Frelsið kemur ekki af sjálfu sér

Frelsið hefur reynst Íslendingum skreppt í hendi. Góðærisár landnámsins með frelsi og uppbyggingu leystust upp í harðæri síðla á tíundu öld. Landið var ekki eins gjöfult og landnámsmenn héldu. Árið 1000 báru erindrekar Noregskonungs fé frá honum á lögsögumann Íslands til þess að hann kæmi á „nýjum sið“. Þar með hafði Noregskonungur og kirkjan náð að seilast hér til valda sem leiddi til þess að frelsið glataðist. Árið 1251 urðu „lög Guðs“, þ.e. kirkjunnar, æðri lögum manna. Noregskonungur lagði svo Íslandi undir sig árið 1262 með því að æsa landsmenn til borgarastyrjaldar, í kjölfar hnignunar atvinnuveganna vegna kólnunar. Íslendingar skrimtu síðan í nærri sjö aldir undir evrópskri stjórn kirkju og konunga, í fátækt og kúgun. Það var ekki fyrr en 1944 að frelsið vannst aftur eftir erfiða baráttu og langa. En fullt frelsi varð ekki eilíft. Árið 1994 fékk Evrópusambandið tilskipanavald yfir Íslandi sem það hefur enn. Ísland var því að fullu sjálfstætt frá landnámsupphafinu 874 til kristnitökunnar árið 1000 og aftur frá 1944 til 1994 eða samanlagt í tæpar tvær aldir af þeim ríflega ellefu sem landið hefur verið byggt. Velsæld og uppbygging fylgdi frelsinu, örbirgð, áþján og hrun evrópsku stjórnvaldi.