EES-samningurinn felur í sér framsal á löggjafarvaldi, framkvæmdavaldi og dómsvaldi til Evrópusambandsins. Hann gengur framhjá og vanvirðir hið gamalgróna lýðræði um stjórn Íslands. ESB hefur stöðugt víkkað út sitt vald og hefur Ísland ekki hafnað neinni tilskipun sem komið hefur frá ESB, með mjög slæmum afleiðingum fyrir landið. EES-samningurinn hefur af áróðursmönnum verið kallaður „alþjóðasamningur“, „viðskiptasamningur“, „samstarfssamningur“. Engin af þessum nafngiftum er réttnefni.
Til þess að fela hið raunverulega innihald samningsins eru nefndir og ráð sem tilskipanirnar koma í gegnum. Engar af þessum nefndum og ráðum hafa áhrif á innihald tilskipananna, engar hafa lýðræðislegt umboð til að samþykkja lög fyrir Ísland. EES samningurinn hefur tekið löggjafarvald af Alþingi. Mörg ráðuneytin og stjórnsýslustofnanirnar eru orðnar að miklu leyti framlenging á stjórnsýslustofnunum ESB. Dómstóllinn sem dæmir EES löndin, og jafnvel lögaðila þeirra, til að hlýða valdsboðum frá ESB, s.k. EFTA dómstóll (rangnefni, hann heyrir ekki undir EFTA) á með réttu ekki að hafa lögsögu hér á landi.
Arnar þór Jónsson skrifar:
-„Menn skilja betur reglur sem þeir semja sjálfir
Það er ekkert feimnismál að segja eins og er, að í EES-samstarfinu hafa Íslendingar verið móttakendur reglna en ekki tekið þátt í mótun þeirra. Það er heldur ekkert ljótt að segja það hreint út, að slík staða er engu lýðræðisríki sæmandi til lengdar. Slík staða er heldur ekki í neinu samræmi við þann lagalega grunn sem lagður var að stofnun Alþingis árið 930 og mótað hefur lagahefð Íslendinga alla tíð, þrátt fyrir löng tímabil niðurlægingar, undirokunar og kúgunar. –
Alþingi – og íslenska þjóðveldið – var reist á vilja manna til að eiga samfélag hver við annan á grundvelli laga sem þeir áttu saman; laga sem mótuð voru í sambúð þeirra út frá eigin reynslu, umhverfi og aðstæðum. Um þennan stórmerka viðburð, sem í raun má kallast heimssögulegur, hefur Sigurður Líndal ítarlega fjallað. Sjálfur stend ég í ævilangri þakkarskuld við hann sem kennara minn fyrir að hafa vakið hjá mér áhuga á þessari perlu sögunnar, þegar menn með ólíkan bakgrunn, í nýju landi, ákváðu að hafa lög hver við annan en ekki ólög.-
Hvað gerist?
Þegar ríkisvald sýnir tilburði í þá átt að umbreytast í alríki eru margar ástæður fyrir því að viðvörunarbjöllur hringi. Yfirþjóðlegt lagasetningar-, framkvæmda- og dómsvald rýfur það samhengi sem hér hefur verið lýst milli laga og samfélags, rýrir lagalega arfleifð, lítur fram hjá hagsmunum þeirra sem standa næst vettvangi og vanvirðir í stuttu máli samhengi lýðræðishugsjónarinnar við réttarríkið. Slíkt er augljóslega á skjön við stjórnskipan Íslands.
Afleiðingarnar blasa við í málum eins og orkupakka 3: Þingmenn hyggjast taka að sér að innleiða í íslenskan rétt reglur sem erlendir skriffinnar hafa samið út frá erlendum aðstæðum og erlendum hagsmunum; lögfræðingar taka að sér hlutverk einhvers konar spámanna og freista þess með kristalskúlum að segja fyrir um hvernig íslenskum hagsmunum muni reiða af við framkvæmd hinna erlendu reglna; löggjafarþing tekur hinar erlendu reglur ekki til efnislegrar umræðu og endurskoðunar en lætur sér nægja að leika hlutverk löggjafans.
Við slíkar aðstæður breytist Alþingi Íslendinga í kaffistofu þar sem fjallað er um hið smáa en ekki hið stóra og víðtæka; smámál eru gerð að stórmálum, en stórmál töluð niður og dulbúin sem smámál. Hreyfi menn andmælum er því svarað með að ákvarðanir um innleiðingu hafi „þegar verið teknar“ með þeim hætti að við „verðum að ganga frá þeim formlega“ til að þær öðlist gildi meðal þeirra þjóða sem í hlut eiga „ef við viljum áfram vera aðilar að EES“.
Á móti spyr stór hluti íslenskrar þjóðar hvað sé lýðræðislegt við það ferli sem hér um ræðir. Fyrir mitt leyti sé ég ekkert lýðræðislegt við það að maður í teinóttum jakkafötum rétti upp hönd til samþykktar á lokuðum fundi sameiginlegu EES-nefndarinnar og málið eigi þar með að heita „lýðræðislega útkljáð“. Þetta er í mínum huga afskræming á lýðræðislegum rétti fullvalda þjóðar og mætti með réttu kallast lýðræðisblekking.
Samantekt
Íslendingar eru ekki í neinu raforkusamfélagi með þjóðum sem búa handan við hafið. Við höfum því ekki haft nein áhrif á eða aðkomu að reglum sem þar hafa verið samdar um raforku og flutninga raforku milli ríkja. Í ljósi alls framanritaðs er vandséð, svo ekki sé meira sagt, hvers vegna við eigum að innleiða þessar reglur í íslenskan rétt og veikja auk þess um leið stöðu okkar í hugsanlegum samningsbrotamálum sem höfðuð verða í kjölfarið.
Þótt margt megi vafalaust finna lýðveldinu Íslandi til foráttu vil ég með vísan til framangreindra atriða mótmæla því sjónarmiði að það væri íslenskum almenningi mjög til framdráttar að æðsta dómsvald og ákvörðunarvald í innanríkismálum Íslands sé, í trássi við stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, geymt í erlendum borgum. Kröfur um slíkan valdflutning hljóma heldur ekki vel úr munni þeirra sem vilja stilla sér upp sem sérstökum málsvörum lýðræðis, lýðfrelsis og mannréttinda, þ.m.t. sjálfsákvörðunarréttar einstaklinga og þjóðar. Ég rita þessar línur til að andmæla því að Íslandi sé best borgið sem einhvers konar léni ESB eða MDE sem lénsherrar, ólýðræðislega valdir, siði til og skipi fyrir eftir hentugleikum án þess að Íslendingar sjálfir fái þar rönd við reist. Slíkt verður ekki réttlætt með vísan til þess að Íslendingar hafi kosið að „deila fullveldi sínu“ með öðrum þjóðum.“
Fullveldið skiptir máli. Arnar Þór Jónsson, Morgunblaðinu 27.7.2019