“Allt fyrir ekkert” samningurinn

Eftir Gústaf Adolf Skúlason 

Hlut­verk rík­is­stjórn­ar­inn­ar verður þvert á niður­stöðu lýðræðis­legra kosn­inga að tryggja hags­muni og völd Evr­ópu­sam­bands­ins á Íslandi.“

Illa er komið þegar ut­an­rík­is­stefna rík­is­stjórn­ar­inn­ar er í hönd­um ESB og þjóðinni aðeins boðið upp á eina niðursneidda með öllu frá Brus­sel eða beina leið til vít­is. Íslandi má fórna fyr­ir EES-samn­ing­inn, land­búnaður og orku­auðlind­ir lands­manna er selt í hend­ur er­lendra aðila og stjórn­ar­skrár­vörðu lög­gjaf­ar- og dómsvaldi lýðveld­is­ins fargað. Kom­ast á hjá áliti lög­fróðra manna og af­sala lýðræði og lýðveldi í sneiðum í nafni heil­agr­ar „frjálsr­ar“ versl­un­ar.

Ut­an­rík­is­ráðherra vill „lyfta umræðu um EES-samn­ing­inn upp á hærra plan en tíðkast hef­ur síðustu miss­er­in“.(Guðlaug­ur Þór Þórðar­son, ávarp á mál­stofu 6. fe­brú­ar). Það er skilj­an­legt miðað við þá af­stöðu ráðherr­ans, að eini val­kost­ur­inn við EES-samn­ing­inn er að Ísland gangi „í ESB með öllu því sem aðild fylg­ir“. Eng­um „dett­ur í hug að Ísland gæti upp á eig­in spýt­ur náð samn­ingi við ESB um sam­bæri­leg eða betri kjör en þau sem við njót­um sam­kvæmt EES-samn­ingn­um“. Með þess­ari full­komnu upp­gjöf gagn­vart ESB dæm­ir ut­an­rík­is­ráðherr­ann sjálf­an sig og rík­is­stjórn­ina úr leik. Ut­an­rík­is­stefna rík­is­stjórn­ar­inn­ar breyt­ir ís­lensk­um emb­ætt­is­mönn­um í eft­ir­lits­menn með fljót­virkri inn­leiðingu á lög­um ESB í ís­lenska stjórn­sýslu. Hlut­verk rík­is­stjórn­ar­inn­ar verður þvert á niður­stöðu lýðræðis­legra kosn­inga að tryggja hags­muni og völd Evr­ópu­sam­bands­ins á Íslandi. EES-samn­ing­ur­inn er í hönd­um rík­is­stjórn­ar­inn­ar eins og djásn Smjagalls – „Allt fyr­ir ekk­ert“- hring­ur­inn.

Ut­an­rík­is­ráðherr­ann tel­ur EES-samn­ingn­um til fram­drátt­ar að „um þriðjung­ur Íslend­inga er fædd­ur eft­ir gildis­töku samn­ings­ins og lík­legt er að stór hluti lands­manna muni vart eft­ir líf­inu fyr­ir til­komu EES“. Varla voru það rök þeirra sem fædd­ust eft­ir valda­töku naz­ism­ans, að þeir ættu að fylgja Hitler að mál­um eða rök Reyk­vík­inga fæddra eft­ir valda­töku gn­arr­ism­ans að þeir ættu að kjósa Dag B. Eggerts­son því þeir muni vart annað. EES-samn­ing­ur­inn er í dag orðinn eins og borg­ar­stjórn­ar­meiri­hluti Reyk­vík­inga: Minna en ekk­ert fyr­ir allt.

