Afleiðingar tilskipanavaldsins

Með EES-samningnum fékk ESB tilskipanavald yfir Íslandi á vissum sviðum landstjórnarinnar. Þegar Alþingi samþykkti samninginn með 33/63 atkvæða, 1993, virðist sem menn hafi ekki gert sér fyllilega grein fyrir að í honum fólst að erlent stjórnvald fengi í raun bæði löggjafarvald og framkvæmdavald á Íslandi. Sett var á stofn s.k. „sameiginleg EES nefnd“ með fulltrúum EES-landa (Norges, Íslands og Liechtenstein) og ESB sem átti að fylgjast með og ákveða hvaða tilskipanir yrðu -“teknar upp í EES-samninginn-“. Þessi nefnd, sem hefur aðsetur í Brussel, er í raun valdalítil stimplunarstöð og án lýðræðislegs umboðs. ESB hefur komist fram með að láta EES löndin lögfesta og setja í reglugerðir þær tilskipanir sem framkvæmdastjórn ESB þóknast. Stjórnvöld hér hafa ekki hafnað neinum tilskipunum sem ESB vill koma á hér, jafnvel þó þær hafi átt mjög illa við hérlendis. Menn sáu heldur ekki fyrir að þróunin yrði að ESB mundi ganga sífellt lengra í að taka sér vald yfir íslenskum málefnum með stöðugum straum tilskipana um hin ýmsu mál sem menn héldu að yrðu á stjórnvaldi Íslendinga. EES-samningurinn hefur belgt út stjórnkerfið, aukið skriffinnsku og óþarfar kvaðir og þar með kostnað skattgreiðenda og fyrirtækja. Hann er í heild sinni orðinn þungur baggi. Með EES skertist vald Alþingis og framtaksleysi lagðist yfir bæði löggjafarsamkunduna og stjórnarráðið: Lög og reglugerðir komu tilbúin. Stjórnarráðið missti frumkvæðið í reglusetningum á mörgum sviðum. Í maí 2017 samþykkti Alþingi, gegn anda stjórnarskrárinnar, að úrskurðir ESA og dómar EFTA-dósmstóllinn skyldu aðfararhæfir um fjármálageirann. Þar með var ESB einnig veitt dómsvald hér. (Nöfnin eru villandi, hvorki Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, né EFTA-dómstólinn, hafa lögsögu í fríverslunarsamtökunum EFTA. ESA hefur eftirlit með að Ísland, Noregur og Liechtenstein hlýði valdsboðum ESB og dómstóllin dæmir sömu lönd til að hlýða).

Fjórfrelsið.

EES-samningurinn byrjar með háfleygri en barnslegri markmiðssetningu um frjálst flæði fjármagns, fólks, vöru og þjónustu milli ESB- og EES-landa. Ekkert af þessu er nothæft sem algilt lögmál fyrir Ísland og í raun ekki fyrir nein sjálfstæð lönd.

Frjálst fjármagnsflæði þýddi að mikilvægt stjórntæki í peningamálastjórn landsins var tekið úr sambandi; stjórn á flutningi mikilla peningaeigna inn og út úr landinu. Með afnámi gjaldeyrishaftanna í kjölfar EES-samningsins opnuðust gáttir fyrir flutning mikils óæskilegs fjármagns (mest lánsfjár) til landsins en eignarféð (íslenskar fjáreignir) tóku að streyma úr landi. Þetta var ein af aðalástæðum hrunsins og snjóhengjunnar svokölluðu; fjármagn erlendis frá sem kyrrsetja þurfti hér og leysa síðan út. Með neyðarlögunum sem voru sett í byrjun október 2008, og reglugerðum sem settar voru í kjölfar þeirra, tóku Íslendingar sér víðtækar heimildir til að stjórna peningamálunum, þ.m.t. setningu gjaldeyrishafta, þ.e. stjórn á flæði fjáreigna in og út úr landinu. Neyðarlögin eru enn í gildi og verður ekki hægt að afnema þau fyrr en fjórfrelsisákvæðin hafa verið numin úr gildi og Seðlabanki Íslands kominn með fullar heimildir til þess að setja á gjaldeyrishöft, þ.e. stjórn eða takmarkanir á millilandaflutning peningaeigna, eftir þörfum eins og saga hrunsins sýnir að er nauðsyn.

