Nýtt ár færir okkur nær frelsinu

Á árinu 2019 var EES-samningurinn afhjúpaður sem valdatæki ESB. Okkar stjórnmálamenn gátu ekki varið landið fyrir valdsboðum ESB. Afleiðing EES er m.a. stjórnkerfislömun sem hrun orkukerfisins fyrir norðan ber vott um. En reynslan er dýrmæt, ásamt með Brexit færir hún okkur nær endurheimt þjóðfrelsisins á nýju ári.

Stjórnvöld Íslands samdauna EES. Alþingi hefur aldrei hafnað tilskipun frá ESB. Utanríkisráðherra lét þrjá stuðningsmenn EES gera skýrslu sem átti að vera úttekt á samningnum, úr varð skrípaleikur og gagnslaus lofrolla um EES.

Stjórnsýsla og regluverk ESB skaðar bjargræði landsins; orkukerfið, bankana, landbúnaðinn, iðnaðinn. Meðal EES-valdsboða á árinu, sem vinna gegn hagsmunum landsins, var regluverk um orkumál, dýrkeypt en óþörf „persónuverndarlög“, verslunarþvinganir um m.a. sýklamengað kjöt. Eftirlitskerfi EES í m.a. umhverfismálum, upplýsingamálum, orkumálum og verslunarmálum heftir uppbyggingu og viðskiptafrelsi.

EES-valdsboðin vaxa stöðugt að skaðsemi og umfangi. ESB sýnir vaxandi alræðistilburði. Undirmálsvísindi og óraunsæi einkenna valdsboð sambandsins í vaxandi mæli. EES er komið vel á veg með að koma risavöxnum álögum á Ísland sem munu valda hér efnahgshnignun.

Hrörnun ESB er viðvarandi, efnahagsuppbygging strönduð. Orkustefnan veldur umhverfisspjöllum og lífskjararýrnun. Upplausn vestrænnar siðmenningar er greinileg, samheldni fer minnkandi og ósætanlegar fylkingar ala á sundurlyndi. Fjöldainnflutningur fólks fra fjarlægum trúarheimum eykur ofbeldisógn og flytur inn þróunarlandaástand.

Bretar, ein helsta viðskiptaþjóð Íslands í tímans rás, eru að yfirgefa ESB. Þar með verða öll mikilvægustu viðskiptalönd Íslendinga, þegar verslunarfrelsi hefur ríkt, Bandaríkin, Bretland og Rússland, utan múra ESB.

Þessi nýja staða gerir óhjákvæmilegt fyrir Ísland að komast út fyrir valdakerfi ESB/EES með uppsögn EES-samningsins svo hægt verði að endurreisa frjáls samskipti við mikilvægustu viðskiptalöndin.

Endurheimt þjóðfrelsisins færist nær á nýja árinu.

This entry was posted in BREXIT, EES, Uncategorized. Bookmark the permalink.