Að sólunda erfðasilfrinu

Komið hefur í ljós að íslensk stjórnvöld hafa látið fyrirtæki í eigu þjóðarinnar vinna með ESB um langt skeið að því að koma afrakstri íslenskra orkuauðlinda ónýttum til ESB. Ráðherra í ríkisstjórninni má skilja þannig að Alþingi eigi að samþykkja 3. EES-tilskipanapakkann um orkukerfið sem afsalar stjórnvaldi yfir orkukerfi landsins til ESB.

3. orkutilskipanapakkinn tekur gildi strax og Alþingi samþykkir hann og með honum kemur meira af skaðlegu regluverki ESB til viðbótar 1. og 2. tilskipanapökkunum sem tvístruðu orkufyrirtækjunum. Reglur risavaxinna orkukerfa ESB verða settar yfir orkukerfið hér, sjálfræðið verður tekið af íslenskum rekstraraðilum og skrifræði og óhagræði aukið. Yfirvaldið færist til ESB og ný valdsboð verða sett í framkvæmd án þess að íslensk stjórnvöld hafi eitthvað um það að segja. Sýndarsamkeppni verður komið á, það eru óskilvirkar samkeppnisreglur stórkerfa yfir orkukerfi með fá og staðbundin orkufyrirtæki. Frelsi orkufyrirtækja til að verðleggja orkuna verður aukið. Landsnet, sem er klofningsfyrirtæki út úr ríkisfyrirtækjunum Landsvirkjun og RARIK, verður einkavætt og stefnt að að fleiri almannafyrirtæki verði einkavædd. Orkuverð mun hækka. Orkumál ESB eru í vaxandi ólestri, hagkvæmum orkuverum er lokað og óhagkvæm reist. Orkuverðið víða í ESB er eitt það hæsta á byggðu bóli. Ásælni ESB í íslenskar orkulindir skýrist m. a. af því að ESB getur ekki rekið sín orkukerfi hagkvæmlega. Með 3. tilskipanapakkanum verður íslenska orkukerfinu stjórnað beint af ESB með hagsmuni sambandsins að leiðarljósi

Sæstrengurinn, sem leiða á íslenskt rafmagn til ESB, veður í byrjun 1,2 GW af 2,7 GW heildarrafafli landsins. Nærri helmingur af aðgengilegu rafafli landsins! Það þýðir að loka verður stórum hluta af mikilvægum gjaldeyrisaflandi fyrirtækjum í landinu, fyrirtækjunum sem áttu einn stærsta þáttinn í að bjarga okkur í Hruninu. Eða að öðrum kosti að byggja mikil orkumannvirki sem kallar á mikil umhverfisáhrif sem ekki er sátt um. Atvinnusköpun og þjóðarhag verður fórnað og áhættan fyrir þjóðarbúið er tröllvaxin. Og stofnkostnaðurinn með öllu verður af stærðinni 1000 milljarðar, langt fram yfir það sem Íslendingar ráða við. Markmiðið með 3. pakkanum er að nýta alla aðgengilega orku í þágu ESB og tengja orkukerfi landa EES og ESB saman. Sæstrengurinn er á áætlun ESB 2027.

Útflutningstekjur íslenskra fyrirtækja, sem eru samkeppnishæf á alþjóðavísu, byggja að miklu leyti á hagstæðri og öruggri orku. Þau eru landföst, þau fara ekki úr landi þó verði tísku- eða markaðssveiflur, meðan íslenska orkukerfið er í lagi. Þessi fyrritæki eru grundvöllur búsetu og menningarsamfélags í landinu. Fyrri orkupakkar á EES gerðu orkukerfið þyngra. Fyrirtæki hafa orðið að þola hærra orkuverð eftir að EES komst á og sjá fram á enn óhagkvæmara og dýrara orkukerfi þegar það kemst undir beina yfirstjórn ESB. Árangurinn mun verða, eins og víða í ESB, að uppbygging atvinnu verður tregari og orkukaupendur loka sínum fyrirtækjum eða flytja til annarra landa þar sem orka er á skynsamlegu verði. Afleiðing atvinnuleysi og tekjumissir samfélagsins.

Ef orkuauðlindin fer undir fjarlæga stjórn, og verður sólundað með hag annarra í huga, verður fótunum rykkt undan íslensku velsældinni og sómasamlegu siðmenningarsamfélagi í landinu.

This entry was posted in EES, Orka. Bookmark the permalink.