnalista ACER.

Árangur ACER í ESB-löndum. Samkeppnisvæðingin sýnir mismunandi árangur og hefur sumstaðar leitt til aukins kostnaðar og hækkunar orkuverðs. Ástæður þess voru ekki reifaðar nægilega.

Höfnun Alþingis. Hvað gerir ESB ef Alþingi hafnar tilskipuninni? Ákveðin vinnuferli eru til í slíku tilviki. Erindrekar ESB segja afleiðingarnar verða alvarlegar en málið var ekki reifað á fundinum.

Fundurinn var greinilega ekki til að upplýsa heldur frekar til þess að gera ásælni ESB í orkumál Íslands sakleysislega eða að réttlæta hana. Fundinn sóttu ráðherrar og fleiri stjórnmálamenn og forstöðumenn stofnana og fyrirtækja. Í þeim heyrðist lítið og fyrirspurnatími var mjög stuttur.

Blekkingartilraunir ráðuneytanna um tilskipanirnar hafa ekki verið dregnar til baka. https://www.frjalstland.is/2018/04/26/frjalst-land-motmaelir-villandi-stadhaefingum-utanrikis-og-atvinnuvegaraduneyta-um-tilraunir-esb-til-ad-taka-til-sin-vold-yfir-islenskum-orkumalum/

This entry was posted in EES, Orka. Bookmark the permalink.