Fyrirvarar við þriðja orkupakka ESB?

Bjarni Jónsson rafmagnsverkfræðingur skrifar um 3. orkumarkaðslagabálk ESB

Fundur Heimssýnar o.fl. 10.09.2018. Þann 10. september 2018 tjáðu 5 Alþingismenn skoðun sína á Þriðja orkumarkaðslagabálki ESB á fundi Heimssýnar á Háskólatorgi Háskóla Íslands. Upphaflega átti að taka málið til afgreiðslu Alþingis vorið 2018, og nú er búizt við þingsályktun frá utanríkisráðherra um að heimila innleiðingu þessa orkubálks í EES-samninginn og þar með í lög landsins haustið 2018, eða ársbyrjun 2019, þótt ekkert sé víst í þeim efnum.

Framsögumenn úr hópi þingmanna á þessum fundi virðast ekki hafa notað sumartímann til að kafa til botns í þessu orkumarkaðsmáli, og er þeim vorkunn, því að gögn ESB um Þriðja orkumarkaðslagabálkinn eru bæði langdregin og tyrfin. Af þessu leiðir, að misskilningur getur hæglega skapazt við lesturinn, og einmitt þess vegna er nauðsynlegt að hafa varann á sér og rannsaka betur atriði, þar sem óvissa virðist vera um túlkun, en þeir staðir eru allmargir í Þriðja orkumarkaðslagabálkinum. Þegar þingmenn að lokum móta afstöðu sína í þessum efnum, er þeim hollt að hafa í huga, að ýmislegt er á huldu um framkvæmd laganna. Hafa verður ríkulega í huga, að hvað Ísland varðar er það að lokum EFTA-dómstóllinn, sem sker úr deilumálum, og Evrópuréttur er ríkjandi í lagaumhverfi þessa dómstóls. Þar sem fordæmi eru fyrir hendi frá ESB-dómstólinum, sem ranglega er nefndur Evrópu-dómstóll, fylgir EFTA-dómstóllinn honum. Nú skal greina frá því, að hjá einum þingmannanna komu óvænt fram hugmyndir hans eða annarra í þingflokki hans um að gera þrjá fyrirvara við samþykkt Þriðja orkumarkaðslagabálksins á Alþingi. Skal hér eindregið vara við því að halda, að í slíkum fyrirvörum sé nokkurt einasta hald, enda fela slíkir fyrirvarar Alþingis ekki í sér nokkra lagalega skuldbindingu fyrir ESB/ACER, Landsreglarann eða aðra á þeim vængnum. Um þetta eru fordæmi frá Noregi, eins og nú skal greina:

Fyrirvarar Noregs:

Djúpstæður ágreiningur var í norska Verkamannaflokkinum haustið 2017 og veturinn 2018 um afstöðuna til Þriðja orkumarkaðaslagabálksins. Grasrót flokksins, verkalýðsfélögin um endilangan Noreg, var algerlega andvíg samþykkt Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB og beitti í málflutningi sínum sams konar röksemdafærslu og grasrót Sjálfstæðisflokksins gerir nú, m.a., að samþykktin muni leiða til hærra raforkuverðs og þar af leiðandi versnandi samkeppnisstöðu atvinnuveganna. Einnig var lýst yfir algerri andstöðu við þá hugmyndafræði, sem leidd er til öndvegis með markaðsvæðingu rafmagnsins í anda ESB, að rafmagnið sé vara, sem fara eigi til hæstbjóðanda. Andspænis þessu er stillt viðteknum viðhorfum í Noregi og á Íslandi, að rafmagnið sé afurð náttúruauðlinda, sem ekki verði aðgreind frá náttúruauðlindinni sjálfri og hljóti þess vegna að lúta auðlindastjórnun, eins og t.d. Íslendingar beita nú um stundir með samspili vatnsaflsvirkjana og jarðgufuvirkjana til hámörkunar þjóðarhags.

Skilyrði hluta norsku stjórnarandstöðunnar í marz 2018 fyrir stuðningi á Stórþinginu við frumvarp norsku ríkisstjórnarinnar um innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn og norska löggjöf voru 8 talsins og komu flest frá Verkamannaflokkinum. Eitt þeirra var, að eignarhald og rekstraryfirráð ríkisfyrirtækisins Statnetts (norska Landsnets) á núverandi sæstrengjum til útlanda héldust óhögguð, þótt Noregur gengi í Orkusamband ESB, og að hið sama mundi gilda um nýja strengi, sem teknir verða í rekstur í framtíðinni, t.d. NorthConnect, sem tengja á saman skozka og norska raforkukerfið. Það er hæpið, að ESB geti fallizt á þetta varðandi nýja strengi, því að slíkt fæli í sér, að norska ríkið væri með samkeppnishamlandi aðgerðir á raforkumarkaði, sem er eitur í beinum ESB, enda eiga allir að standa jafnt að vígi í samkeppninni um að flytja „vöruna“ rafmagn á milli landa.

