Hvaða ógn vofir yfir okkur?

Þriðji tilskipanapakki ESB um orkumál afhjúpaði ástandið í íslenskum stjórnmálum. Burtséð frá innihaldi tilskipananna er ljóst að hin gamalgróna lýðræðisþjóð að eigin áliti, Íslendingar, hafa misst sitt lýðræðislega vald yfir mikilvægum landsmálum. Hvorki lýðkjörnir fulltrúar né ráðnir embættismenn íslenska þjóðríkisins hafa getað varið landið fyrir valdahrifsi ESB. Þeir hafa þvert á móti gengið erinda ESB og jafnvel gripið til blekkinga, oft vegna þekkingarleysis en mögulega líka viljandi sem sýnir hve stjórnkerfi landsins er orðið bágborið og djúpt sokkið í erlent tilskipanakviksyndi

Félagasamtök og einstaklingar, sérfróðir á mörgum sviðum, börðust ötullega með rökum gegn samþykkt orkupakkans. Viðbrögð íslenska stjórnvaldsins voru að verja með öllum ráðum valdatöku ESB yfir orkukerfinu: Stundum með útúrsnúning, stundum blekkingum og stundum með óhróðri, jafnvel líka gegn virtum norskum félagasamtökum. Orsökin þarf ekki eingöngu að vera að okkar kjörnu fulltrúar séu vanhæfir og ómerkilegir. Skýringuna er hægt að finna í hræðslu við eitthvaða annað og meira ógnvekjandi en íslenska kjósendur, eitthvert afl mektugra en vald þjóðarinnar.

Stjórnarþingmenn lögðust margir gegn orkupakkanum þegar umræðan fór af stað af krafti veturinn 2017/2018. Bæði landsfundur Sjálfstæðisflokksins og flokksþing Framsóknarflokksins samþykktu andstöðu við 3. orkupakkann. Þessir stjórnarþingmenn héldu lengi vel uppi andófinu en þegar kom fram á árið 2019 gerðist það eins og hendi væri veifað að raddir þeirra þögnuðu. Þegar síðan atkvæði voru greidd í byrjun september komi í ljós að þingmenn stjórnarflokkanna, með undantekningu af einum þingmanni Sjálfstæðisflokks, samþykktu 3. okupakka ESB.

Hræðsla íslenskra stjórnmálamanna og embættismanna við að hafna EES-tilskipunum er torskiljanleg fyrir almenning landsins. EES gerir ráð fyrir slíku og eru ákvæði um viðbrögð í samningnum. Norskir ráðherrar mættu hingað og létu íslenska ráðherra vita að þeir vildu ekki að Ísland hafnaði 3. orkupakkanum því þá gengi hann ekki í gildi fyrir Noreg. Ísland dróst á sínum tíma í EES-samninginn við ESB með Norðmönnum sem eru mörgumsinnum mikilvægari viðskiptum ESB en Ísland. Norðmenn líta á EES sem einskonar „sinn“ samning sem Íslandi sé ekki ætlað að hrófla við. Greinilega fengu íslenskir ráðherrar að skilja að þeim væri ætlað að samþykkja orkupakkann eins og norska þingið hafði gert.

Hlýða tilskipanavaldinu, annars—! Frá ráðamönnum hér komu svo yfirlýsingar sem afhjúpuðu hræðsluna sem hrjáir þá: Að höfnun orkupakkans mundi koma EES-samningnum í uppnám og „að þá yrði annaðhvort horfið aftur til fortíðar og tvíhliða viðskiptasamninga eða að nýju stefnt að ESB-aðild“.

Í þessari yfirlýsingu kemur fram bæði vanþekking á samningum sem varða Ísland og ESB en einnig innræting stjórnmálamanna og embættismanna um að EES sé á einhvern hátt nauðsynlegur. Raunin er að samningurinn er orðinn baggi á þjóðinni, það yrði farsæl lausn á vandanum ef ESB segði honum upp sem er þó mjög ólíklegt vegna mikils ávinnings sem ESB hefur af honum. Einnig sýnir þessi hræðsla vanþekkingu og rangt mat á viðskiptasamningum Íslands og ESB sem eru í fullu gildi og að hluta til nýlegir og nægja vel til viðskipta við ESB-lönd. Að Íslandi sé nauðsyn að sækja um aðild að ESB falli EES burt er byggt á misskilningi um núverandi samningsstöðu Íslands gagnvart ESB og um innihald tvíhliða viskiptasamningsins (Fríverslunarsamningsins), WTO- og GATS-samninganna.

Hvort íslenskum ráðherrum var hótað eða ekki er í raun aukaatriði en ljóst að hræðslan og minnimáttarkenndin náði yfirhöndinni þegar Alþingi samþykkti 3. orkupakkann.

Ógnin sem vofir yfi íslenska stjórnkerfinu, þar með talið Alþingi, gerir það í raun óstarfhæft í mikilvægum málum. Hvort íslenskir fulltrúar hafa fengið ógnanir eða hótanir, beinar eða dulbúnar, er erfitt að staðfesta. Almenningur á Íslandi fær aldrei að vita. En af framferði ráðamanna landsins í orkupakkamálinu og fleiri málum að dæma er augljóstyfir þeim vofir ógn. Þeir treysta sér ekki til að standa vö um hagsmuni Íslands sem landsmenn gáfu þeim umboð til.

This entry was posted in EES. Bookmark the permalink.