Bandaríkin tryggja sjálfstæði Íslands

Ásælni Evrópulanda í yfirráð yfir Íslandi er jafn gömul og þjóðin. Eftir að Bandaríkin urðu stórveldi gerbreyttist staða Íslendinga. Bandaríkin voru fyrsta landið til að viðurkenna sjálfstæði Íslands (strax 14.10.1942). Samstarf og viðskipti við Bandaríkin hafa skipt Ísland sköpum og munu gera það í framtíðinni í enn ríkara mæli þegar landið losar sig úr fjötrum einangrunarstefnu ESB og samningsins um evrópska efnahagssvæðið (EES).

Utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Mike Pompeo, var í heimsíkn á Íslandi 15.2.2019. Hann vill efla samvinnu á mörgum sviðum. Bandaríkin eru mesta stórveldi heims og hafa leitt tækniþróun heimsins í meir en öld. Þeir eru nú komnir af stað með nýja uppbyggingu síns samfélags og iðnaðar. Og Bandaríkin eru aftur orðin stærsta einstaka viðskiptaland Íslands. Pompeo mælti fyrir auknum viðskiptum.

Pompeo var spurður um hvort samtalið við Guðlaug Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, gæti mögulega leitt til fríverslunarsamnings; sagði hann að það yrði góð niðurstaða ef hægt yrði að semja um slíkan samning en það ætti einfaldlega eftir að koma í ljós hvort sú yrði niðurstaðan eða hvort samstarfið myndi einfaldlega snúast um að draga úr viðskiptahindrunum. Það yrði að sama skapi góð niðurstaða. (Mbl 16.2.2019)

Mjög miklar hindranir eru í EES/ESB á sölu bandrískra afurða og þarf Ísland fyrr eða síðar að losna undan þeim.

Bandaríkin hjálpuðu Íslendingum við að komast úr fátækt, komu með fé til uppbyggingar, byggðu mannvirki og opnuðu á viðskipti. Þeir vildu hafa okkur sem bandamenn. En þeir, stórveldið sjálft, reyndu aldrei að hrifsa til sín stjórnvald yfir landinu eða að senda okkur tilskipanir eins og Evrópusambandið gerir. Þegar EES-samningurinn var gerður áttuðu Íslendingar sig ekki á að verið var að leiða gömlu stríðsþjóðirnar í Evrópu, sem Bandaríkin hafa jafnan þurft að friða, til valda á Íslandi og að EES mundi spilla viðskiptum okkar við Bandaríkin.

Bandaríkin hafa ekki slitið vinskapnum við Ísland, á hann hefur jafnan verið hægt að treysta og verður áfram. Heimsókn Pompeo sýnir að Bandaríkin eru enn sem fyrr hliðholl Íslandi. Þess vegna þurfa Íslendingar ekki að vera hræddir við að losa landið undan hrammi ESB.

This entry was posted in Utanríkismál. Bookmark the permalink.