Alþingi ræður ekki við orkupakkann

Alþingi virðist ekki ráða við 3. orkupakkann sem er einn af 4 tilskipanapökkum um orkukerfi ESB/EES sem komnir eru út. Markmið ESB er að byggja upp „markaðsvætt“ orkukerfi með einkareknum orkuverum. ESB-fyrirtæki fá að nýta orkuauðlindir Íslands. Stjórn yfir orkukerfinu færist til ESB. Aðeins einn af stjórnmálaflokkunum á Alþingi hefur reynt að reifa málið til hlítar en aðrir flokkar láta sér í léttu rúmi liggja hvernig þessari stærstu eign landsmanna verður ráðstafað.

Með tilskipununum tekur ESB til sín beina stjórnsýslu yfir orkukerfi Íslands. Auk þess verða settar umfangsmiklar reglugerðir og lög um rekstur, fjárfestingar og þróun orkukerfisins sem m.a. hafa það markmið að ryðja braut fyrir einkavæðingu og færir með tímanum eignarhald og arðmöguleika til fjármagnseigenda í ESB/EES. Orkureikningarnir frá þeim til íslenskra heimila og fyrirtækja verða hærri en þeir eru nú frá almannafyrirtækjum Íslands eins og nágrannalönd okkar hafa reynslu af.

https://www.mbl.is/vidskipti/pistlar/gustafadolfskulason/2235956/

Einkanýtingarréttur Íslendinga á orkuauðlindum landsins hverfur. ESB mun veita aðilum í ESB/EES aðgang að orkuauðlindum Íslands. Þann rétt hafa Íslendingar einir haft og er það undirstaða þróaðs þjóðfélags á Íslandi. Haldlagningin er gerð í skjóli EES-samningsins með tilskipunum og veitir fjárfestum í ESB svipaðan aðgang að orkuauðlindunum og íslenskir aðilar hafa nú.

ESB gengur fram af fullri hörku við að einkavæða orkufyrirtæki, það heitir á Brusselsku að „markaðsvæða“, „samkeppnisvæða“ eða eitthvað slíkt en þýðir einkavæðing almannafyrirtækja og afhending þeirra til valdra fjármagnseigenda. Framkvæmdastjórn ESB sendi nokkrum aðildarlöndum bréf 7.3.2019 um að fara að lögum ESB við endurnýjun og úthlutun virkjunarleyfa.

http://europa.eu/rapid/press-release_IP-19-1477_en.htm

Tilgangurinn er víðtæk einkavæðing. ESB hefur m.a. fyrirskipað einkavæðingu franskra virkjana sem eru í almannaeigu.

https://energy.economictimes.indiatimes.com/news/power/frances-edf-warned-of-strike-at-its-hydropower-plants-rte/68788047

Umræðan um 3. orkupakkann á Alþingi hefur leitt í ljós að flestir þingmenn hafa ekki áhuga og taka ekki þátt í umræðunum. Aðeins einn af flokkunum á þinginu hefur reynt að ræða málið ítarlega en ekki vakið áhuga annarra þingmanna. Það er ógnvekjandi fyrir kjósendur að horfa upp á löggjafarsamkunduna sofa heima meðan verið er að komast til botns í miklu hagsmunamáli og koma í veg fyrir að helsta auðlind landsins komist í nýtingu og undir yfirráð óskyldra.

Svo virðist sem Alþingi ráði ekki við stærstu mál þjóðarinnar. Það réð ekki við ofbólgu bankakerfisins eftir að EES-regluverkið tók við. Alþingi réð ekki við Icesave. Og nú ræður það ekki við ásælni erlends valds í auðlindir landsins. Það eru reyndar fleiri þjóðþing sem hafa orðið fyrir aðgerðalömun, breska þingið hefur ekki enn ráðið við Brexit, sænska þingið ræður ekki við að setja Svíþjóð lýðræðislega meirihlutastjórn, það réð heldur ekki við að ákveða um evruna sem sænska þjóðin sjálf gerði síðan.

Umræða Alþingis um 3. orkupakkann sýnir að það ræður ekki við málið. Aðeins einn stjórnmálaflokkur virðist vilja komast til botns í því. Það kemur betur og betur í ljós að ESB virðist geta stjórnað Íslandi í eign þágu í krafti EES samningsins og æðsta valdastofnun okkar treystir sér ekki til að taka í taumana þó verið sé að taka auðsuppsprettur landsins undan forsjá landsmanna.

This entry was posted in EES, Orka. Bookmark the permalink.