Án sannleikans fæst enginn friður

Þótt lýðræði og lífs­gild­um sé hampað glata þau merk­ingu ef auðræði og auðhring­ir ná und­ir­tök­um og völd­um.

Hver sem er sann­leik­ans meg­in heyr­ir mína rödd.“ (Jóh. 18.37) Þessi orð Frels­ar­ans frammi fyr­ir Pílatusi hafa ávallt sitt að segja. Ástæða er til að halda þeim fram gegn blekk­ing­um og lífs­svik­um er ein­kenna nú stjórn­mál og sögu og vega að kristnu siðgæði, mann­helgi og lífs­virðingu, sam­kennd og kær­leika.

Eng­inn vörður rétt­læt­is

Ótrú­leg­um ill­virkj­um sem fram­in eru á Gasa­strönd verður ekki lýst nema sem þjóðarmorði. Sjálf­skipað alþjóðasam­fé­lag, sem í eru banda­lagsþjóðir Íslands með BNA í far­ar­broddi, kveðst vera rétt­lætis­vörður heims­ins en út­veg­ar samt dráps­tæk­in og stend­ur í vegi alþjóðastofn­ana sem vilja koma fórn­ar­lömb­un­um til bjarg­ar. D. Trump for­seti vill draga úr af­skipt­um BNA af töpuðu stríði í Úkraínu enda hafa vest­ur­heimsk­ir auðhring­ir tryggt sér drjúg­an hlut í auðlind­um henn­ar. Hann vill hætta að greiða fyr­ir dráps­tæk­in með skatt­fé sem fer þó beint til vopna­smiða í BNA. Hag­kvæm­ara þætti hon­um að Evr­ópuþjóðir keyptu þessi vopn af þeim og ykju fram­lög til víg­búnaðar. Það bætti slæma skulda­stöðu BNA.

Evr­ópu­leiðtog­ar ala á þeirri trú að fleiri fórn­ir úkraínsks æsku­lýðs á stríðsbálið verði Evr­ópu til bjarg­ar frá her­námi Rússa en halda því þó kok­hraust­ir fram að Rúss­ar verði sigraðir á víg­velli Úkraínu. Hag­kerfi Evr­ópu­sam­bands­landa er stillt inn á víg­búnað á kostnað vel­ferðar enda því treyst að hægt verði að græða á því að þrengja að Rúss­um, efna­hag þeirra og áhrif­um. Vill­andi frétt­ir og áróður í Evr­ópu og Vest­ur­heimi hylja ófriðar­rót­ina sem er ásæk­in útþensla NATO og ætl­un BNA að viðhalda og auka yf­ir­ráð sín sem víðast. Um­merk­in illu um vald­arán og her­virki í Írak, Líb­íu, Af­gan­ist­an og Sýr­landi sýna það og ný­leg árás á Íran.

Ekki láta all­ir kúga sig til þagn­ar

Fræðimenn vest­an­hafs og her­for­ingj­ar, sem láta ekki hræða sig og kúga, af­hjúpa áróður­inn og segja sann­leik­ann um upp­tök og fram­gang átak­anna. Fv. of­ursti í her BNA, D. Macgreg­or, og hag­fræðing­ur­inn þekkti J. Sachs gera það hik­laust. Þeir vísa til þeirra staðreynda frá enda­lok­um Sov­ét­ríkj­anna og þar með Var­sjár­banda­lags­ins að leiðtog­ar í austri og vestri sam­mælt­ust um að stefna að friðvæn­legri sam­búð með því að færa vígtól­in fjær hver öðrum í þeim anda sem friðar­hreyf­ing­ar í Evr­ópu börðust fyr­ir. Ut­an­rík­is­ráðherr­ar Vest­ur-Þýska­lands og BNA, H.D. Genscher og J. Baker, hefðu samið við M. Gor­bat­sjov um það fyr­ir hönd rík­is­stjórna sinna að NATO yrði ekki stækkað til aust­urs, yrði 400.000 manna herlið Sov­ét­ríkja fært úr Aust­ur-Þýskalandi og það svo allt sam­einað á ný. Allt var þetta svikið af hálfu BNA og fylgi­ríkja í NATO og lagt á ráðin um að um­kringja Rúss­land víg­vædd­um NATO-ríkj­um enda væru Rúss­ar of mátt­farn­ir til að bregðast við svik­un­um.