Frjáls flæði fólks hefur orðið til þess að íslensk stjórnvöld haf misst tök á fólksflutningum til landsins sem hefur leitt til mikillar íbúafjölgunar, aukinnar ólöglegrar atvinnustarfsemi, aukinna árekstra, aukinnar glæpatíðni, kostnaðarsamari almannaþjónustu og auknum átroðningi á land og umhverfi. EES veitti um 500 milljón manns rétt til að leita atvinnu á Íslandi. Að halda uppi lögum og reglu og nægilegri almannaþjónustu hefur reynst erfitt og of dýrt eftir að stjórnlaust innflæði hófst frá ESB.

Frjálst flæði vöru hafði að mestu leyti fengist með fríverslunarsamningnum 1972 og var EES-samningurinn því léttvægur sem viðskiptasamningur. Innflutningur hefur í vaxandi mæli verið frá ESB og hefur Ísland í auknum mæli verið látið kaupa vörur frá ESB, með ýmiss konar verslunarþvingandi reglum, á meðan verslun Íslands við umheiminn utan ESB hefur verið sett undir margs konar höft og hömlur. Með EES voru settar reglur um ESB-viðurkenningar á ýmsar vörur, m.a. neytendavörur og tæknivörur til iðnaðar, kröfur um mjög kostnaðarsöm leyfi hjá ESB fyrir hráefni frá örðum heimshlutum og alls kyns tæknilegar viðskiptahindranir á vörur utan ESB. Slíkar reglugerðir hafa spillt mjög verslun við lönd með há vörugæði og hagstæð verð.

Í skjóli EES er hafinn innflutningur á hráum sláturdýrafurðum frá ESB sem bera með sér gerla-og sýklamengi Evrasíumeginlandsins og margfalt innihald af varasömum eiturefnum en eru í íslenskum afurðum. Það setur bæði íslenska dýrastofna sem og lýðheilsu landsmanna í óþarfa hættu.

Þjónustuviðskiptin eru af mörgum toga og er augljóst að ekki er hægt að opna landið fyrir hvers kyns þjónustu sem þrífst í stórum samfélögum eða starfsemi stórra fyrirtækja sem svífast lítils til að leggja undir sig markaði. Ýmiss verkefni á vegum almennings fara til fyrirtækja í ESB. Ákvæði um útboð á EES hefur gert að verkum að miklar framkvæmdir í landinu eru á vegum ESB-fyrirtækja sem oft virðist nokkuð sama hvort verkefnin bera sig eða ekki. Lítil íslensk fyrirtæki þola tapverkefni verr, en þau gætu framkvæmt mörg verkin sem fara til ESB.

Fjármálageirinn.

Fjármálastarfsemin á Íslandi komst í raun undir regluverk ESB með EES-samningnum. Bankarnir fengu starfsleyfi í ESB-löndum og íslensku bankarnir stofnuðu útibú víða. Þeir fengu rýmkaðar heimildir til að fjárfesta í als kyns fyrirtækjum og rýmri reglur um rekstur verðbréfafyrirtækja. Og það sem voru örlagaríkustu breytingarnar frá áður gildandi íslenska bankaregluverkinu var að bankarnir fengu rýmri heimildir til að lána eigin stjórnendum og að veita lán til kaupa á eigin hlutum. Afleiðingin varð að bankarnir oflánuðu og ofbólgnuðu og hrundu síðan, með atbeina Bretastjórnar, í kreppunni sem skall á í síðsumars 2008 (sjá skýrslu Rannsóknarnefndar alþingis, 1. bindi, bls 31). Það bjargaði því sem hægt var að bjarga að Alþingi setti neyðarlög um banka rétt fyrir hrunið og tók þar með EES-samninginn úr sambandi hvað þau mál varðar og tók í raun stjórn banka og peningamála til landsins aftur. Það var sjálfstæðisyfirlýsing sem tekið var eftir og hermt eftir um allan heim.

