Neyðaraðgerðir til varnar auðlindunum

Það stefnir í neyðarástand í orkumálum. Að óbreyttu munu orkulindir landsins smám saman hverfa úr stjórn og nýtingu almannafyrirtækja landsmanna, árnar, jarðhitasvæðin sem og virkjanirnar. Regluverk EES/ESB tryggir að fjárfestar og fyrirtæki í ESB/EES geta átt land og nýtingarréttindi vatnsfalla og jarðvarma sem og virkjanir og orkufyrirtæki á Íslandi. Verð á orku er þegar tekið að hækka vegna árifa EES/ESB og fyrirtæki sem kaupa orku að undirbúa samdrátt og lokanir. Eina færa leiðin til að bregðast við í tíma er með neyðaraðgerðum. Alþingi getur ennþá sett lög að vild þó þau geti stangast á við EES-samninginn.

Almannaeign orkuauðlinda og orkufyrirtækja þarf Alþingi að festa í lög. Virkjanir, flutnings- og tengivirki, spennistöðvar og dreifikerfi raforku þurfa einnig að vera í almannaeign ríkis og sveitarfélaga eins og orkuuppspretturnar sjálfar ef fullur árangur á að nást. Vegna mismunandi aðstæðna er ekki hægt að koma við samkeppni með jafnræði eins og regluverk EES fyrirskipar. Mestur arður landsmanna verður til ef orkufyrirtækin eru rekin með almannahagsmuni og hóflegt orkuverð að leiðarljósi. Slíkt fyrirkomulag hefur gefið ágæta raun í þá rúmu öld sem það var við lýði hér óskert. Eftir því sem lengra líður með regluverk EES/ESB í gildi komast fleiri orkuauðlindir í einkaeigu og til fjarlægra aðila og getur þá orðið erfiðara og kostnaðarsamara að þjóðnýta þær. Enn sem komið er eru stærri orkulindir og virkjanafyrirtæki flest á forræði almannaaðila.

Einkanýtingarréttur orkufyrirtækja ríkis og sveitarfélaga á orkulindum landsins þarf að vera festur í lög og öllum vafa eytt. Ríkisfyrirtækin Landsvirkjun og RARIK eiga ein að hafa nýtingarrétt á orkulindum þjóðarinnar, orkufyrirtæki sveitarfélaganna eiga að hafa aðgang að orkulindum sinna svæða og getur Alþingi skorið úr um skiptingu milli fyrirtækja ríkis og sveitarfélaga. Lækjarafstöðvar og smáhveri bændabýla á eignarlandi er óþarfi að þjóðnýta. En ár sem geta gefið orku í megavöttum talið, og jarðhitasvæði sem hægt er að virkja til bæjarhitaveitu, þarf að þjóðnýta. Nú er miðað við að í einkaeign geti verið allt að 10 megavatta virkjun. Það er geðþóttaviðmiðun og allt of há, nær að miða við nokkurhundruð kílóvatta rafstöðvar sem duga búrekstri.

(Þjóðnýting og ríkisrekstur er ekki almennt til bóta en í tilviki takmarkaðra auðlinda eins og orkulinda íslands er þjóðareign sjálfsögð, virkri samkeppni er ekki hægt að koma við þar eð auðlindirnar eru staðbundnar og mishagkvæmar og fjarlægðarkostnaður mikill og nærþjónusta besta fyrirkomulagið).

Eign útlendinga á landi þarf að gera óheimila í lögum en veita einungis íslenskum borgurum og lögaðilum í íslenskri eign heimild til að eiga land. Nú er eign lands heimil aðilum í EES/ESB samkvæmt EES-samningnum og ekki hægt að mismuna EES-aðilum og Íslendingum þó lögfestar séu sérstakar kröfur á kaupendur lands. Forkaupsrétt almannaaðaila á landi þarf að vera hægt að nýta hindranalaust. Þó nýtingarréttur orkuauðlinda verði færður til almennings getur landeigandi nýtt önnur gæði ladsins.

Lögfesta þarf bann við vindmyllum. Þær valda miklum umhverfisskemmdum, eru hættulegar, óöruggar og dýrar í rekstri og endurnýjun. Nýtingin er léleg og orkuverðið í „vindmylluhagkerfum“ ESB er margfalt hærra en frá venjulegum orkuverum þrátt fyrir niðurgreiðslur. Þær valda almenningi þungum byrðum. Líkur er á að ásókn verði í byggingu vindmylla, ekki síst af aðilum frá ESB og erindrekum þeirra hérlendis vegna niðurgreiðslna og tískuhugmynda ESB um „umhverfisvæna orku“ .

Þessar neyðaraðgerðir geta brotið ákvæði EES-samningsins. Málareksturinn sem erindrekar ESB (ESA, EFTA-dómstóllinn og ESB-dómstóllinn) munu hefja gegn Íslandi taka talsverðan tíma. Með góðu skipulagi má hafa uppi sterkar varnir fyrir Íslands hönd. Hvorugur dómsólanna á að hafa lögsögu hér samkvæmt íslenskri stjórnarskrá og því hægt að véfengja dóma þeirra og leita ógildingar fyrir íslenskum dómstólum vegna stjórnarskrárbrota í EES-reluverkinu sem lög um orkukerfið og samkeppnismál eru dæmi um. („EFTA-dómstóllinn“ er EFTA óviðkomandi, hann er EES-dómstóll sem á ekki að hafa annað en ráðgefandi hlutverk hérlendis; ESB-dómstólnum, ECJ, hefur verið fengið vald hér í vissum málum með lögum sem brjóta stjórnarskrána).

Núverandi einkaeigendur orkufyrirtækja og nýtingarréttar gætu einnig reynt að koma í veg fyrir yfirtöku eða eignarnám ríkisins og sveitarfélaganna sem getur orðið kostnaðarsamt, samningsumleitanir þarf að reyna og fækka þannig eignarnámum. ( Í 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar er ákvæði um vernd eignarréttarins. Þar segir: Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir).

Uppsögn EES-samningsins veitir endanlega vörn gegn missi orkulindanna. Málaferli vegna brota á EES taka tíma en uppsögn EES tekur aðeins eitt ár. Líklegt er að Noregur stefni að uppsögn EES innan fárra ára eftir útgöngu Breta úr ESB. Samflot Íslands og Noregs er álitlegur kostur.

Það stefnir í neyðarástand í orkumálum landsins í kjölfar sívaxandi valda ESB í orkukerfinu. Til að forðast það þarf löggjafinn okkar, Alþingi, að setja lög um orkumál, þar á meðal lög sem taka EES-lög úr sambandi. Málarekstri, refsingum og valdsboðaflækjum ESB sem vænta má í kjölfarið þarf að mæta með festu og vísun í stjórnarskrána. Endanleg lausn fæst ekki fyrr en EES-samningnum hefur verið sagt upp og Alþingi aftur fengið óskert löggjafarvald.

This entry was posted in EES, Orka. Bookmark the permalink.