Að flæma fyrirtækin úr landi

Slök hagsmunagæsla okkar stjórnvalda hefur haft slæm áhrif á samkeppnisstöðu fyrirtækja í landinu, sérstaklega þeirra sem nota mikla orku.

Orkuverðið frá virkjunum í okkar þjóðareigu er orðið of hátt og stefnir í frekari hækkanir. Ofan á þ hefur verið að bætast vaxandi kostnaður á iðnfyrirtækin við kaup á „koltvísýringslosunarkvóta“ í kerfi ESB, s.k. ETS. Það er stjórnlaust braskkerfi um losunarkvótaviðskipti sem Ísland var dregið inn í að óþörfu vegna EES. Og nú er stefnan að bæta um betur og setja mest alla aðra starfsemi í landinu undir en eitt ESB-braskkerfið, ESR.

Raforkukerfið var gert óhagkvæmara með EES-tilskipunum (orkupakka 1 og 2) sem Alþingi samþykkti að óþörfu. Og nú eru á dagskrá meiri skemmdarverk (3. pakkinn). Orkuverðið hefur þegar þurft að hækka vegna 1. og 2. pakkans. En ofan á bætist að orkuver í eigu þjóðarinnar hafa verið að hækka verðið á raforkunni fram yfir það sem kostnaður gefur tilefni til. Orkuverð til stærri iðnar í nálægustu samkeppnislöndum Íslands er um 20-25 en hjá okkur stefnir það í 30-40 (USD/MWt) og er því Ísland að verða ósamkeppnishæft um orkunotandi iðnað. Stefnan með nýjum tilskipunum virðist vera að orkunni, sem ekki verður þörf á lengur til iðnaðarins, verði veitt til ESB gegnum sæstreng.

ETS flytur stórfúlgur úr landi

ETS-kerfið legst með vaxandi þunga á íslenskan iðnað og flytur fúlgur fjár úr landi. Flugfélögin sitja líka í súpunni. ETS kerfið var ekki hluti af alþjóðlegum skuldbindingum Íslands um koltvísýringslosun og því óþarfi að láta það ganga í gildi hér. Það var skortur á hagsmunagæslu okkar stjórnvalda að láta ETS ná til Íslands þar sem aðstæður eru allt aðrar en í ESB. Hér er orkukrefjandi iðnaður, sem að miklu leyti er aflagður í ESB, og langar flugleiðir. Þau lönd á okkar heimssvæði sem iðjuver hér keppa einna mest við eru Vesturheimur (Bandaríkin) og Rússland. Þau lönd eru ekki með slík kvótakerfi á iðnaðinn, reyndar er minnihluti landa með kvótakerfi á koltvísýringslosun enda hafa þau reynst vafasöm.

—Þegar horft er til lang­tímaþró­un­ar á inn­lend­um kostnaði hef­ur hann einnig hækkað. Þá hef­ur verð á los­un­ar­heim­ild­um inn­an ETS, viðskipta­kerf­is ESB um los­un­ar­heim­ild­ir, marg­fald­ast. Mik­il­vægt er að þeir fjár­mun­ir skili sér aft­ur til Íslands—“ (Pétur Blöndal hjá samtökum áliðnaðarins í Mbl 18.12.2018)

Stjórnvöld okkar vinna nú að því að koma skipum og útgerð, sem og öðrum fyrirtækjum í landinu sem nota eldsneyti, undir losunarviðskiptakerfi hjá ESB.

Fjárausturinn í koltvísýringslosunarkvótakerfi ESB stefnir í að verða gengdarlaus (um 270 milljarðar á næsta áratug) og fyrirtækjum hér á landi alvarlegur samkeppnishemill. Ef á að uppfylla óskir Péturs Blöndal hjá Samál og nýta féð hér innanlands þarf taka Ísland úr ETS kerfinnu þar sem óútreiknanlegir dintir braskaranna ráða og enginn veit hvert stefnir. Álögurnar á iðnaðinn hér má setja í íslenskt losunarkerfi og stilla þeim í skynsamlegt hóf með forsjálni en veita fénu til uppræktunar á íslenskum eyðimörkum.

This entry was posted in EES, Orka. Bookmark the permalink.