ESB hefur nú komið á fót eftirlitsstofnunum (EBA, ESMA, EIOPA, ESRB) með fjármálastarfsemi og sendi Alþingi fjórar reglugerðir um þeirra valdsvið til þess að setja í lög hér. Alþingi setti lögin í maí 2017 en þau setja fjármálastarfsemi á Íslandi í raun undir eftirlit ESB. Alþingi gerði um leið ákvarðanir ESA og dóma EFTA-dómstólsins í þessum málum aðfararhæfa sem þær hafa ekki verið hingað til. Það þýðir að ESB hefur nú verið afhent dómsvald yfir fjármálageiranum, auk löggjafar- og framkvæmdavaldsins sem það hafði áður með EES-samningnum. Fjármálaeftirlitið verður í raun erindreki ESB en það er þegar orðið allt of stórt og dýrt sem kemur niður á íslenskum viðskiptavinum bankanna, og eykst kostnaður eftir því sem ESB seilist lengra inn í íslenska stjórnsýslu.

Umhverfisreglugerðirnar

Stöðugt flóð og oft óþarft af reglugerðum um umhverfisvernd, sem hannaðar eru fyrir mörg hundruð sinnum þéttbýlli og veðurlygnari lönd en Ísland, með litlar ár en fjarri miklum hafstraumum, hefur Ísland verið látið taka upp vegna EES. Þetta hefur gert alla uppbyggingu kostnaðarsamari. Mannvirkjagerð er orðin afar tímafrek og dýr vegna flókinna reglugerða og laga um umhverfisvernd. Allt of margir aðilar hafa hlutverk í mati og umsagna- eða kvartanaferli. Uppbygging orkumannvirkja, iðnaðar, innviða og húsakosts hefur því orðið hægari og kostnaðarsamari og sums staðar orðið úti. Fjárfestingar í iðnaði og starfsaðstöðu hafa brugðist og orkuskortur orðið landlægur á vissum stöðum. Kostnaðarsamt og svindlriðið losunarkvótakerfi (ETS) hefur verið sett á hér, komið frá ESB og undir þarlendri stjórn, um brennslu og eldsneytisnotkun. Þetta hefur leitt til milljarða aukakostnaðar fyrirtækja hér og fælt fyrirtæki frá að skoða staðsetningu á Íslandi eða aukna starfsemi hérlendis. Bandaríkjastjórn hætti við samskonar kerfi fyrir all nokkru. Tilskipanir um lélegra bensín, varasöm áhersla á gas eða rafhlöður í samgöngum og ýmsar óþarfa kröfur um vélar og tæki hafa verið settar á hér með EES-tilskipunum. Sorphirða og frárennslismál eru nú rekin eins og Ísland væri þéttbýlt land inni á meginlandi og eru orðin of kostnaðarsöm. Eyðilegging framræsts lands, mokstur ofan í skurði, er komin á dagskrá hér þó að vísindalegur grunnur fyrir aðgerðunum sé vafasamur.

