Rafbílavæðingin vanhugsuð

Vegna EES hefur Ísland dregist með í „loftslagsaðgerðir“ ESB sem þýðir að Ísland þarf að minnka útblástur koltvísýrings að viðlögðum háum sektum.

Stjórnvöld hér hafa því komið af stað „aðgerðum í loftslagsmálum“ , meðal annars rafbílavæðingu sem er mjög kostnaðarsöm fyrir skattgreiðendur. Árangurinn fyrir umhverfið er vafasamur, rafbílar auka eiturefnamengun á Jörðinni en breyta losun koltvísýrings lítið.

Rafbílarnir eru mun dýrari en venjulegir bílar í framleiðslu. Til að fá fólk til að kaupa þá eru há innflutningsgjöld (virðisaukaskattur og vörugjöld) ekki innheimt af þeim eins og af venjulegum bílum. Venjulegur meðal bíll kostar nú um 3 milljónir en svipaður rafbíll um 5 milljónir en mundi kosta mun meira ef þyrfti að borga af honum sömu gjöld og eru á venjulegum bíl. Vaskurinn, 24%, leggst á innkaupsverð venjulegs bíls, vörugjöldin eru reiknuð ut frá koltvísýringslosun samkvæmt viðmiðum frá ESB. Ekki er tekið tillit til losunar eiturefna á lífsferli rafbílsins, frá framleiðslu hráefna til förgunar, m.a. efna sem eru mun hættulegri umhverfinu en koltvísýringslosunin frá venjulegum bíl af svipaðri stærð.

Eigendur venjulegra bíla borga meir en tvöfalt kostnaðarverð fyrir orkuna en rafbílaeigendur borga kostnaðarverð eða minna. Rafmagnið er ekki skattlagt en bensínverðið er að meir en helmingi skattur. Ef rafmagnið til að hlaða rafbílana bæri svipaðan skatt og bensín og díselolía væri orkukostnaðurinn svipaður í rafbílum og eldsneytisbílum. Önnur opinber gjöld af rekstri rafbíls eru lægri en á venjulegum bílum þó þeir séu miklu þyngri en venjulegir bílar og slíti vegum meir. Venjulegur meðalbíll er um 1 tonn á þyngd, svipaður rafbíll um 1,5 tonn. Eigendur venjulegra bíla borga þannig vegakerfið og reyndar miklu meira sem fer í hítina, rafbílaeigendur fá frítt þó þeir slíti meir og valdi verri mengun. Á vef FÍB er reikniforrit til að reikna kostnað af ýmsum gerðum bíla miðað við núverandi skattlagningu. FÍB hefur kannað hugmyndir um að gjaldtaka af rafbílum verði byggð á einföldum ferðarita í bílunum sem auðvelt er að fylgjast með og lesa af. Ef skattlagning rafbíla væri svipuð og eldsneytisbíla yrðu eldsneytisbílarnir ódýrari í rekstri, þeir eru ódýrari í framleiðslu, slíta vegum minna og valda minni framleiðslu eiturefna en rafbílarnir. Þar sem hætt hefur verið að fella niður opinber gjöld á rafbíla hættir fólk að kaupa þá (Ontario).

Rafbílarnir eru ekki umhverfisvænir þegar talin er með framleiðsla þeirra. Notað er mikið af sjaldgæfum jarðefnum; litíum, kóbolt, nikkel, mangan, neodým, sem eru dýr að vinna og gefa af sér mikla mengun. Framleiðsla efnanna gefur frá sér eiturloftegundir (SO2 og NOx) auk eiturmengaðs frárennslis. Framleiðsla neodymium í rafhreyflanna gefur m.a. frá sér geislavirkan úrgang. Nýleg athugun við Kölnarháskóla segir að rafbílar valdi líka talsvert meiri koltvísýringslosun en díselbílar. Ástæðan er að framleiðsla efna í rafhlöðurnar þarf mikla orku, um 350-650 MJ á kWh sem er tvöfalt það sem þarf til að framleiða venjulegan bíl samkvæmt IVL í Svíþjóð. Enginn veit hvað kemur til með að kosta að farga rafbílunum. En það verður mun erfiðara en að farga venjulegum bílum.

Rafbílar henta ekki til ferðalaga á Íslandi, þeir hafa litla drægni og ef veður eru vond og færð slæm snarminnkar drægnin. Að hlaða rafhlöðurnar er seinvirkt vegna eðliseiginleika rafhlaða sem þýðir að óhentugt er að nota bílana til lengri ferðalaga vegna biðtíma og biðraða á hleðslustöðvum og streitu sem því fylgir fyrir bílstjóra. Orkan í 500 kílóa rafhlöðu er álika mikil og í bensíntank skellinöðru. Ef kalt er og þurfi að hita farþegarýmið tæmist rafgeymirinn fljótt. Ef færð er slæm og mótvindur geta raflarnir dagað uppi orkulausir á afskekktum stöðum í slæmu veðri. Rafbílarnir eru mjög þungir og því varasamir í hálku og hættulegir vegfarendum, þeir eru hljóðlitlir og fólk á erfitt með að varast þá.

Umhverfisvitund“. Það eru ekki síst þeir betur stæðu fjárhagslega sem kaupa rafbíla og sýna þar með „umhverfisvitund“. Rafbílarnir henta betur í þéttbýli þó þeir séu dýrari, þyngri og hættulegri vegfarendum en venjuegir bílar. Stærstu borgir heims eru orðnar 15-35 milljóna, fjölmennari en Norðurlönd samanlagt, og stríða við reykmengun frá farartækjum. Þar geta rafbílar orðið til bóta og dregið úr reykmenguninni.

Rafbílavæðingin er á kostnað skattgreiðenda. Hún gerir umhverfi jarðarinnar í heild meira ógagn en gagn. Ísland þarf að hlýða útreikningum ESB á losun bifreiða, þær eru byggðar á geðþóttaákvörðunum skriffinna ESB og Sameinuðu þjóðanna og taka ekki fullt tillit til líftímaáhrifa bílsins. ESB getur sektað Ísland um stórar fjárhæðir ef útreikningar samkvæmt ESB sýna meiri losun en búið er að lofa.

Það var óþarfi fyrir Ísland að ánetjast „loftslagsmálum“ ESB, þau voru ekki með í EES upprunalega enda Ísland með heimsmet í notkun reyklausrar orku. Að rafbílavæða Ísland er vanhugsuð aðgerð andstæð hagsmunum landsmanna og gagnar ekki umhverfi Jarðarinnar.

This entry was posted in EES, Umhverfismál. Bookmark the permalink.