Eftir Gústaf Adolf Skúlason
„Hlutverk ríkisstjórnarinnar verður þvert á niðurstöðu lýðræðislegra kosninga að tryggja hagsmuni og völd Evrópusambandsins á Íslandi.“
Illa er komið þegar utanríkisstefna ríkisstjórnarinnar er í höndum ESB og þjóðinni aðeins boðið upp á eina niðursneidda með öllu frá Brussel eða beina leið til vítis. Íslandi má fórna fyrir EES-samninginn, landbúnaður og orkuauðlindir landsmanna er selt í hendur erlendra aðila og stjórnarskrárvörðu löggjafar- og dómsvaldi lýðveldisins fargað. Komast á hjá áliti lögfróðra manna og afsala lýðræði og lýðveldi í sneiðum í nafni heilagrar „frjálsrar“ verslunar.
Utanríkisráðherra vill „lyfta umræðu um EES-samninginn upp á hærra plan en tíðkast hefur síðustu misserin“.(Guðlaugur Þór Þórðarson, ávarp á málstofu 6. febrúar). Það er skiljanlegt miðað við þá afstöðu ráðherrans, að eini valkosturinn við EES-samninginn er að Ísland gangi „í ESB með öllu því sem aðild fylgir“. Engum „dettur í hug að Ísland gæti upp á eigin spýtur náð samningi við ESB um sambærileg eða betri kjör en þau sem við njótum samkvæmt EES-samningnum“. Með þessari fullkomnu uppgjöf gagnvart ESB dæmir utanríkisráðherrann sjálfan sig og ríkisstjórnina úr leik. Utanríkisstefna ríkisstjórnarinnar breytir íslenskum embættismönnum í eftirlitsmenn með fljótvirkri innleiðingu á lögum ESB í íslenska stjórnsýslu. Hlutverk ríkisstjórnarinnar verður þvert á niðurstöðu lýðræðislegra kosninga að tryggja hagsmuni og völd Evrópusambandsins á Íslandi. EES-samningurinn er í höndum ríkisstjórnarinnar eins og djásn Smjagalls – „Allt fyrir ekkert“- hringurinn.
Utanríkisráðherrann telur EES-samningnum til framdráttar að „um þriðjungur Íslendinga er fæddur eftir gildistöku samningsins og líklegt er að stór hluti landsmanna muni vart eftir lífinu fyrir tilkomu EES“. Varla voru það rök þeirra sem fæddust eftir valdatöku nazismans, að þeir ættu að fylgja Hitler að málum eða rök Reykvíkinga fæddra eftir valdatöku gnarrismans að þeir ættu að kjósa Dag B. Eggertsson því þeir muni vart annað. EES-samningurinn er í dag orðinn eins og borgarstjórnarmeirihluti Reykvíkinga: Minna en ekkert fyrir allt.
Utanríkisráðherrann lætur eins og ekkert hafi gerst sl. 25 ár og að dýrðarljómi ESB skíni skærar en áður. Guðlaugur Þór Þórðarson virðist ekki hafa frétt neitt af þúsund og einni kreppu ESB, sem er svo spillt að enginn fæst til að undirrita bókhaldið. Svindl óreiðumanna hefur dregið löndin í suðri í örbirgð og fært Þýzkalandi ómældan evrugróða. Seðlabanki ESB hefur fulla hlöðu af verðlausum ríkisskuldabréfum sem sögð eru eiga að vera bakhjarl peningaausturs í pyngjur fjárglæframanna. Afleiðingarnar blasa við; atvinnu- og eignaleysi fólks og hagvöxtur við frostmark. Í ofanálag þvingar ESB aðildarríkin til að flytja inn fólk frá Afríku og Miðjarðarhafslöndum að meðtöldum íslömskum vígamönnum sem leitt hefur til öldu hryðjuverka, manndrápa og skelfingar fyrir íbúana. Refsa á ríkjum sem spyrna við fótum, pólitískar handtökur réttlættar, lýðræðið fótum troðið og kjósendum stökkt á flótta. Nei verður valdboðið já og þeim hótað fallexi sem viðra „rangar“ hugmyndir. Bretar hæddir með boði um matarpakka – því hungursneyð ríki fyrir utan dyr ESB og útisvæðið skilgreint sem víti.
Miðað við ofangreinda þróun þarf engan að undra að fyrrverandi stuðningsmenn EES-samningsins snúi við blaðinu og taki stöðu gegn stórríkinu sbr.: „Ég hef því misst það traust til ESB, sem ég bar – að óreyndu – til sambandsins, þegar við gegnum til samninga við ESB um EES.“ (Tómas I. Olrich Mbl. 14. feb. 2019). Eða: „Engin kvöð er skv. EES-samningnum að innleiða orkupakka ESB. Við höfum ekkert með orkumarkað ESB að gera, basta.“ (Jón Baldvin Hannibalsson, Útvarp Saga 18. febrúar 2019). Enn fremur: „Áhugaleysi ESB á samningnum hefur til að mynda birst í því að í nýrri löggjöf ESB hefur brunnið við að EES-ríkin hreinlega gleymist… svo virðist sem embættismenn sambandsins hafi misst áhugann á samstarfinu…“ (Skýrsla Hagfræðistofnunar, jan. 2018)
Er allt gert til að lýðræðislega kjörnir embættismenn semji frá sér hagsmuni þjóðarinnar, sem síðar verður notað gegn Íslandi í málaferlum fyrir erlendum dómstólum. Það sæmir engum að auka báknið á kostnað skattgreiðenda til að innleiða lög ESB né að fela þá staðreynd að ESB brýtur gefin loforð. Leita þarf annarra leiða við samningsbrotum mótaðilans. Reynslan af Icesave sýnir að jafnvel voldugur aðili sem ESB þarf að mæta í dómstól og standa fyrir sínu.
Stjórnarskrá lýðveldisins er nú sem fyrr vörnin gegn ásælni erlendra afla yfir þjóðinni. Leysa þarf Stjórnarráðið úr álögum og afnema stjórnaríhlutun ESB. Hvort heldur er um að ræða hráan sýklainnflutning eða sölu aflátsbréfa um að Ísland framleiði rafmagn með kjarnorku og kolum, hvað þá orkupakka sem leiðir þjóðina sem ambátt til sölu á uppboðsmörkuðum erlendis, þá verður að stöðva valdatöku evrópska stórríkisins yfir litlu eyþjóðinni okkar í N-Atlantshafi.
Íslandi færi betur að fylgja vinum okkar Bandaríkjamönnum og Bretum að málum og láta mikilmennin í Brussel lönd og leið.
Höfundur er fyrrv. ritari Smáfyrirtækjabandalags Evrópu og er smáfyrirtækjarekandi í Svíþjóð. Greinin birtist í Morgunblaðinu 27.2.2019.