Fyrirtækjarekstur

Samkeppnislög ESB voru sett í lög hér í tengslum sið EES samninginn, með tilskipunum. Þau hafa leitt af sér mikinn skaða fyrir bæði almenning og fyrirtæki í landinu enda sniðin fyrir markað með hálfum milljarði manna og fjöldasamkeppni fyrirtækja. Þau hafa veriðn notuð til aðfara að litlum fyrirtækjum á hinum litla og einangraða markaði hér. Í skjóli EES hefur ESB skipt sér af samningum Íslands við fyrirtæki sem komið hafa hingað til að fjárfesta, en beinir samningar ríkisins við stóra fjárfesta hafa verið forsenda fyrir íslenskri iðnaðaruppbyggingu allt frá lýðveldisstofnun. Hefur bæði eftirlitsstofnun og dómstóll ESB yfir EES löndunum (ESA og EFTA-dómstóllinn) komið með álit um slík mál. Ýmsar EES-tilskipanir um umhverfi og heilsuvernd hafa einnig orðið mjög íþyngjandi, sérstaklega litlum fyrirtækjum.

Verslunarhöftin, t.d. CE-merkingakrafan, skráningar hráefna hjá stofnunum ESB og margar fleiri kvaðir á framleiðsluvörur og fyrirtæki, hafa skaðleg áhrif á fyrirtæki í landinu. Þau fá stundum ekki bestu og hagkvæmustu tæki, íhluti og hráefni vegna EES-reglugerða.Ýmsar óþarfar og skaðlegar kröfur á vörur hafa orðið til þess að verslun við hagkvæmari og þróaðri svæði hefur hnignað. Dæmi eru bifreiðainnflutningur frá Bandaríkjunum sem gæfi mun ódýrari bíla en frá ESB, miðað við gæði, ef engin verslunarhemjandi ákvæði væru í EES-tilskipununum.

Orkugeirinn

Vegna áhrifa frá EES, sem íslensk stjórnvöld hafa legið flöt fyrir, voru orkufyrirtækin klofin í framleiðslu og dreifingu og búin til nokkur óþörf veitufyrirtæki með dýru stjórnkerfi. Þetta hefur gert stórsamninga og iðnaðaruppbyggingu erfiðari. Orkufyrirtækin hér hafa verið í almannaeigu frá byrjun og þess vegna dreift orku hagkvæmt, aðallega á sínu nærsvæði, og hefur það gefist svo vel að Ísland var eitt helsta forgöngusvæði heimsins í hagkvæmri orkuframleiðslu þegar EES-skall á. Undir áhrifum EES var komið á „samkeppnismarkaði“ sem þýðir að alskyns dýrar tilfæringar, með tilboð og afslætti í fjarlægum landshlutum, hafa verið á dagskrá en árangurinn til lengdar hefur verið meiri kostnaður orkufyrirtækjanna og samfélagsins. Eitt af leiðandi orkufyrirtækjunum lenti í einkavæðingu sem hefur gert því erfiðara að útvega hagkvæma orku til iðnaðaruppbyggingar. Fleiri orkufyrirtæki eru í hættu á einkavæðingu en því hefur verið hægt að afstýra hingað til. Íslenski orkugeirinn hefur sokkið æ dýpra í reglugerðafen EES þó að menn hafi haldið að Íslendingar gætu stjórnað þar sjálfir. Mestu firrurnar frá EES hafa komið fyrir almannasjónir þegar íslensk orkuver hafa verið að versla með „upprunaábyrgðir“ eða selt „græn vottorð“ til ESB-fyrirtækja og komist þess vegna í bókhaldið hjá ESB og Orkustofnun sem kolaorkuver eða kjarnorkuver! Og síðan hafa orkuverin jafnvel boðið viðskiptavinum sínum að borga aukalega fyrir að fá endurnýjanlega orku í staðinn fyrir kolaorku!

ESB hefur nú fyrirskipað EES-löndunum að setja sína orkugeira undir eftirlit orkueftirlitsstofnunar ESB, ACER, sem staðsett er á Balkanskaga. Ef fer fram sem horfir mun Alþingi afhenda ACER völdin næsta vor (2018) og væntanlega verður bæði ESA og EFTA-dómstólnum fært dómsvald yfir íslenskum orkumálum og munu þær stofnanir sjá um að framsenda fyrirskipanir ACER til EES-landanna.

