EES hefur skaðað orkukerfi landsins

EES-regluverkið er þegar tekið að rýra afrakstur landsmanna af orkuauðlindunum. Það hefur aukið kostnað og dregið úr hagræði fyrirtækja og stofnana og minnkað arð þjóðarheildarinnar af íslenskum orkuverum. Fyrir daga EES var Ísland í fararbroddi með hagkvæma orku og hagstætt orkuverð. Lágt orkuverð og góð lífskjör fara jafnan saman. Tilskipanir sem Alþingi á að stimpla nú í vetur (3. orkupakki ESB) munu síðan afnema forskot Íslands af orkuauðlindunum.

Sundurlimun orkufyrirtækja var fyrirskipuð með tilskipun ESB (96/92) og kom í orkulög 2003. Tilefnið var sagt vera „að auka samkeppni og sjálfbærni“. Landsnet var klofið út úr Landsvirkjun og RARIK, ON og Veitur úr Orkuveitu Reykjavíkur o.s.frv. Nokkur lítil fyrirtæki urðu minni og tvöfalt fleiri. Afleiðingin varð óhagkvæmari rekstur orkukerfisins og dýrari orka. Samningar við orkukaupendur urðu erfiðari þar eð semja þarf við fleiri aðila sem sjá um afhendingu orkunnar. ESB-lög eru hönnuð fyrir stórveldi og gera ógagn hér, fjöldasamkeppni er ekki hægt að koma við þannig að hún verði virk við orkusölu hérlendis. Orkuverðið er þegar orðið of hátt og fyrirtæki að flosna upp.

Umhverfismat og starfsleyfi. EES-tilskipanir hafa orðið að flóknu regluverki og stofnanakerfi um umhverfismat um virkjanir og raflínur, og um atvinnutæki sem kaupa orku, með mikilli óþarfri skriffinnsku. Mat, umsagnir og úrskurðir margra aðila tefja og valda auknum kostnaði. Starfsleyfisumsóknir eru dýrar og tímafrekar og hamla uppbyggingunni. Óviðkomandi aðilar geta tafið framkvæmdir í langan tíma án mikilla röksemda. Ofan á það bætast ýmsar tafir, s.s. lög um „nýtingaráætlun“ sem hafa reynst hemill á uppbyggingu orkugeirans.

Samkeppnislög. EES-regluverkið bannar íslenska ríkinu að veita sínum orkufyrirtækjum lánsábyrgðir nema með leyfi ESA. Hömlur eru komnar á stuðning ríkisins við atvinnuuppbyggingu en frá upphafi tæknivæðingar Íslands hefur oft þurft mikinn stuðning ríkis og sveitarfélaga.

Einkavæðing hefur almennt gefist illa þar sem hún hefur verið reynd. Orkuverin eru í eðli sínu einokunarfyrirtæki á sínu nærsvæði. Eitt af mikilvægustu fyrirtækjunum, Hitaveita Suðurnesja, lenti í einkavæðingu sem gerir því erfitt fyrir að framleiða orku á hagstæðu verði eins og almannafyrirtæki. Fjárfestar í ESB, sem vilja leggja sæstreng og flytja burt orkuna, hafa verið að bera víurnar í hlut í HS. Hvaða aðilar sem er á EES/ESB geta keypt hlut samkvæmt EES og geta íslensk stjórnvöld ekkert gert. Nema að almannanýta HS aftur eða segja EES-samningnum upp.

Hliðarverkefni. Orkufyrirtæki hafa eytt miklu fé í ýmiss verkefni sem ekki koma þeirra hlutverki við. Landsvirkjun hefur eytt miklum tíma og kostnaði í að undirbúa sæstrengslagningu til Bretlandseyja. Það er gömul hugmynd og hefur verið marg reifuð og er bæði þjóðhagslega óhagkvæm og óraunhæf. Eytt hefur verið miklu fé í vindmyllur, þær eru óöruggar, umhverfisspillandi, dýrar og hættulegar.

Losunarheimildir fyrir koltvísýring þurfa margir orkunotnendur að eyða fé í að kaupa í ESB. Það er samkvæmt ETS, viðskiptakerfi ESB sem íslensk stjórnvöld drógu landið inn í að óþörfu en í löndum þar sem er atvinnuuppbygging eru almennt ekki landslög um losunarheimildaverslun. ETS fælir fjárfesta frá og dregur úr uppbyggingarvilja fyrirtækja hérlendis og þar með úr eftirsókn eftir orku. Svindl og blekkingar hafa verið landlægar í kerfinu og gagnsemi í umhverfisvernd vafasöm. ETS færir mikið fé úr landi. Ef kerfið væri íslenskt mætti veita fénu í landgræðslu og skógrækt hérlendis.

Upprunavottorð. EES heimilar orkuverum að gefa út og selja uprunavottorð um orkuframleiðslu. Íslensk orkufyrirtæki hafa selt upprunavottorð fyrir 87% af framleiðlsunni en fengið í staðinn skráningu sem kjarnorkuver eða jarðefnaorkuver. Það setur stein í götu íslenskra fyrirtækja sem kynna sig sem notendur umhverfisvænnar orku.

Of hátt orkuverð. Orkuverð hefur hækkað og er nú svo komið að Ísland er ekki samkeppnishæft við Noreg eða Kanada um iðnaðarfjárfestingar eins og það var fyrir daga EES. Orkufyrirtækin hafa líka komist fram með að hækka verð að óþörfu. Landsvirkjun er með hæsta gróða sem um getur á sama tíma og uppbyggingin er treg og viðskiptamenn orkuveranna eru í uppnámi eða eru að losa sig við iðjuver. Hlutverk orkufyrirtækjanna á að vera að útvega sjálfbært hagkvæma orku fyrirtækjum og heimilum í landinu, ekki að skila gróða enda ekki hlutafélög í einkaeigu (nema HS). Nýlega (2010) hækkaði Landsvirkjun verðið til ISAL upp í nærri tvöfalt verð til annarra iðjuvera. Ætlunin er að hækka orkuverð til þeirra líka. Iðjuver ISAL er nú til sölu. Helsti iðnaður landsins mun fara til betri heimkynna ef áfram heldur með orkuverðshækkanir.

EES hefur tvístrað orkugeiranum, hækkað kostnað og orkuverð og hægt á uppbyggingu. Orkutengd atvinnustarfsemi, sem er landföst og mjög verðmætaskapandi, er sumstaðar komin í vandræði og með lokunarhugmyndir.

Tilskipanapakki (3. orkupakkinn), sem liggur fyrir Alþingi að stimpla, mun færa enn meira stjórnvald yfir orkumálum til ESB og í framhaldinu afnema fskjarabót Íslendinga af orkulindunum.

(sjá nánar greinar í flokknum Orka hér á síðunni)

This entry was posted in EES, Orka. Bookmark the permalink.