Alþingi rúið trausti

Minna en fimmtungur landsmanna bera mikið traust til Alþingis samkvæmt skoðanakönnunum. Það er ógnvekjandi vanvirðing við löggjafarsamkundu þjóðarinnar. Megin skýringanna er að leita í uppsöfnuðum og afdrifaríkum mistökum Alþingsins síðustu áratugi sem hafa leitt til minni uppbyggingar á lykilsviðum, vannotkunar auðlinda, sóun eigna þjóðarinnar, fjármálahruns og fleiri vandræða. Afdrifaríkustu mistökin voru gerð þegar Alþingi afsalaði sínu óskoraða löggjafarvaldi til Evrópusambandsins sem þýðir að þingið getur ekki unnið heilt að hagsmunamálum landsmanna.

Þátttaka ríkisins í atvinnuuppbyggingu var, vegna tískuskoðana á ríkisrekstri, sett í hægagang af Alþingi strax á 9. ártugnum og þá hægðist á uppbyggingunni.

Nýting auðlinda sjávar setti Alþingi í flókin stjórnkerfi, að hluta bygð á ósönnuðum vísindarökum, á 9. áratugnum

Nýting orkulinda hefur orðið fyrir vaxandi andstöðu og hefur Alþingi lögleitt ýmsar hömlur á nýtingu orku og uppbyggingu.

Einkavæðing ríkisfyrirtækja mistókst. Andstaða gegn ríkisrekstri og spillingaráhrif leiddu til þess að Alþingi sólundaði sumum bestu eignum þjóðarinnar. Mikilvæg iðnfyrirtæki og fjármálfyrirtæki voru „seld“ fyrir lágt verð eða loforð.

Alþingi missti óskorað löggjafarvald. Með EES-samningnum samþykkti Alþingi að Evrópusambandið fengi í raun löggjafarvald sem Alþingi hafði áður haft óskorað. Þingið hefur engin áhrif á lög sem koma frá ESB i formi margs konar valdsboða sem Alþingi þarf að samþykkja. Með fjórfrelsi EES var afnumin íslensk stjórn mikilvægra málaflokka, svo sem vöruviðskipta og fólksinnflutnings en einnig gjaldeyrismála og bankamála. Gildistaka regluverks ESB leiddi til útrásar, ofbólgu og hruns fjármálakerfisins. Í kjölfarið gengu mikilvæg fyrirtæki úr höndum landsmanna og margir misstu aleigu og mannorð og erfitt hefur reynst að byggja upp sanngjarnt kerfi og traust eftir það. Alþingi hefur afhent vaxandi fjölda ESB stofnana beint stjórnvald hér, framhjá íslenskum stofnunum, sem hefur valdið stöðnun og gríðarlegum kostnaði (dæmi samkeppnismál, flugmál, bankamál, umhverfismál, upplýsingameðferð, verslunarmál) og dregið úr réttaröryggi í landinu. Alþingi sjálft hefur þannig allnokkrum sinnum síðasta aldarfjórðunginn horft framhjá lögum og stjórnarskrá lýðveldisins.

Aðalástæða þess að landsmenn treysta ekki Alþingi er að þingið getur ekki lengur stjórnað mikilvægum málum landsins. Alþingi hefur sem undirsáti tilskipanavalds ESB misst bæði þekkingu, framtaksvilja og sjálfstraust til að setja landinu góð lög.

This entry was posted in EES, Uppbygging. Bookmark the permalink.