Ut­an­rík­is­ráðherr­ann læt­ur eins og ekk­ert hafi gerst sl. 25 ár og að dýrðarljómi ESB skíni skær­ar en áður. Guðlaug­ur Þór Þórðar­son virðist ekki hafa frétt neitt af þúsund og einni kreppu ESB, sem er svo spillt að eng­inn fæst til að und­ir­rita bók­haldið. Svindl óreiðumanna hef­ur dregið lönd­in í suðri í ör­birgð og fært Þýzkalandi ómæld­an evru­gróða. Seðlabanki ESB hef­ur fulla hlöðu af verðlaus­um rík­is­skulda­bréf­um sem sögð eru eiga að vera bak­hjarl pen­inga­aust­urs í pyngj­ur fjár­glæframanna. Af­leiðing­arn­ar blasa við; at­vinnu- og eigna­leysi fólks og hag­vöxt­ur við frost­mark. Í ofanálag þving­ar ESB aðild­ar­rík­in til að flytja inn fólk frá Afr­íku og Miðjarðar­hafslönd­um að meðtöld­um ís­lömsk­um víga­mönn­um sem leitt hef­ur til öldu hryðju­verka, mann­drápa og skelf­ing­ar fyr­ir íbú­ana. Refsa á ríkj­um sem spyrna við fót­um, póli­tísk­ar hand­tök­ur rétt­lætt­ar, lýðræðið fót­um troðið og kjós­end­um stökkt á flótta. Nei verður vald­boðið já og þeim hótað fal­l­exi sem viðra „rang­ar“ hug­mynd­ir. Bret­ar hædd­ir með boði um matarpakka – því hung­urs­neyð ríki fyr­ir utan dyr ESB og úti­svæðið skil­greint sem víti.

Miðað við of­an­greinda þróun þarf eng­an að undra að fyrr­ver­andi stuðnings­menn EES-samn­ings­ins snúi við blaðinu og taki stöðu gegn stór­rík­inu sbr.: „Ég hef því misst það traust til ESB, sem ég bar – að óreyndu – til sam­bands­ins, þegar við gegn­um til samn­inga við ESB um EES.“ (Tóm­as I. Olrich Mbl. 14. feb. 2019). Eða: „Eng­in kvöð er skv. EES-samn­ingn­um að inn­leiða orkupakka ESB. Við höf­um ekk­ert með orku­markað ESB að gera, basta.“ (Jón Bald­vin Hanni­bals­son, Útvarp Saga 18. fe­brú­ar 2019). Enn frem­ur: „Áhuga­leysi ESB á samn­ingn­um hef­ur til að mynda birst í því að í nýrri lög­gjöf ESB hef­ur brunnið við að EES-rík­in hrein­lega gleym­ist… svo virðist sem emb­ætt­is­menn sam­bands­ins hafi misst áhug­ann á sam­starf­inu…“ (Skýrsla Hag­fræðistofn­un­ar, jan. 2018) 

Er allt gert til að lýðræðis­lega kjörn­ir emb­ætt­is­menn semji frá sér hags­muni þjóðar­inn­ar, sem síðar verður notað gegn Íslandi í mála­ferl­um fyr­ir er­lend­um dóm­stól­um. Það sæm­ir eng­um að auka báknið á kostnað skatt­greiðenda til að inn­leiða lög ESB né að fela þá staðreynd að ESB brýt­ur gef­in lof­orð. Leita þarf annarra leiða við samn­ings­brot­um mótaðilans. Reynsl­an af Ices­a­ve sýn­ir að jafn­vel vold­ug­ur aðili sem ESB þarf að mæta í dóm­stól og standa fyr­ir sínu. 

Stjórn­ar­skrá lýðveld­is­ins er nú sem fyrr vörn­in gegn ásælni er­lendra afla yfir þjóðinni. Leysa þarf Stjórn­ar­ráðið úr álög­um og af­nema stjórna­rí­hlut­un ESB. Hvort held­ur er um að ræða hrá­an sýklainn­flutn­ing eða sölu af­láts­bréfa um að Ísland fram­leiði raf­magn með kjarn­orku og kol­um, hvað þá orkupakka sem leiðir þjóðina sem ambátt til sölu á upp­boðsmörkuðum er­lend­is, þá verður að stöðva valda­töku evr­ópska stór­rík­is­ins yfir litlu eyþjóðinni okk­ar í N-Atlants­hafi.

Íslandi færi bet­ur að fylgja vin­um okk­ar Banda­ríkja­mönn­um og Bret­um að mál­um og láta mik­il­menn­in í Brus­sel lönd og leið.

Höf­und­ur er fyrrv. rit­ari Smá­fyr­ir­tækja­banda­lags Evr­ópu og er smá­fyr­ir­tækja­rek­andi í Svíþjóð. Greinin birtist í Morgunblaðinu 27.2.2019.

This entry was posted in BREXIT, EES, Utanríkismál. Bookmark the permalink.