Stórþingið samþykkti þessa 8 fyrirvara við téðan orkubálk, en festi hann ekki í lög. Þótt fyrirvararnir hefðu verið festir í norsk lög, hefðu þeir ekki skuldbundið ESB/ACER á nokkurn hátt. Í dagblaðinu, Nationen, var þann 2. júní 2018 eftirfarandi haft eftir utanríkisráðherranum, Ine Eriksen Söreide:

Bréfið [til ESB með fyrirvörum Stórþingsins-innsk. BJo] ber að skoða sem yfirlýsingu frá Noregi. Það gerir grein fyrir forsendum þess, að Stórþingið gaf samþykki sitt til að tengja Noreg við Þriðja orkumarkaðslagabálkinn. Það er ekki lagalega bindandi, en það lýsir skoðun annars aðilans.“

Sigbjörn Gjelsvik, Stórþingsmaður Miðflokksins, gagnrýndi þessa aðferð ríkisstjórnarinnar við að koma fyrirvörum þingsins á framfæri, enda hefði utanríkisráðherrann neitað að svara því, hvort einhver viðbrögð hefðu borizt frá ESB. Hann benti á, að önnur vinnubrögð hefðu verið viðhöfð við innleiðingu Evrópugerðarinnar um bankaeftirlitið. Þá hefðu báðir aðilar komið sér saman um sameiginlega yfirlýsingu. Það væri meira hald í slíku. Gjelsvik lagði áherzlu á, að ramminn um orkustefnu ESB væri breytingum undirorpinn. ESB ynni nú að s.k. Vetrarpakka, sem á að verða stefnumótandi eftir 2020.

Gjelsvik er gagnrýninn á meðhöndlun hinnar ESB-sinnuðu ríkisstjórnar Noregs á orkumálunum gagnvart ESB:

Þetta er mjög þunnt, og það fellur að ákveðnu mynztri. Þegar Noregi fyrr í ár var boðið á ESB-fund um framtíðarþróun regluverks Orkusambandsins, tók Terje Söviknes [iðnaðarráðherra-innsk. BJo] þann kostinn að sitja heima. [Hvað gerði iðnaðarráðherra Íslands, Þórdís Kolbrún Reykfjörð ?-innsk. BJo]. Þetta er léleg frammistaða hjá ríkisstjórninni og sýnir, hvernig EES-samningurinn virkar. Annar aðilinn sér um samþykktirnar, og hinn aðililinn afritar þær. Þetta ætti að opna augu þeirra, sem ímynda sér eitthvað annað, gagnvart því, að Noregur getur ekki stjórnað framtíðar þróun í ESB. Innan ESB er nú rætt að veita ACER meiri völd, og það er ósennilegt, að við munum hafa fullt vald á orkustefnumótun í framtíðinni.“

Á opnum fundi Heimssýnar o.fl. 10.09.2018 setti Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, fram eftirfarandi hugmyndir um skilyrði þess að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara um samþykki Alþingis á gjörningi Sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 5. maí 2017, þegar hún illu heilli án nokkurra fyrirvara samþykkti einróma að gera téðan orkubálk að hluta EES-samningsins:

  1. Sæstrengstenging við útlönd má ekki hafa áhrif á raforkuverð á Íslandi.

  2. Dómsvald í ágreiningsefnum, er varða téðan orkubálk, skal vera á hendi Íslendinga.

  3. Ákvörðun um sæstreng skal verða í höndum Alþingis.

Varðar a: íslenzk yfirvöld hvorki geta né mega stjórna raforkuverðinu hér innanlands. Slíkt væri brot á Öðrum orkumarkaðslagabálkinum og alger þversögn undir þeim þriðja, þar sem mælt er skýrt fyrir um frjálsa verðmyndun á raforku.

Varðar b: það er algerlega óhugsandi samkvæmt Þriðja orkumarkaðslagabálkinum, að dómsvaldið vegna gjörða Landsreglarans eða ákvarðana ESB/ACER verði hjá innlendum dómstólum. Úrskurðarvald verður undantekningarlaust hjá Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, og dómsvaldið verður hjá EFTA-dómstólinum.

Varðar c: það verður hlutverk reglusetningararms Orkustofnunar ESB, ACER, á Íslandi, sem nefndur hefur verið Landsreglarinn, að semja tæknilega og viðskiptalega skilmála fyrir allar millilandatengingar rafmagns. Ef umsókn frá fjárfesti uppfyllir þessa skilmála, verður leyfisveitandanum, Orkustofnun, ekki stætt á að hafna umsókninni. Geri hún það samt, mun umsækjandinn að öllum líkindum kæra úrskurðinn til ESA, og ágreiningurinn hafnar að lokum fyrir EFTA-dómstólinum, ef ekki nást sættir. Þetta ferli er með öðrum orðum alfarið á hendi framkvæmdavaldsins, og það er stjórnskipulega rangt, að Alþingi blandi sér í þetta mál. Í Noregi mundi það t.d. aldrei gerast, að Stórþingið færi að grípa fram fyrir hendur framkvæmdavaldsins í leyfisveitingamáli („konsesjonsbehandling“). Slík framganga mun án vafa sæta kvörtun og þrýstingi að hálfu Landsreglara, ACER og framkvæmdastjórnar ESB, þar sem Alþingi hefur með banni þar með lagt stein í götu Kerfisþróunaráætlunar ESB, sem þingið í raun undirgekkst að styðja með því að samþykkja Þriðja orkumarkaðslagabálkinn. Bann Alþingis mundi án nokkurs vafa reyna mjög á samstarfið innan EES og jafnvel verða metið til ígildis brots á þeim samningi.

This entry was posted in EES, Orka. Bookmark the permalink.