Skuldbindingar íslenskra stjórnvalda um losun “gróðurhúsalofttegunda”

Spurningar Frjáls lands (12.1.2019) og svör Umhverfisráðuneytisins (4.2.2019) um kostnað og skuldbindingar um losun „gróðurhúsalofttegunda“. Spurningar eru feitletraðar. Hugi Ólafsson svarar.

Hér eru svör sem ég hef tekið saman við spurningum þínum. Nokkuð er fjallað um skuldbindingar Íslands í aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, sem gæti gefið fyllri svör við sumum spurningum, sjá: https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2018/09/10/Blasid-til-soknar-i-loftslagsmalum/

1-Hefur Ísland gefið magngreindar skuldbindingar (sbr. fund í Katowiche) um útblástursmagn “gróðurhúsalofttegunda” (allar uppsprettur á landsvísu) 2030?

Ísland hefur sent inn sk. landsbundið markmið eins og önnur ríki sem eru aðilar að Parísarsamningnum. Í innsendu markmiði Íslands segir að Ísland hyggist taka þátt í sameiginlegu evrópsku markmiði um 40% minnkun losunar til 2030 miðað við 1990, með ríkjum ESB. Noregur setti fram sambærilegt markmið og hafa Ísland og Noregur átt í viðræðum við ESB um hlut ríkjanna í slíku markmiði. Meginástæða þess að Ísland telur þetta fyrirkomulag hagfellt er sú að stór hluti losunar Íslands er innan Evrópureglna (viðskiptakerfis með losunarheimildir, ETS) skv. EES-samningnum. Með samfloti við ríki ESB getur Ísland samþætt hnattrænar skuldbindingar og svæðisbundnar skuldbindingar og íslensk fyrirtæki búa við sambærilegar reglur og önnur fyrirtæki á Evrópska efnahagssvæðinu.
VIÐBÓTARSPURNING: Hvernig lenti stór hluti losunar Ísland innan EES (byrjar 2008)? Veistu hvort var gefinn út rökstuðningur af þáverandi stjórnvöldum?
VIÐBÓTARSVAR:Tilskipun um viðskiptakerfi með losunarheimildir (ETS) var tekin inn í EES-samninginn þar sem hún var metin innan gildissviðs samningsins. Þetta er rakið m.a. í frumvörpum til laga um losun gróðurhúsalofttegunda (https://www.althingi.is/altext/139/s/1229.html) og um loftslagsmál (https://www.althingi.is/altext/140/s/1189.html).

2-Er að vænta hnattræns markaðar á vegum SÞ um losunarkvóta vegna Kyoto/Paris 2015/Katowiche þar sem ríkið gæti keypt kvóta?

Áform eru um markað um losunarkvóta á grundvelli Parísarsamningsins, sem væri um sumt sambærilegur við það kerfi sem var við lýði í Kýótó-bókuninni (þótt eðli og umfang Parísarsamningsins sé um margt ólíkt Kýótó-bókuninni). Til stóð að ganga frá reglum um þau efni á fundinum í Katowice, í sk. „reglubók“ Parísarsamningsins. Því var þó frestað til næsta ársfundar loftslagssamningsins, en það var eina málið í reglubókinni sem ekki tókst að leiða alveg til lykta. Telja má þó líklegt að samkomulag náist á næsta fundi. Íslensk stjórnvöld stefna að því að losun verði innan markmiða á gildistíma Parísarsamningsins, þannig að ríkisvaldið þurfi ekki að kaupa heimildir vegna losunar eftir 2020 á alþjóðlegum mörkuðum.

3-Er til áætlun um hvort/hvað mikið ríkið þarf að eyða í losunarkvótakaup fram til 2030 vegna Kyoto/Paris 2015/Katowiche?

