Boðvald yfir engu, er það ekkert?

Elías Elíasson, sérfræðinur í orkumálum, skrifar um þriðja orkupakka ESB.

Fljótsdalsstöð

Vald er margs konar. Í stjórnskipun Íslands er valdinu skipt í löggjafarvald, framkvæmdavald og dómsvald, en þetta er það vald sem lögfræðingar og ráðuneyti tala um, þegar þau segja að samþykkja megi orkupakkann vegna þess, að meðan sæstrengur komi ekki, þá hafi það vald sem ACER hefur yfir athöfnum fyrirtækja hér á landi enga virkni. Þetta finnst fólki skrítin rök. Enginn getur fullyrt í dag, að sæstrengur komi ekki og á þá að fara að samþykkja lög sem verða ólög um leið og strengurinn sá er tengdur en breyta engu þangað til?

Með innleiðingu þriðja orkupakkans verður breyting á stjórnskipun Íslands og Alþingi þarf að samþykkja lög þess efnis. Orkustofnun, sem nú lýtur ráðherra og er aðalráðgjafi hans í orkumálum þarf að koma sér upp nýrri deild sem verður landsreglari, sem skal vera óháður stjórnvöldum og hafa úr nægum mannskap að moða til að skrifast á við ACER, skrifa skýrslur fyrir þá stofnun og senda mann reglulega þangað á fundi, auk annarra starfa svo sem að samþykkja og/eða setja reglugerðir. Ein af skyldum landsreglarans verður að knýja á um tengingu við önnur lönd Evrópu, sæstreng.

Landsreglarinn mun þurfa að standa skil á verkum sínum gagnvart ACER og mun fá þaðan tillögur og ráð rökstudd með tilvísunum í lög ESB. Fari hann ekki eftir þessu upplýsir ACER framkvæmdastjórn bandalagsins þar um og hún tekur ákvörðun um hvort fylgt skuli eftir með formlegri hætti gegnum ESA. Vald ACER yfir landsreglaranum verður því ekki formlegt vald, heldur sterkt áhrifavald á snið við íslensk stjórnvöld með bakhjarl í lögformlegu valdi framkvæmdastjórnar ESB. Þetta finnst hinum venjulega Íslendingi ekki í lagi, sérstaklega vegna þess, að landsreglarinn mun í raun stjórna raforkuvinnslu og þar með vinnslu úr orkuauðlindum landsmanna sem fólki finnst eiga að vera þjóðareign eins og auðlindir hafsins.

Allt þjónar þeim eina tilgangi að séð verður, að hér verði kominn „frjáls“ markaður með sama fyrirkomulagi og í Evrópu og lúti sömu reglum þegar sæstrengur tengist. Í formála að tilskipun ESB, sem við þurfum að lögleiða er í tölulið 6 að finna lýsingu í tveim setningum á því hvað slíkur markaður gerir, einskonar gróf verklýsing fyrir hönnun raforkumarkaða. Þar segir í óformlegri þýðingu EES nefndarinnar:

Vel starfhæfur innri raforkumarkaður skal veita framleiðendum viðeigandi hvatningu til fjárfestingar í nýrri orkuframleiðslu, þ.m.t. rafmagni frá endurnýjanlegum orkugjöfum, með sérstaka áherslu á einangruðustu löndin og svæðin á orkumarkaði Bandalagsins. Vel starfhæfur markaður skal einnig tryggja neytendum nægilegar ráðstafanir til að stuðla að skilvirkari orkunotkun, og forsenda þess er örugg orkuafhending.“

Í fyrri setningunni er verið að tala um, að markaðurinn myndi hæfilega hvata fyrir fjárfesta til að reisa nýjar aflstöðvar, en sérstaða hins íslenska orkukerfis er slík, að markaðurinn getur ekki tryggt þessa hvata.

Í síðari setningunni er fjallað um að spara eldsneyti sem við notum ekki, en takið eftir lokaorðum setningarinnar „forsenda þess er örugg orkuafhending“. Til að geta veitt þá tryggingu sem hér er talað um verðum við að taka upp stýringu á vinnslu úr orkuauðlindunum. Sem stendur annast Landsvirkjun þessa stýringu fyrir sinn og þar með stærsta hluta vatnsorkukerfisins, en þegar raforkumarkaðurinn er kominn undir hina „frjálsu“ stjórn landsreglarans ræður hann þegar rekst á við auðlindastýringu Landsvirkjunar. Það er reyndar líklegt, að landsreglarinn fylgi ráðum flestra markaðssérfræðinga sem tjáð sig hafa um raforkumarkað hér, skipti Landsvirkjun upp í smærri eindir og sundri þannig auðlindastýringunni. Þessi stýring verður því alfarið að vera í forsjá íslenskra stjórnvalda, ná til alls landsins og lög þar um verða að taka gildi áður en orkupakkinn er innleiddur.

EES samningurinn sem notaður er til að þvinga þessum orkupakka inn í löggjöf okkar var góður samningur og þrátt fyrir alla þá dellu sem fulltrúar okkar í sameiginlegu EES nefndinni hafa misst fram hjá sér og við innleitt er EES samstarfið okkur hagstætt enn. En af öllu því sem flotið hefur þessa leið með ýmsum góðum nýmælum þá er þriðju orkupakkinn það arfavitlausasta til að innfæra í okkar aðstæður. Annar orkupakkinn var slæmur og reyndar mikil mistök, en það bætir þar úr skák, að við höfum aldrei þurft að hlíta sumu því sem þar er kveðið á um, meðal annars því að setja hér upp „frjálsan“ raforkumarkað sem virkar ekki.

Venjulegt fólk telur, að of mikið vald yfir auðlindunum sé fært til ACER með orkupakkanum og hvort þar sé um formlegt vald að ræða eða sterkt áhrifavald sé aukaatriði. Aðalatriðið sé að landsreglarinn, sem er armur ACER hér á landi hafi boðvald yfir sem minnstu og alls ekki auðlindum okkar, en hann má skrifast á við ACER. Við stöndum þess vegna frammi fyrir því, að koma á kerfi til að stýra vinnslu úr auðlindunum og reglur þess verða að standa framar reglum landsreglarans. Ella kann þetta mál að auka svo á andstyggð venjulegs fólks á EES samningnum, að honum verði hætt.

This entry was posted in Orka. Bookmark the permalink.