Stjórnvöld ætla að samþykkja þungar skuldbindingar á landið

Alþingi á í febrúar að stimpla EES-tilskipun nr. 2018/410 um „loftslagsmál“ sem getur haft í för með sér gífurlegan fjáraustur til ESB. Ísland hefur sem sjálfstætt land gefið loforð á vettvangi alþjóðaráðstefna um að berjast gegn útblæstri „gróðurhúsalofttegunda“. En stjórnvöld okkar ákváðu, án þess að nokkrar skuldbindingar krefðust þess, að auka á kvaðir og kostnað með því að draga Ísland inn í staðbundið regluverk og kvótakerfi ESB um losun „gróðurhúsalofttegunda“ frá iðnaði og flugi, s.k. ETS. Og nú virðist vera ætlunin skrifa upp á enn frekari skuldbindingar og setja aðra starfsemi hér í kvótakerfi ESB.

Þar með kemst mikilvægur stjórnþáttur á orkunýtingu í hendur ESB og undir EES-reglufen að óþörfu og til mikils og vaxandi skaða og gífurlegs kostnaðar. ESB ungar út stöðugum flaum af kvöðum og EES-tilskipunum um „loftslagsmál“ sem byggðar eru á kenningum og oft gagnslausar eða skaðlegar hér á Íslandi. ETS-kerfið er stjórnlaust og svindlriðið braskkerfi um losunarkvótaviðskipti sem flytur stórfé úr landi. Þátttaka í því var ekki hluti af alþjóðlegum skuldbindingum Íslands um losun „gróðurhúsalofttegunda“ og því skortur á hagsmunagæslu okkar stjórnvalda að láta það ná til Íslands. Hér eru aðstæður allt aðrar en í ESB. Hér er iðnaður, sem notar mikla orku, sem að miklu leyti er aflagður í ESB. Og langar flugleiðir. Þau lönd á okkar heimssvæði sem iðjuverin hér keppa einna mest við eru Vesturheimur (Bandaríkin) og Rússland sem eru ekki með slík kvótakerfi á atvinnulífið. Reyndar er minnihluti landa með kvótakerfi um koltvísýringslosun enda hafa kerfin reynst gagnslítil.

„—Þá hef­ur verð á los­un­ar­heim­ild­um inn­an ETS, viðskipta­kerf­is ESB um los­un­ar­heim­ild­ir, marg­fald­ast. Mik­il­vægt er að þeir fjár­mun­ir skili sér aft­ur til Íslands—“ (Pétur Blöndal, Mbl 18.12.2018)

Stjórnvöld okkar eru að leggja drög að frekari skuldbindingum  og setja starfsemi, sem ekki er þegar undir ETS, undir kvótakerfi ESB. Það kallast ESR og kemur framleiðslu, skipum, útgerð ofl. undir kvótakerfi ESB. Taka á upp sérstakt fargan um landbúnað (LULUCF).

Útreikningar á losun eru oft úr lausu lofti gripnir. Oft eru notaðar viðmiðanir sem eru byggðar á kenningum og ekki í samræmi við mælanlegar stærðir. Til dæmis eru útreikningar á áhrifum landbúnaðar byggðir á kenningum sem standast ekki magngreiningu á aðstæðum hérlendis. Endurheimt votlendis er byggð á kenningum sem eru meira ágiskanir en vísindi (Bbl 13.12.2018). Votlendi framleiðir mýragas sem er 20-sinnum sterkari „gróðurhúsalofttegund“ en koltvísýringurinn úr framræsluskurðunum. Að auka votlendi í staðinn fyrir að rækta upp framræsta landið er því til að auka „gróðurhúsaáhrifin“ (það sem hér er kallað „gróðurhúsaárif“ er upptaka varmageislunar frá jörðinni í vatn og lofttegundir í andrúmsloftinu, í gróðurhúsum eru hlýnunaráhrifin vegna veggja og þaks sem stöðva útstreymi heits lofts)

Fjárausturinn í losunarkvótakerfi ESB stefnir í að verða gengdarlaus sóun, áætlun sýnir nálægt 300 milljarða kostnað á næsta áratug sem dugir í ein 20 jarðgöng undir firði og heiðar. Það þarf því að taka Ísland úr ETS kerfinu þar sem óútreiknanlegir dintir braskaranna ráða og enginn veit hvert stefnir, og halda landinu fyrir utan ESR eða önnur losunarkvótakerfi sem ESB mun kokka upp. Álögurnar á íslenska aðila má setja í íslenskt losunarkerfi og stilla þeim í skynsamlegt hóf með forsjálni en veita fénu til uppræktunar á íslenskum eyðimörkum, eða í jarðgangnagerð.

This entry was posted in EES, Umhverfismál. Bookmark the permalink.