Nú liggur fyrir að ríkisvaldið þarf að kaupa losunarheimildir til að standa við skuldbindingar sínar í Kýótó-bókuninni á tímabilinu 2013-2020. Ekki liggur fyrir hvað þær heimildir kunna að kosta, en miðað við núverandi verðlag gæti heildarupphæðin hlaupið á nokkur hundruð milljónum króna fyrir tímabilið í heild. Ekki hefur verið gengið frá því kerfi sem Ísland mun verða í á grunni Parísarsamningsins og Evrópureglna á tímabilinu 2021-2030. Fyrir liggur í drögum að samkomulagi Íslands við ESB (sjá svar við 4) að Ísland fái á sig kröfu um minnkun losunar um 29% til 2030 miðað við 2005 (einnig eru þar sveigjanleikaákvæði, sem gætu dregið úr kröfunni). Ríki sem ekki ná markmiðum munu þurfa að kaupa heimildir. Íslensk stjórnvöld gera ráð fyrir að draga úr losun meira en sem þessari kröfu nemur, sem myndi þýða að ekki þyrfti að kaupa heimildir fyrir þetta tímabil. Slíkt er þó auðvitað ekki hægt að útiloka. Mikil óvissa er um bæði þróun losunar og hugsanlegt verð á heimildum, en auðvitað hægt að reikna ýmsar sviðsmyndir út frá ólíkum forsendum.
VIÐBÓTARSPURNING: -“ríkisvaldið þarf að kaupa losunarheimildir”:
a. Af hverjum á að kaupa?

VIÐBÓTARSVAR:Til að standa við skuldbindingar Kýótó-bókunarinnar þarf að kaupa sk. Kýótó-einingar, sem eru af nokkru tagi, þ.á m. einingar sem verða til vegna loftslagsvænna verkefna í þróunarríkjum (CDM). Slíkar einingar er hægt að kaupa á markaði, en Ísland hefur ekki reynslu af slíkum kaupum til þessa, en hefur m.a. átt samskipti við Norðmenn, sem hafa reynslu af slíkum kaupum. Ekki hefur verið tekin nein ákvörðun um kaup af neinum söluaðilum. Undir Effort sharing-reglum 2021-2030 er gert ráð fyrir að ríki sem þurfa að kaupa heimildir kaupi af Evrópuríkjum sem eiga umframheimildir.

VIÐBÓTARSPURNING: b. Gætu kaupin skipt milljörðum fyrir 2013-2020? En til 2030?
VIÐBÓTARSVAR: Miðað við verð á heimildum nú er ekki gert ráð fyrir að kaup á heimildum fyrir tímabilið 2013-2020 nemi milljörðum, en mögulega hundruðum milljóna króna. Íslensk stjórnvöld gera ekki ráð fyrir að þurfa að kaupa kvóta fyrir tímabilið 2021-2030, en ef losun væri umfram heimildir gætu slík kaup kostað hundruð milljóna eða milljarða, eftir magni heimilda og verði.

VIÐBÓTARSPURNING: c. Er það Umhverfisstofnun sem hefur reiknað út losunina til 2020 samkvæmt “alþjóðlegum” viðmiðum?
VIÐBÓTARSVAR:Umhverfisstofnun reiknar út losun og kolefnisbindingu á Íslandi árlega skv. reglum Loftslagssamningsins (UNFCCC) og stöðlum og viðmiðum IPCC. Bókhald Íslands er tekið út á hverju ári af UNFCCC. Ítarlegar upplýsingar um losun Íslands, auk skýrslna (NIR) sem Ísland sendir til UNFCCC er að finna á heimasíðu UST: https://ust.is/einstaklingar/loftslagsbreytingar/losun-islands/#Tab0

4-Hefur verið gert bindandi samkomulag/ eða er orðið að EES-kvöð við ESB eins og ETS/ um kvótasetningu annarrar starfsemi en stóriðju og flugs; hefur Ísland skuldbundið sig í ESR kerfi ESB?

