Landsmenn vilja ekki löggjöf ESB

Ný skoðanakönnun sem Maskína gerði fyrir Heimssýn segir að 61,3% landsmanna sem skoðun hafa vilja ekki orkulöggjöf ESB og 59% vilja ekki flytja hrátt kjöt frá ESB til landsins. Alþingi hefur fengið tilskipanir um að gangast undir stjórn og stjórnsýslu ESB á orkukerfinu. Og um að heimila innflutning á hráu kjöti frá ESB. Þeir sem málin þekkja hafa komið til leiðar frestun á lögleiðingu tilskipananna og er viss von til að farið verði vel yfir bæði málin áður en Alþingi meðhöndlar þau aftur (Mbl 19.6.2019).

Orkupakkinn (nr. 3) er huti af uppbyggingu miðstýrðs stjórnkerfis ESB um orkukerfi og orkuframleiðslu og er markmiðið að nýta orku ESB- og EES- landa til hagsbóta fyrir allt sambandið (sjá nánari umfjöllun um orku hér á heimasíðunni). Í því felst að einkavæða allt orkukerfið og setja fyrirtækin undir stjórnkerfi og stjórnsýslu ESB og tryggja að orkufyrirtæki og fjárfestar í ESB geti eignast þau og hafi aðgang að orkuauðlindum ESB/EES-landa. Og „markaðsfrelsi“ til að selja raforkuna í ESB/EES-löndum. Orkuframleiðendur á Íslandi sem verða í eigu ESB-aðila munu hafa mikið frelsi til að verðleggja orku til heimila og fyrirtækja á Íslandi að sínum geðþótta og flytja út arð af orkuframleiðslunni.

Rafmagnsútflutningur um sæstreng er á stefnuskrá ESB og undirbúningur kominn vel á veg. Óstjórn hefur ríkt í orkumálum ESB í áratugi og verðlag á orku mjög hátt og stöðugt hækkandi og mundi sæstrengstenging Íslands valda hærra orkuverði til heimila og fyrirtækja í landinu. Ljóst er að Íslendingar munu hvorki eiga, hirða afrakstur af eða stjórna sölu raforku gegnum sæstreng. Mikilvægur hluti af atvinnustarfsemi landsins mundi leggjast af með sæstrengstengingu til ESB og orkuskortur verða algengari.

Sýklasmit frá Evrópu til Íslands gefur þeim sem þekkja til sögunnar hroll af tilhugsun um nýjan sýklaburð þaðan. Læknar Íslands hafa verið í broddi fylkingar á heimsvísu í baráttu við sýkingar hérlendis. Þeir hafa varað við innflutningi hrárra dýraafurða. Gang eftir annan hafa orðið stóráföll í bústofnum Íslands vegna dýrasmits frá Evrópu. Við bætist nú að hráar afurðir þaðan geta borið með sér sýkla í menn sem þola sýklalyf og lækna- og lyfjavísindin standa ráðþrota frammi fyrir. Hættan er því bæði fyrir landbúnaðinn og einnig lýðheilsu landsmanna (sjá nánari umfjöllun hér á síðunni).

Greinilega er að vaxa ótti hjá almenningi um að Alþingi ráði ekki við ESB-valdið sem sendir eina tilskipunina annarri verri til Íslands. Margir vona að löggjafarsamkundan taki málin til alvarlegrar skoðunar og verji hagsmuni landsins sem er hennar hlutverk.

This entry was posted in EES, Orka. Bookmark the permalink.