Á ESB að stjórna fjárfestingum á Íslandi?

ESB-sinnar í stjórnkerfi landsins voru svo áfjáðir í að koma valdi ESB yfir landið að samkeppnislög með EES-ákvæðum (nr 8/1993) voru sett áður en EES-samningurinn gekk í gildi. Með þeim fengu Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, og EFTA-dómstóllinn í raun framkvæmdavald og dómsvald hér. (Ath! Nöfn stofnananna eru rangnefni, þær hafa hvorki lögsögu né hlutverk í EFTA, aðeins í EES). Og það sem var enn grófara brot gegn íbúum landsins var að framkvæmdastjórn ESB og dómstóll fengu líka vald til að ganga að Íslendingum.

-Eftirlitsstofnun EFTA og EFTA-dómstólnum er heimilt að leggja sektir á fyrirtæki, samtök fyrirtækja eða einstaklinga fyrir brot á EES-samningnum-. -Sama gildir um framkvæmdastjórn EB og dómstól EB -. -Sömu aðilar geta einnig lagt á févíti til að tryggja að farið verði eftir ákvörðunum sem teknar eru á grundvelli samkeppnisreglnanna-. Ákvarðanir um sektir og févíti samkvæmt framanskráðu eru aðfararhæfar- (úr samkeppnislögum).

Samkeppnislögin (frá 1993, síðar „uppfærð“ í lög nr 44/2005 og áfram með breytingum) eru illtúlkanleg fyrirmæli sniðin að ESB. Þau eru hemill á íslenskt atvinnulíf og þróun þess. Eftirlitið með tilskipununum, núna kallað Samkeppniseftirlitið, er í raun framkvæmdasýsla ESB um EES-tilskipanir um fyrirtækjarekstur hérlendis. ESB-valdið er þannig farið að teygja anga sína beint til íslenskra fyrirtækja (sjá dæmi um afskipti ESA af málefnum BYKO). Sektarheimildir erlendra stofnana á íslenska aðila ganga framhjá stjórnarskrárvörðum réttindum íbúa landsins.

ESA getur samkvæmt EES-reglum líka gefið út valdsboð um eignarhald á íelenskum fyrirtækjum (sbr. kauptilboð Norsk Hydro í ISAL)

ESA segir ríkisstjórn Íslands, Alþingi og íslenskum dómstólum fyrir verkum.

Ríkisaðstoð við fyrirtæki er bönnuð samkvæmt EES. -Hafi ríkisaðstoð – verið tilkynnt ESA geta íslensk stjórnvöld ekki úrskurðað um það hvort aðstoðin sé í samræmi við leyfilegan opinberan fjárhagsstuðning fyrr en ESA hefur tilkynnt um álit sitt á málinu- ( úr samkeppnislögum)

ESA fyrirskipaði íslenskum stjórnvöldum árið 2009 „-að grípa til viðeigandi aðgerða til að afnema ótakmarkaða ríkisábyrgð til Landsvirkjunar -“ Eftir skoðun og langa mæðu komst ESA að því (26.9.2018) að Landsvirkjun öðlaðist ekki ágóða af völdum ríkisábyrgðar og lokaði ESA þess vegna málinu!

Það nær auðvitað engri átt að ESA hafi fengið heimildir til þess að skipta sér af ábyrgðum íslenska ríkisins til fyrirtækis síns, Landsvirkjunar. Þegar EES-samningurinn var gerður átti hann ekki að ná til orkumála. En með m.a. samkeppnislögunum og breytingunum á raforkulögunum 2003 kemst ESB bakdyramegin inn í orkumál landsins. Þegar litið er á orkumál ESB, þar sem eru mikil vandamál og mjög hátt orkuverð, verða afskipti erindreka ESB af íslenskum orkumálum í skjóli EES enn óálitlegri.

This entry was posted in EES, Orka. Bookmark the permalink.