„Með þessu eru íslenskir ráðamenn í raun að leiða þjóðina hægt og bítandi inn í ESB, án þess að hún fái nokkru um það ráðið.“ Björn Bjarnason, fv. ráðherra, ritar grein í Morgunblaðið 28. desember sl. „Fullveldið, stjórnarskráin og alþjóðastarf“. Fjölnismenn, stjórnarskráin, þingræðisreglan og alþjóðasamninga er allt skeytt að niðurstöðu greinarinnar sem nefnist „EES-aðild í stjórnarskrá“. Þar gengur núverandi formaður endurskoðunarnefndar um EES-samninginn svo langt að leggja að jöfnu þingræðisregluna og EES-samninginn sem stjórnskipunarreglu.
Dáðleysi ráðamanna
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem stjórnmálamenn sem eru hallir undir aðild að ESB, tengja EES-samninginn við aðra alls ólíka alþjóðasamninga, þar sem Ísland er fullgildur og jafnrétthár aðili eins og hvert annað ríki og ræður því hvað þarf að taka upp í íslensk lög. Ráðandi stjórnvöld hafa síðasta áratuginn gefið æ meira eftir vaxandi kröfu ESB um upptöku laga sem sniðin eru að Evrópu, en koma Íslandi ekkert við, samanber orkumál.
Það er ljóst að stjórnvöld vilja ekki styggja miðstjórnina í Brussel, það sést best á sjálfvirkri afgreiðslu mála inni í Sameiginlegu EES-nefndinni, samþykkt þar er skuldbindandi fyrir Ísland, þrátt fyrir stjórnmálalegan fyrirvara um samþykki Alþingis. Gagnrýni á málið er afgreidd með tilvísun um fyrri samþykkt utanríkismálanefndar. Þessa ólýðræðislegu sjálfvirku afgreiðslu ESB gerða vilja ráðamenn kalla stjórnskipunarhefð eða reglu, til að réttlæta ferlið. Með þessu eru íslenskir ráðamenn í raun að leiða þjóðina hægt og bítandi inn í ESB, án þess að hún fái nokkru um það ráðið.
Stjórnarskrárgrýlan notuð á EES-samninginn
Fv. ráðherra segir að fræðimenn í stjórnskipunarrétti séu ósammála um hvenær alþjóðasamningar skerði fullveldisákvæði stjórnarskrárinnar, og segir að „betra sé að móta reglu sem setji þátttökunni mörk en að stofna til ágreinings sem umboðslausum fræðimönnum sé síðan ætlað að leysa úr með álitsgerðum“, hann leggur til að reglan sé að „að festa aðildina að EES eina í stjórnarskrána“. Greininni í heild er ætlað að draga fjöður yfir gagnrýni á að þróun til miðstýringar í ESB sé verið að yfirfæra á Ísland í gegnum EES-samninginn, og í stað þess að ræða og takast á við þá óheillaþróun er stjórnarskránni kennt um að vera fyrir EES-samningnum. Það er verið að afvegaleiða og blekkja almenning með slíkri umræðu og er hættulegt sjálfstæði landsins, þegar fylgispekt ráðamanna við ESB er orðin slík að gera tillögu um að viðskiptasamningur sé felldur inn í stjórnarskrána, eins og hann verði þar um ókomna framtíð. Enginn ágreiningur er um að Ísland gerist aðili að alþjóðasamningum þar sem landið er fullgildur og jafnrétthár meðlimur, öfugt við ólýðræðislega þróun EES samningsins sem krefst þess að ákvörðunarvald um innlenda hagsmuni sé í höndum erlendra stofnana og dómstóla.
Höfundur, Sigurbjörn Svavarsson, er formaður Frjáls lands. s.svavarsson@gmail.com
Greinin birtist í Morgunblaðinu 4.1.2019