Ísland var eitt af löndunum sem stofnuðu alþjóða flugmálastofnunina, ICAO, árið 1944. ICAO sér um alþjóðasamninga og alþjóðareglur um flug, m.a. um að frelsi ríki í flugi milli landa. Það er sú stofnun sem stjórnar því að Ísland, ásamt 6 öðrum löndum, sér um flugumferðastjórn á Norður-Atlantshafi. En með EES-samningnum er flugöryggisstofnun ESB, EASA, komin með stjórnvald yfir flugstofnunum og flugfélögum hér. Þróunin hefur verið að leggja fleiri mál undir ESB. Þungt og bólgnandi regluverk ESB um flug er orðið kostnaðarsamt og hefur haft slæm og versnandi áhrif á sérstaklega lítil flugfélög og einkaflug hér innanlands.
Flugfélagið Ernir fékk nýlega 32-sæta Dorniervél.
„— Þetta hefur kallað á fjárfreka og mikla vinnu við þjálfun áhafna og tæknimanna. Skrásetningarferlið hefur tekið um sjö mánuði og má geta nærri, að þessi langi tími hefur reynt mjög á fjárhagsstöðu félagsins. Flugvélin var loks tilbúin og fór sitt fyrsta áætlunarflug núna í byrjun janúar, en Adam var ekki lengi í Paradís. ISAVIA ákvað skyndilega að stöðva rekstur þessarar flugvélar, vegna skuldastöðu flugfélagsins við þá og brugðust við tímabundnu ástandi á þann máta, að mér finnst með ólíkindum og þeim til vansa.
Þar sem verið var að vinna ásamt erlendum sérfræðingum að viðhaldi flugvélarinnar í upphituðu flugskýli, var vinnan við flugvélina stöðvuð og henni læst utan dyra, þar sem hún var óaðgengileg starfsmönnum félagsins.
• Er það eðlilegt að stofnanir geti kyrrsett atvinnutæki án aðkomu sýslumanns?
ISAVIA-menn hljóta að geta fundið sér eitthvað þarfara og árangursríkara að gera, svo sem að hlúa að grasrótinni í fluginu og reyna að lágmarka ýtrustu kröfur sem berast frá ESB og EES, þannig að reglugerðafarganið verði einkafluginu og sviffluginu ekki ofviða.
ISAVIA verður einnig að láta virkilega til sín taka og sporna við aðgerðum skaðvalda sem vinna leynt og ljóst að því, beint fyrir augum ISAVIA, að eyðileggja Reykjavíkurflugvöll til stórkostlegs tjóns fyrir alla landsmenn og flugstarfsemi—“(Sveinn Björnsson í Mbl 23.1.2019. Höfundur er fyrrverandi eigandi Flugþjónustunnar ehf.)