Alvarlegasta rangfærslan um EES-samninginn

EES-samningurinn hefur verið heilög kýr síðan hann var gerður. Þöggun hefur ríkt um hann í 25 ár, umræður um EES hafa jafnóðum verið kveðnar niður. Beitt hefur verið villandi hártogunum og fölskum fullyrðingum. Opnun umræðunnar í vetur leið leiddi í ljós að upplýsingar, sem bornar eru á borð fyrir almenning um EES, eru margar falskar eða hálfsannar og minna meir á sjónhverfingar en upplýsingar.

Alvarlegasta rangfærslan er „EES tryggir aðgang að innri markaði ESB“ og er þar með gefið í skyn að Íslendingar verði útilokaðir frá viðskiptum við ESB-lönd þegar EES verður sagt upp.

Þetta er gróf og alvarleg afbökun á stöðu mála.

Íslandi var tryggður tollfrjáls aðgangur að mörkuðum Evrópubandalagsins fyrir allar helstu útflutningsafurðir landsins með fríverslunarsamningi sem tók gildi 1973. Samningurinn hefur verið uppfærður og er í fullu gildi og notkun í dag. Helstu útflutningsafurðir Íslands í dag bera 0-toll inn á markaði í ESB samkvæmt honum. Tollskrifstofa ESB.

Takmarkaðan hluta útflutningsins er hagstæðara að tolla samkvæmt EES-samningnum en það veltur á tiltöllega smáum upphæðum. Samið var um að þegar EES fellur úr gildi heldur Fríverslunarsamningurinn áfram gildi sínu. Tollaákvæði WTO taka gildi ef þau eru betri en í Fríverslunarsamningnum. En Tollar samkvæmt WTO eru lágir, það er ein af ástæðum þess að mörgum Bretum hugnast að ljúka samningaferlinu um útgöngu úr ESB með „no deal“, þ.e. að nota WTO-samningana. Bretland, og Ísland, hafa ágætis „deal“ um viðskipti við umheiminn með aðildinni að WTO samningunum.

Á ESB-máli þýðir „innri markaður“ svæðið þar sem ESB hefur tilskipanavald.

-Hvað er að innri markaði ESB? Það er til einfalt, stutt og skorinort svar við þeirri spurningu: Hann er í raun ekki til! Innri markaðurinn er á margann hátt hugarburður. Margir gera ráð fyrir að hann sé til af því að það er talað um hann í svo löngu máli að menn fá á tilfinninguna að hann hljóti að vera til. Raunveruleikinn er þó að hann er aðeins til að nafninu til. Það eru miklar hindranir á milliríkjaviðskipti í ESB og markaðurinn er háður mörgum óvissuþáttum-“ ECIPE hugveitan.

Markaðir ESB eru ekki eins áhugaverðir og áður, hlutur ESB í alþjóðaviðskiptum hefur hrönað jafnt og þétt í áratugi (úr 30% 1980 í 17% ). Stöðnun er viðvarandi í ESB (efnahagöxturinn 1.78% á ári 1996-2018 en verðbólgan 1.97% 1980-2018), atvinusköpun lítil og atvinnuleysi landlægt.

Vaxandi safn verslunarhafta, kvaða, leyfiskerfa og regluverks í ESB (og EES) gera sölu á markaði ESB kostnaðarsama. Leyfi sem kosta milljónir króna þarf fyrir ýmsum hráefnum, vottanir og stimpla þarf á búnað og tæki, „markaðsleyfi“ á sérvörur o.s.frv. EES-regluverkið er farið að spilla sölustarfi íslenskra fyrirtækja á alþjóðamörkuðum. Einn forsvarsmaður íslensks útflutningsfyrirtækis sagði:

-“fyrirtækið er gert ósamkeppnishæft á alþjóðamörkuðum utan ESB vegna EES-regluverksins-“.

Markaðir ESB-landa sitja í vaxandi reglufeni innan haftamúra ESB/EES. Íslensk fyrirtæki eru mörg í vexti og mega ekki við hamlandi regluverki EES við sókn sína út á alþjóðamarkaði. EES-samningurinn setur höft á viðskipti Íslands við sögulega mikilvægustu viðskiptalaöndin, USA, Rússland, Austur-Asíulönd. Og Bretland frá og með apríl á næsta ári.

ESB-fyrirtæki hafa einokunaraðgang að íslenskum mörkuðum á vissum sviðum með hjálp ýmissra reglna frá ESB. Afleiðingin er hærra vöruverð hér en ef vörurnar væru af alþjóðamarkaði og keyptar beint hingað. Bíla, frá öðrum stöðum en ESB, er frágangssök flytja inn vegna regluverks ESB. Nema á háu verði í gegnum umboð eða flutningsskrifstofur í ESB. Niðurgreiddum landbúnaðarafurðum ESB er verið að koma fyrir á markaði hér, innan múra ESB/EES. Stærri útboð á framkvæmdum, og jafnvel inkaupum öðrum, eru einskorðuð við verktaka í ESB/EES.

Hagkvæm vöruinnkaup á alþjóðamarkaði eru oft ógerleg vegna verslunarhafta ESB inn á EES.

ESB þarfnast íslenskrar vöru og mun ekki sjá sér hag í útilokunartilburðum eða refsiaðgerðum gegn Íslandi og Noregi þegar EES verður sagt upp. Íslenskar vörur eru almennt vel seljanlegar á alþjóðamörkuðum utan ESB og stundum borgar sig ekki að fá dýran stimpil eða uppfylla kvaðir ESB/EES.

Þjónustuviðskipti við ESB munu halda áfram með eða án EES. Þau eru byggð á alþjóðasamkomulagi, GATS, sem veitir Íslandi aðgang að alþjóðamörkuðum fyrir þjónustu.

EES hefur litla jákvæða þýðigu fyrir sölu íslenskra vara og þjónustu á „innri markaði“ ESB. En vaxandi neikvæða þýðingu vegna kvaða, hafta og regluverks sem gera ESB-markaðina óaðgengilegri og EES samninginn byrði á mörgum útflutningsfyrirtækjum, sérstaklega þeim sem starfa á alþjóðamarkaði.

Aðrir samningar sem Ísland hefur gert, s.s. Fríverslunarsamningurinn við EB, WTO- og GATS- samningarnir og fríverslunarsamningar sem EFTA hefur gert eða stjórnvöld hér á eigin vegum, tryggja Íslandi betri aðgang að mörkuðum heimsins en EES samningurinn.

This entry was posted in EES. Bookmark the permalink.