Vaknið, vaknið Íslendingar!

Vaknið, vaknið kæru landar, áður en það verður um seinan! Krefjumst þess að Alþingi segi nei við orkupakkanum – eða málinu verði vísað til þjóðarinnar.

Rík­is­stjórn Íslands ætl­ar að af­henda ESB stjórn á orku­auðlind­um þjóðar­inn­ar. Við verðum að koma í veg fyr­ir það vegna framtíðar­hags­muna þjóðar­inn­ar. Ef 3. orkupakk­inn verður samþykkt­ur af orku­sölu­mönn­um á Alþingi mun þjóðin ekki ráða því hvernig farið verður með orku­auðlind­ir og orku­fyr­ir­tæki lands­ins, sem þó eru í eigu okk­ar að 90% hluta nú þegar.

Ákvæði orkupakk­ans gera ráð fyr­ir að stjórn orku­mála fari til Brus­sel. Eft­ir samþykkt munu inn­lend sem er­lend fyr­ir­tæki geta kært markaðsráðandi stöðu rík­is­fyr­ir­tæk­is­ins Lands­virkj­un­ar til Orku­stofn­un­ar Evr­ópu (Acer) fyr­ir sam­keppn­is­hamlandi yf­ir­burðastöðu á raf­orku­markaði (80%). Stjórn­völd verða neydd til að selja Lands­virkj­un í bút­um til er­lendra of­ur­pen­inga­sjóða sem í dag ráða HS Orku, (sem stjórn­völd illu heilli misstu í hend­ur er­lendra fjár­festa), hafa fjár­fest í vind­myll­u­görðum og djúpj­arðbor­un­um, eng­ir aðrir hafa fjár­magn til þess. Þannig miss­um við orku­auðlind­irn­ar, landa­kaup og virkj­anaæði verður fram­haldið. Næst verður þrýst­ing­ur á að leggja sæ­strengi til að geta selt orku­hungraðri Evr­ópu hreina orku á háu verði. Stjórn­völd geta ekki neitað því, ann­ars yrðu þau skaðabóta­skyld fyr­ir hagnaðarmissi orku­fyr­ir­tækj­anna eins og nú er uppi í kjöt­mál­inu.

Af hverju?

Þjónk­un stjórn­valda við ESB í gegn­um EES-samn­ing­inn virðist eng­in tak­mörk sett, þau þekkja áhætt­una fyr­ir þjóðina en vilja setja þrjá fyr­ir­vara. Fyr­ir­vara í lög­in um að pakk­inn gildi ekki að stærst­um hluta! Að Alþingi verði að samþykkja sæ­streng (al­veg eins og Ices­a­ve), og að ráðherra í fram­kvæmda­stjórn ESB, hafi sagt að orkupakk­inn gildi ekki á Íslandi, meðan eng­inn er streng­ur­inn. Þetta kalla stjórn­völd að vera með „axla­bönd og belti“ svo ekki verði girt niður um okk­ur. Sem sagt, áhætt­an við pakk­ann er horf­in. En þá vakn­ar spurn­ing­in, af hverju að samþykkja pakk­ann ef hann á ekki að gilda? Þessi málsmeðferð er ekki trú­verðug. Hvers vegna valda­afsal á orku­auðlind­um Íslands til óskil­greindr­ar framtíðar og nota stjórn­ar­skrána eins og gólf­mottu ef þess þarf ekki?

