Vaknið, vaknið kæru landar, áður en það verður um seinan! Krefjumst þess að Alþingi segi nei við orkupakkanum – eða málinu verði vísað til þjóðarinnar.
Ríkisstjórn Íslands ætlar að afhenda ESB stjórn á orkuauðlindum þjóðarinnar. Við verðum að koma í veg fyrir það vegna framtíðarhagsmuna þjóðarinnar. Ef 3. orkupakkinn verður samþykktur af orkusölumönnum á Alþingi mun þjóðin ekki ráða því hvernig farið verður með orkuauðlindir og orkufyrirtæki landsins, sem þó eru í eigu okkar að 90% hluta nú þegar.
Ákvæði orkupakkans gera ráð fyrir að stjórn orkumála fari til Brussel. Eftir samþykkt munu innlend sem erlend fyrirtæki geta kært markaðsráðandi stöðu ríkisfyrirtækisins Landsvirkjunar til Orkustofnunar Evrópu (Acer) fyrir samkeppnishamlandi yfirburðastöðu á raforkumarkaði (80%). Stjórnvöld verða neydd til að selja Landsvirkjun í bútum til erlendra ofurpeningasjóða sem í dag ráða HS Orku, (sem stjórnvöld illu heilli misstu í hendur erlendra fjárfesta), hafa fjárfest í vindmyllugörðum og djúpjarðborunum, engir aðrir hafa fjármagn til þess. Þannig missum við orkuauðlindirnar, landakaup og virkjanaæði verður framhaldið. Næst verður þrýstingur á að leggja sæstrengi til að geta selt orkuhungraðri Evrópu hreina orku á háu verði. Stjórnvöld geta ekki neitað því, annars yrðu þau skaðabótaskyld fyrir hagnaðarmissi orkufyrirtækjanna eins og nú er uppi í kjötmálinu.
Af hverju?
Þjónkun stjórnvalda við ESB í gegnum EES-samninginn virðist engin takmörk sett, þau þekkja áhættuna fyrir þjóðina en vilja setja þrjá fyrirvara. Fyrirvara í lögin um að pakkinn gildi ekki að stærstum hluta! Að Alþingi verði að samþykkja sæstreng (alveg eins og Icesave), og að ráðherra í framkvæmdastjórn ESB, hafi sagt að orkupakkinn gildi ekki á Íslandi, meðan enginn er strengurinn. Þetta kalla stjórnvöld að vera með „axlabönd og belti“ svo ekki verði girt niður um okkur. Sem sagt, áhættan við pakkann er horfin. En þá vaknar spurningin, af hverju að samþykkja pakkann ef hann á ekki að gilda? Þessi málsmeðferð er ekki trúverðug. Hvers vegna valdaafsal á orkuauðlindum Íslands til óskilgreindrar framtíðar og nota stjórnarskrána eins og gólfmottu ef þess þarf ekki?
Vaknaðu kæra þjóð
Þjóðin verður að vakna og átta sig á að hryllilegast við þennan málflutning ríkisstjórnarinnar er að þau vita að þessir fyrirvarar standast ekki og eru einungis til heimabrúks og settir fram með ísköldu mati til að blekkja almenning og komast hjá andstöðu, alveg eins og norska ríkisstjórnin beitti við samstarfsflokka sína til að fá samþykkt málsins í gegn á síðasta ári. Ef Alþingi samþykkir með einfaldri þingsályktunartillögu að aflétta fyrirvara sem settur var í sameiginlegu EES-nefndinni um málið, þá er íslenska ríkinu skylt samkvæmt EES-samningnum að setja allar 400 blaðsíður tilskipananna í framkvæmd. Það er alveg skýrt samkvæmt EES-samningnum að tilskipunum ESB sem samþykktar eru í sameiginlegu EES-nefndinni má ekki breyta. Það að iðnaðarráðherra komi svo með þær í lagaformi er einungis formsatriði. Ef texti þeirra laga er ekki í samræmi við tilskipun ESB, þá eru þau brot á EES-samningnum. Ísland á rétt á að neita upptöku tilskipana frá ESB samkvæmt samningnum og það er rétta leiðin núna.
Þjóð og þing
Þjóðin á orkulindir landsins og af hverju ættum við að setja þær undir erlenda löggjöf og eiga á hættu að missa hana? Tvö helstu rök ráðherranna, sem fara með þetta mál, eru að þetta auki samkeppni til góða fyrir neytendur! Þá má spyrja; af hverju þurfum við meiri samkeppni um okkar eigin auðlindir, með lægsta orkuverð í Evrópu? Hin rök ráðherranna eru að ef málið verður ekki samþykkt, þá setji það EES-samninginn í uppnám! Spurningin er þá; að þrátt fyrir að heimilt sé að hafna tilskipunum, eru þá íslenskir stjórnmálamenn svo hræddir við ESB að þeir þora ekki að standa með framtíðarhagsmunum þjóðarinnar? Þetta mál er miklu stærra en Icesave, sem Alþingi varð þrisvar afturreka með og þjóðin ákvað niðurstöðuna. Þessu máli má líkja við að afhenda ESB stjórn fiskveiða við Ísland. Í gegnum EES-samninginn er troðið inn skilgreiningum sem aldrei voru í upprunalega samningnum og nú fellur hrátt kjöt og rafmagn undir vörur í fjórhelsinu og við eigum á hættu að missa stjórn á auðlindum þjóðarinnar, orku og landbúnað (undir hótunum heildsala um stórfelldar skaðabætur) fyrir ákvarðanir ESB. Kannski kemur tilskipunarhelsið á fiskinn og vatnið og ESB tekur yfir stjórn þeirra sviða. Íslenskir embættismenn, orkufurstar og auðmenn bíða eftir samþykkt 3. orkupakkans og taka undir framtíðarsýn ESB um „græna“ orku frá Íslandi, sem krefst meiri ágangs á náttúru landsins, með stóraukinni orkuframleiðslu í vindmyllugörðum, fallvötnum og ósjálfbærum djúpborunum þar sem óhemju vatnsflæði þarf til að skapa virkjanlega orku, allt flutt til ESB í gegnum sæstrengi að sjálfsögðu. Vaknið, vaknið kæru landar, áður en það verður um seinan. Krefjumst þess að Alþingi segi nei við orkupakkanum, eða málinu verði vísað til þjóðarinnar. Ef hvorugt gerist er aðeins ein vörn eftir:Uppsögn EES-samningsins til að losna undan eftirgjöf íslenskra stjórnmálamanna. Sú sjálfstæðisbarátta verður ekki við ESB, heldur innlenda landsölumenn.
Höfundurinn Sigurbjörn Svavarsson er framkvæmdstjóri og formaður Frjáls lands.
s.svavarsson@gmail.com
[ Birtist fyrst: Morgunblaðið 10.4.19, bls. 16]