Að beygja stjórnarskrána undir EES-samninginn

Með þessu eru ís­lensk­ir ráðamenn í raun að leiða þjóðina hægt og bít­andi inn í ESB, án þess að hún fái nokkru um það ráðið.“    Björn Bjarna­son, fv. ráðherra, rit­ar grein í Morg­un­blaðið 28. des­em­ber sl. „Full­veldið, stjórn­ar­skrá­in og alþjóðastarf“. Fjöln­is­menn, stjórn­ar­skrá­in, þing­ræðis­regl­an og alþjóðasamn­inga er allt skeytt að niður­stöðu grein­ar­inn­ar sem nefn­ist „EES-aðild í stjórn­ar­skrá“. Þar geng­ur nú­ver­andi formaður end­ur­skoðun­ar­nefnd­ar um EES-samn­ing­inn svo langt að leggja að jöfnu þing­ræðis­regl­una og EES-samn­ing­inn sem stjórn­skip­un­ar­reglu.

Dáðleysi ráðamanna

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem stjórn­mála­menn sem eru hall­ir und­ir aðild að ESB, tengja EES-samn­ing­inn við aðra alls ólíka alþjóðasamn­inga, þar sem Ísland er full­gild­ur og jafn­rétt­hár aðili eins og hvert annað ríki og ræður því hvað þarf að taka upp í ís­lensk lög. Ráðandi stjórn­völd hafa síðasta ára­tug­inn gefið æ meira eft­ir vax­andi kröfu ESB um upp­töku laga sem sniðin eru að Evr­ópu, en koma Íslandi ekk­ert við, sam­an­ber orku­mál.

Það er ljóst að stjórn­völd vilja ekki styggja miðstjórn­ina í Brus­sel, það sést best á sjálf­virkri af­greiðslu mála inni í Sam­eig­in­legu EES-nefnd­inni, samþykkt þar er skuld­bind­andi fyr­ir Ísland, þrátt fyr­ir stjórn­mála­leg­an fyr­ir­vara um samþykki Alþing­is. Gagn­rýni á málið er af­greidd með til­vís­un um fyrri samþykkt ut­an­rík­is­mála­nefnd­ar. Þessa ólýðræðis­legu sjálf­virku af­greiðslu ESB gerða vilja ráðamenn kalla stjórn­skip­un­ar­hefð eða reglu, til að rétt­læta ferlið. Með þessu eru ís­lensk­ir ráðamenn í raun að leiða þjóðina hægt og bít­andi inn í ESB, án þess að hún fái nokkru um það ráðið.

Stjórn­ar­skrár­grýl­an notuð á EES-samn­ing­inn

Fv. ráðherra seg­ir að fræðimenn í stjórn­skip­un­ar­rétti séu ósam­mála um hvenær alþjóðasamn­ing­ar skerði full­veld­isákvæði stjórn­ar­skrár­inn­ar, og seg­ir að „betra sé að móta reglu sem setji þátt­tök­unni mörk en að stofna til ágrein­ings sem umboðslaus­um fræðimönn­um sé síðan ætlað að leysa úr með álits­gerðum“, hann legg­ur til að regl­an sé að „að festa aðild­ina að EES eina í stjórn­ar­skrána“. Grein­inni í heild er ætlað að draga fjöður yfir gagn­rýni á að þróun til miðstýr­ing­ar í ESB sé verið að yf­ir­færa á Ísland í gegn­um EES-samn­ing­inn, og í stað þess að ræða og tak­ast á við þá óheillaþróun er stjórn­ar­skránni kennt um að vera fyr­ir EES-samn­ingn­um. Það er verið að af­vega­leiða og blekkja al­menn­ing með slíkri umræðu og er hættu­legt sjálf­stæði lands­ins, þegar fylgispekt ráðamanna við ESB er orðin slík að gera til­lögu um að viðskipta­samn­ing­ur sé felld­ur inn í stjórn­ar­skrána, eins og hann verði þar um ókomna framtíð. Eng­inn ágrein­ing­ur er um að Ísland ger­ist aðili að alþjóðasamn­ing­um þar sem landið er full­gild­ur og jafn­rétt­hár meðlim­ur, öf­ugt við ólýðræðis­lega þróun EES samn­ings­ins sem krefst þess að ákvörðun­ar­vald um inn­lenda hags­muni sé í hönd­um er­lendra stofn­ana og dóm­stóla.

Höf­und­ur, Sigurbjörn Svavarsson, er formaður Frjáls lands.  s.svavarsson@gmail.com

Greinin birtist í Morgunblaðinu 4.1.2019

This entry was posted in EES, Utanríkismál. Bookmark the permalink.