Landbúnaðurinn

Vaxandi innflutningur á landbúnaðarafurðum á grundvelli EES hefur dregið úr íslenskum landbúnaði. Landbúnaðarvörur ESB eru niðurgreiddar beint og óbeint þannig að íslenskir bændur þurfa að keppa við ríkisstyrki ESB landa. Eftir að hráar sláturdýraafurðir frá ESB voru leyfðar hefur landið opnast fyrir misjöfnum afurðum, bæði af dýrum frá stöðum þar sem ill meðferð er leyfð, sjúkdómar landlægir og fóður dýranna með mikið innihald eiturefna. Rekinn hefur verið mikill áróður hérlendis fyrir að „lækka matvöruverð“ en upplýsingar um gæði vörunnar, heilsuhættur og sýklamengi í matvælum eða meðferð dýranna hefur ekki verið mikið í fréttum. Samkvæmt tilskipunum frá ESB og „dómi“ EFTA-dómstólsins (nóv. 2017) stendur nú til að afnema miklivægustu skilyrðin sem voru vegna sýkingavarna og opna landið alveg fyrir sláturdýraafurðum frá ESB. Það gæti haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir íslenska húsdýrastofna og lýðheilsufar.

Utanríkismálin

Ísland hefur dregist inn í tilraunir til að innlima Úkraínu í ESB. Sett var viðskiptabann á Rússland vegna meintra tilrauna Rússa til að leggja undir sig Úkraínu. Rússneska þjóðlandið var stofnað í Úkraínu af Kiev-Rússum um sama leyti og Ísland byggðist (árið 882 e.K.) og hefur Úkraína síðan verið hluti af rússneska svæðinu. Rússland hefur frá lýðveldisstofnun verið eitt mikilvægasta viðskiptaland Íslands og jafnan staðið með Íslendingum í hagsmunamálum landsins. Ísland hefur staðið utan þvingunartilrauna V-Evrópulanda og NATO gegn Rússlandi og ekki lent í vandræðum í vestrænu samstarfi þess vegna. En nú dróst Ísland með í þvingunaraðgerðirnar af hræðslugæðum við EES/ESB. Afleiðingin er að Rússar snúa sínum viðskiptum annað sem veldur erfiðleikum hjá íslenskum fyrirtækjum. Ísland hefur frá lýðveldisstofnun átt góða bandamenn og viðskiptafélaga í Bandaríkjunum og hafa einhver ágreiningsmál innan NATO eða við ESB ekki haft áhrif á það. Það er því óþarfi að hlaupa á eftir bönnum og boðum ESB eða NATO. Það mundi ekki valda vandræðum í viðskiptum við okkar vestrænu bandamenn í NATO þó að við sætum heima um stríðsæsingar gegn Rússum.

EFTA, sem Ísland er aðili að, hefur samið um fríverslun við mörg lönd og vinnur stöðugt að slíkum samningum. Vandamál EFTA er að það er klofið, annars vegar Noregur, Ísland og Liechtenstein sem lenti undir ESB með EES-samningnum. Hins vegar Sviss sem hafnaði EES-samningnum og hélt sínu sjálfstæði. Íslendingar ættu að beita sér fyrir að sameina EFTA aftur.

EES samningurinn skiptir litlu máli hvað varðar útflutning Íslands til ESB-landa. Ísland gerði fríverslunarsamning við Evrópubandalagið 1972, sem hefur verið uppfærður síðan og tryggir tollfrjálsan aðgang að ESB fyrir iðnaðarvörur. Hann er enn í gildi og eftir honum unnið. Hann er og óháður EES-samningnum og stendur áfram þegar EES-samningnum hefur verið sagt upp. Einnig hefur Alþjóða viðskiptastofnunin gert samninga núorðið sem tryggja lága tolla á útflutningsvörum landsins.