Vaknaðu kæra þjóð

Þjóðin verður að vakna og átta sig á að hrylli­leg­ast við þenn­an mál­flutn­ing rík­is­stjórn­ar­inn­ar er að þau vita að þess­ir fyr­ir­var­ar stand­ast ekki og eru ein­ung­is til heima­brúks og sett­ir fram með ís­köldu mati til að blekkja al­menn­ing og kom­ast hjá and­stöðu, al­veg eins og norska rík­is­stjórn­in beitti við sam­starfs­flokka sína til að fá samþykkt máls­ins í gegn á síðasta ári. Ef Alþingi samþykk­ir með ein­faldri þings­álykt­un­ar­til­lögu að aflétta fyr­ir­vara sem sett­ur var í sam­eig­in­legu EES-nefnd­inni um málið, þá er ís­lenska rík­inu skylt sam­kvæmt EES-samn­ingn­um að setja all­ar 400 blaðsíður til­skip­an­anna í fram­kvæmd. Það er al­veg skýrt sam­kvæmt EES-samn­ingn­um að til­skip­un­um ESB sem samþykkt­ar eru í sam­eig­in­legu EES-nefnd­inni má ekki breyta. Það að iðnaðarráðherra komi svo með þær í laga­formi er ein­ung­is forms­atriði. Ef texti þeirra laga er ekki í sam­ræmi við til­skip­un ESB, þá eru þau brot á EES-samn­ingn­um. Ísland á rétt á að neita upp­töku til­skip­ana frá ESB sam­kvæmt samn­ingn­um og það er rétta leiðin núna.

Þjóð og þing

Þjóðin á orku­lind­ir lands­ins og af hverju ætt­um við að setja þær und­ir er­lenda lög­gjöf og eiga á hættu að missa hana? Tvö helstu rök ráðherr­anna, sem fara með þetta mál, eru að þetta auki sam­keppni til góða fyr­ir neyt­end­ur! Þá má spyrja; af hverju þurf­um við meiri sam­keppni um okk­ar eig­in auðlind­ir, með lægsta orku­verð í Evr­ópu? Hin rök ráðherr­anna eru að ef málið verður ekki samþykkt, þá setji það EES-samn­ing­inn í upp­nám! Spurn­ing­in er þá; að þrátt fyr­ir að heim­ilt sé að hafna til­skip­un­um, eru þá ís­lensk­ir stjórn­mála­menn svo hrædd­ir við ESB að þeir þora ekki að standa með framtíðar­hags­mun­um þjóðar­inn­ar? Þetta mál er miklu stærra en Ices­a­ve, sem Alþingi varð þris­var aft­ur­reka með og þjóðin ákvað niður­stöðuna. Þessu máli má líkja við að af­henda ESB stjórn fisk­veiða við Ísland. Í gegn­um EES-samn­ing­inn er troðið inn skil­grein­ing­um sem aldrei voru í upp­runa­lega samn­ingn­um og nú fell­ur hrátt kjöt og raf­magn und­ir vör­ur í fjór­hels­inu og við eig­um á hættu að missa stjórn á auðlind­um þjóðar­inn­ar, orku og land­búnað (und­ir hót­un­um heild­sala um stór­felld­ar skaðabæt­ur) fyr­ir ákv­arðanir ESB. Kannski kem­ur til­skip­un­ar­helsið á fisk­inn og vatnið og ESB tek­ur yfir stjórn þeirra sviða. Íslensk­ir emb­ætt­is­menn, orkufurst­ar og auðmenn bíða eft­ir samþykkt 3. orkupakk­ans og taka und­ir framtíðar­sýn ESB um „græna“ orku frá Íslandi, sem krefst meiri ágangs á nátt­úru lands­ins, með stór­auk­inni orku­fram­leiðslu í vind­myll­u­görðum, fall­vötn­um og ósjálf­bær­um djúp­bor­un­um þar sem óhemju vatns­flæði þarf til að skapa virkj­an­lega orku, allt flutt til ESB í gegn­um sæ­strengi að sjálf­sögðu. Vaknið, vaknið kæru land­ar, áður en það verður um sein­an. Krefj­umst þess að Alþingi segi nei við orkupakk­an­um, eða mál­inu verði vísað til þjóðar­inn­ar. Ef hvor­ugt ger­ist er aðeins ein vörn eft­ir:Upp­sögn EES-samn­ings­ins til að losna und­an eft­ir­gjöf ís­lenskra stjórn­mála­manna. Sú sjálf­stæðis­bar­átta verður ekki við ESB, held­ur inn­lenda land­sölu­menn.

Höf­und­urinn Sigurbjörn Svavarsson  er fram­kvæmd­stjóri og formaður Frjáls lands.

s.svavars­son@gmail.com

[ Birtist fyrst: Morgunblaðið 10.4.19, bls. 16]

This entry was posted in EES, Orka. Bookmark the permalink.