EES-samningurinn: Frjálslyndi í fjötrum

Eftir Elinóru Ingu Sigurðardóttur

Á Íslandi virðist ekki vera tiltökumál að erlend ríki séu að vasast í fjármálum, persónuvernd og auðlindamálum landsins. Er það „alþjóðleg samvinna“.

Hugtakið „frjálslyndi“ er illa skilgreint. Þeir sem eiga sér þá ósk heitasta að Ísland verði sem fyrst nýlenda erlends ríkjasambands telja sig „frjálslynda“. Þeir sem hins vegar telja að Ísland eigi að vera áfram frjálst og óháð, fullvalda ríki eru ekki taldir „frjálslyndir“ og enn síður íhaldssamir heldur eru þeir uppnefndir „einangrunarsinnar“ og „popúlistar“. Hjá flestum fullvalda menningarþjóðum þætti þetta viðhorf hin mesta skömm. Þó svo t.d. Bandaríkjamenn telji sig upp til hópa vera „frjálslynda“ dytti engum stjórnmálamanni þar í landi í hug að framselja fullveldið í bitum til erlends ríkis. Sá hinn sami yrði umsvifalaust sendur úr landi í böndum og komið varnalega fyrir á eyðieyju.

Á Íslandi þykir það hins vegar ekki tiltökumál að erlend ríki séu að vasast í fjármálum, persónuverndarmálum og auðlindamálum landsins. Menn virðast aldrei fá nóg af undirlægjuhættinum, sem þeir „frjálslyndu“ flokka undir „alþjóðlega samvinnu“. Bretar verða almennt seint taldir vera „frjálslyndir“ en samt tókst þeim „frjálslyndu“ í öllum flokkum þar í landi að sannfæra bresku þjóðina um að rétt væri að ganga í ESB árið 1973, en merkilegt nokk, þá hafði þeim tvívegis áður verið neitað um aðild að frumkvæði Charles De Gaulle Frakklandsforseta sem taldi að Bretar hefðu meiri áhuga á fríverslun en samvinnu og að þeir hefðu meiri áhuga á samskiptum við Bandaríkin en önnur Evrópuríki.

Forsetinn reyndist sannspár. Bretar eru nú orðnir langþreyttir á ólýðræðislegum vinnubrögðum ESB og eru nú á hægri en öruggri siglingu út úr ríkjasambandinu. Breska þingið hafnaði nýlega aðild að EES-samningnum sem þeir kalla „norsku leiðina“. Þorsteinn Pálsson, fv. forsætisráðherra, hélt því nýlega fram í viðtali á sjónvarpsstöðinni Hringbraut að ástæðan fyrir þeirri höfnun hefði í raun verið sú að Bretar vissu sem var, að EES-samningurinn felur í sér meira afsal fullveldis aðildarríkjanna heldur en bein aðild að ESB. Hvað sem því líður þá er EES-samningurinn nú kominn í algjört uppnám vegna kjarkleysis Alþingis Íslendinga þegar þeir innleiddu 3. orkupakka ESB í íslensk lög með þingsályktunartillögu sem forseti Íslands gat ekki með nokkru móti hafnað að skrifa undir og vísað til þjóðarinnar. Þetta vissu menn í ráðuneytunum, þetta vissu þingmennirnir okkar en kjósendur ekki. Alþingi Íslendinga hefur fyrir löngu ákveðið að innlima Ísland í ESB, bakdyramegin. Kjósendum kemur það bara ekkert við! Almenningur á Íslandi er þó í auknum mæli að átta sig á eðli og inntaki EES-samningsins og til hvers hann leiðir ef menn nýta ekki ákvæði hans til fulls, heldur gleypa þar allt hrátt.

Að vera frjáls er að vera óháður öðrum, m.ö.o. að vera sjálfstæður. Fullvalda ríki er því frjálst ríki. Við erum ekki lengur fullvalda ríki, við erum því ekki langur frjáls. Við erum hins vegar orðin afar „frjálslynd“ og hluti af 500 milljóna manna ríkjasambandi og enginn segir neitt við því. Enginn virðist einu sinni vita af því, nema örfáir alþingismenn og „kverúlantar“, „popúlistar“ og „einangrunarsinnar“ í grasrót stjórnmálaflokkanna svo og meðlimir í samtökunum Orkan okkar. Hvort alþingismenn hafi með þessum ólánsgjörningi svikið þjóð sína og föðurland læt ég öðrum eftir að dæma. Hitt er ljóst að þingmenn stjórnarflokkanna gengu þar á bak orða sinna gagnvart sínum kjósendum og virtu að vettugi ályktanir og samþykktir sinna eigin flokksmanna, grasrótar og undirstöðu flokkanna. Hvað varðar fullveldismál á Íslandi er landinu okkar nú stjórnað af meðvirkum, ofmetnum popúlistum á Alþingi sem taka á móti erlendum þjóðhöfðingjum frá frjálsum og fullvalda vinaþjóðum með fýlusvip og hóta að setja lög sem banna frekari samvinnu við þær, nema með sérstöku leyfi Alþingis! Þetta eru afar undarlegir fyrirvarar í „alþjóðlegri samvinnu“ því það eru samningarnir sem gilda. Menn semja ekki eftirá. Það þarf ekki sérfræðinga í glæpasögum til að átta sig á því.

Nú er fjórði orkupakki ESB í farvatninu. Hvernig ætla menn að taka á þeirri sendingu frá móðurskipinu ESB? Ég ráðlegg öllum að geyma síðustu reikningana frá orkuveitunum og fylgjast vel með orkuverðinu, flutningskostnaði, mælagjaldinu og verðinu á heita og kalda vatninu. Ísland er orðið hluti af orkusambandi ESB vegna EES-samningsins og bráðum koma nýir orkumælar í hvert hús. Á Íslandi býr nú „frjálslynd“ þjóð í fjötrum.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 14.9.2019. Höfundur er formaður samtakanna Orkan okkar.