Utanríkisráðuneytið dreifir falsfréttum um 3. orkupakkann á RÚV

Í sjónvarpsfréttum RÚV 12.8.2019 bar utanríkisráðherra á borð falsfréttir til þess að gera andstæðinga 3. orkupakkans tortryggilega. Rökþrot utanríkisráðuneytisins í málinu er þar með komið á alvarlegt stig:

-Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir norsk stjórnmálaöfl hafa haft óeðlileg afskipti af umræðu á Íslandi um þriðja orkupakkann. Hagsmunir Íslands séu þar ekki í forgrunni. Samþykkt þriðja orkupakka Evrópusambandsins er ekki einungis umdeild á Íslandi. Norsku samtökin Nei til EU, eða Nei við ESB, hafa barist gegn innleiðingu orkupakkans þar í landi, en samtökin hafa líka fylgst með umræðunni á Íslandi. Fulltrúi samtakanna kom til Íslands og hélt fyrirlestur um orkupakkamálið í mars. Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, sem nú er formaður starfshóps utanríkisráðherra um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu, hefur sakað samtökin um að mata tengiliði sína á Íslandi á röngum upplýsingum um afleiðingar samþykktar orkupakkans hér. Utanríkisráðherra sakar samtökin og norska Miðflokkinn um að hafa haft óeðlileg afskipti af umræðunni á Íslandi. „Þau eru að mínu áliti fullkomlega óeðlileg, að erlend stjórnmálaöfl, sem eru örugglega ekki að hugsa um íslenska hagsmuni, eru að beita sér með þessum hætti.“ Guðlaugur fullyrðir að vitað sé hvert markmiðið sé: „Það er að koma EES-samningnum fyrir kattarnef, því að ef að Norðmenn ganga út úr EES, þá mun það þýða, hæpið að halda áfram samningnum eins og hann er núna.“ Guðlaugur segir að Íslendingar eigi sjálfir að sjá um sín mál. „Og við eigum að nálgast það út frá okkar eigin hagsmunum, og hér er hreint og klárt um það að ræða að þessir norsku aðilar eru að reyna að koma þessu máli í skrúfuna til þess að það komi aftur heim til Noregs,“ segir Guðlaugur Þór“ -“(RÚV-sjónvarpsfréttir kl 1900 12.8.2019)

Í frétt RÚV eru norsku samtökin Nei til EU sökuð um að hafa „matað“ andstæðinga 3. orkupakkans hér á röngum upplýsingum og að fulltrúi samtakanna hafi komið hingað og var af samhenginu hægt að ráða að hann hafi verið hér í slíkum erindagerðum. Þetta eru rangfærslur. Nokkur íslensk félagasammtök, þ.á.m. Frjálst land, Heimssýn, Herjan og Ísafold, höfðu frumkvæði að því að fá sérfræðing sem starfar fyrir Nei  til EU, Morten Harper, til að halda fyrirlestur um EES-samninginn og orkupakkann 21. mars s.l.  Íslensku samtökin skilgreindu efni fyrirlestursins, skipulögðu heimsókn sérfræðingsins og höfðu allan veg og vanda af henni  og greiddu allan kostnað við heimsóknina.  Að halda því fram að Nei til EU “mati” íslenska andstæðinga 3. orkupakkans á röngum upplýsingum er furðulegur málflutningur utanríkisráðuneytisins sem ekki er hægt að túlka öðruvísi en rökþrot.

This entry was posted in EES, Utanríkismál. Bookmark the permalink.