Allt kort­lagt

Þessi áform koma skýrt fram í bók þáver­andi ör­ygg­is­mála­full­trúa BNA, Z. Brzez­inski, The Grand Chess­bo­ard, 1997. Þar er stefna mörkuð um að kné­setja Rússa. BNA geti farið sínu fram þrátt fyr­ir af­vopn­un­ar­samn­inga og út­víkka eigi NATO allt að landa­mær­um Rúss­lands, koma fyrr­um lepp­ríkj­um Sov­ét­ríkj­anna í banda­lagið og líka fyrr­um sov­ét­lýðveld­um, Úkraínu, Georgíu og Molda­víu og hrekja Rússa frá her­stöð sinni á Krímskaga. Þrengja eigi að efna­hag lands­ins, valda þar ólgu og upp­lausn, ýta und­ir hag­stæð valda­skipti fyr­ir vest­ur­heimsk ítök og auðlinda­sókn. Til að tryggja það þurfi að leysa rúss­neska ríkja­sam­bandið upp í smærri ein­ing­ar. Þess­ari áætl­un hafa ráðamenn í BNA fylgt á nýrri öld, segja Macgreg­or og Sachs, og líta beri á Úkraínu­stríðið í því ljósi.

Vald­arán og hernaður af sama toga hafa valdið upp­lausn í Mið-Aust­ur­lönd­um síðustu ára­tugi. Sachs vís­ar til skýr­ing­ar á ritið The Cle­an Break, út­gefið í nafni B. Net­anya­hu, 1996. Þar er þess kraf­ist að stjórn­völd­um í Ar­ab­a­ríkj­um, er styðji frels­is­bar­áttu Palestínu­manna, verði steypt en gangi stjórn­ar­skipt­in ekki verði ráðist á rík­in. Sag­an sýn­ir að BNA og hala­lall­ar þeirra hafa orðið við þess­um kröf­um.

Horft til raunsannra verðmæta

Þótt lýðræði og lífs­gild­um sé hampað glata þau merk­ingu ef auðræði og auðhring­ir ná und­ir­tök­um og völd­um. Her­gagnaiðnaður fær þá að soga til sín fjár­muni og at­gervi til að þjóna dauða og vega að lífi. Það sann­ast sem fyrr að ekki er hægt að þjóna bæði Guði og Mammon. Mann­líf og jörð þarfn­ast síst víg­búnaðar og víga­ferla.

Krist­in trú og önn­ur trú­ar­brögð heims geyma verðmæti í fór­um sín­um sem leitt fá mann­kyn af helj­ar­braut, en það er sem þau séu nú her­num­in og hafi misst vernd­andi salt sitt og ljós. Þau verða að vakna og gegna hug­rökk köll­un sinni og boða sann­leika í villu­myrkri. „Við erum smíð Guðs, sköpuð í Kristi Jesú til góðra verka.“ (Ef. 2.10). Þetta er lífs­stefn­an rétta sem mið tek­ur af sann­leik­an­um og á sér him­neska upp­sprettu­lind og birt­ist og gefst í Jesú Kristi.

Þá vit­und verður að glæða og andæfa yf­ir­gangi, keppni og átök­um um áhrif og völd og hvetja til sam­vinnu og sam­virkni þjóða þar sem hver leggi sitt fram til góðs. Þá verður auðlegð, færni og þekk­ingu ekki sóað í víg­búnað en nýt­ast frem­ur til að græða sár mann­kyns og jarðar.

Dap­urt er að ís­lensk stjórn­völd og fjöl­miðlar hafi sog­ast inn í víg­væðing­ar­straum og við Íslend­ing­ar hafnað friðar­hlut­verki okk­ar sem við fyrr gegnd­um vel. Sann­leiksþrá, trú og kjark þarf til að breyta því. „Ég hef lagt fyr­ir þig lífið og dauðann, bless­un­ina og bölv­un­ina. Veldu þá lífið, til þess að þú og niðjar þínir megi lifa“ (5. Mós. 30.19).

Gunnþór Inga­son

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 3. september 2025

This entry was posted in Utanríkismál. Bookmark the permalink.