Ísland hefur ekki skuldbundið sig til að taka upp reglugerð um sameiginlega ábyrgð (Effort sharing – ESR), en áformar að gera það, ásamt Noregi, á þessu ári. Þar liggur fyrir að Ísland mun þurfa að draga úr losun í starfsemi utan ETS (einkum stóriðju og flugi) um 29% til 2030, miðað við 2005. Nái Ísland því markmiði ekki, þarf Ísland að kaupa heimildir. Nái Ísland að draga úr losun meira en sem þessu nemur gæti Ísland selt heimildir, væri þörf á slíku í öðrum ríkjum og ef Ísland vildi. Íslensk stjórnvöld áforma í aðgerðaáætlun í loftslagsmálum að draga meira úr losun til 2030 en sem þessu nemur. Með þessu fyrirkomulagi, ásamt þátttöku í ETS-kerfinu, myndi Ísland standa við skuldbindingar Parísarsamningsins til 2030.
VIÐBÓTARSPURNING:”Ísland mun þurfa að draga úr losun í starfsemi utan ETS (einkum stóriðju og flugi)”
a. Er stóriðja og flug komið úr ETS? Hvaða starfsemi er átt við “utan ETS” (dæmi: landflutninga, skip, iðnað, landbúnað, annað)?

VIÐBÓTARSVAR: Stóriðjufyrirtæki og mestallt flug eru innan ETS. Öll önnur losun af mannavöldum er þar fyrir utan, m.a. frá samgöngum, landbúnaði, sjávarútvegi, meðferð úrgangs o.fl. Um þetta er m.a. fjallað í aðgerðaáætlun frá 2018.

VIÐBÓTARSPURNING: b.Af hverjum þarf Ísland að kaupa heimildir? Er átt við að ríkissjóður kaupi?

VIÐBÓTARSVAR: Fyrirtæki sem eru í ETS kaupa sjálf heimildir þar. Ríkissjóður þarf að kaupa heimildir til að mæta umframlosun utan ETS.

5-Hefur verið gerð áætlun um kostanð fyrirtækja á Íslandi við kvótakaup í ETS og ESR

Íslensk fyrirtæki sem falla undir ETS þurfa að standa skil á skuldbindingum sínum þar, en ekki undir ESR. Stjórnvöld hafa ekki gert áætlun um kostnað fyrirtækja.

VIÐBÓTARSPURNING: “en ekki undir ESR-“
a. Lenda íslensk fyrirtæki ekki undir ESR?

VIÐBÓTARSVAR: Einstök fyrirtæki bera ekki skuldbindingar undir ESR á þann hátt sem er í ETS; en undir ESR er losun frá ýmsum uppsprettum, s.s. fyrirtækjum, stofnunum og einstaklingum.

VIÐBÓTARSPURNING: b. Þurfa þeir sem lenda í ESR ekki að kaupa (fá úthlutað) heimildir?

VIÐBÓTARSVAR: Aðeins ríki bera skuldbindingar innan Effort sharing; ríkin fá úthlutað heimildum fyrir tímabilið 2021-2030.

VIÐBÓTARSPURNING: c.Hver stendur skil á skuldbindingum undir ESR?
VIÐBÓTARSVAR: Íslenska ríkið

6-Er eitthvað því til fyrirstöðu í skuldbindingunum landsins (annað en EES og tilskipanir frá ESB og samningar Íslands/Noregs um ETS/ESR) að Ísland stofni eigin losunarkvótaviðskiptakerfi/skattlagningakerfi fyrir losun allra gróðurhúsalofttegunda/ uppsprettur sem þurfa þykir eða alþjóðlegar (þ.e. hnattrænar til SÞ-stofnana) skuldbindingar hafa verið gefnar um?

Ríkjum er frjálst að taka þátt í alþjóðasamningum. Ísland er, eins og nær öll önnur ríki heims, aðili að Loftslagssamningi S.þ. frá 1992 og Parísarsamningnum frá 2015. Parísarsamningurinn krefur þróuð ríki að leggja fram metnaðarfull markmið um minnkun losunar, sem nái til alls hagkerfisins. Ekki eru nákvæm fyrirmæli um hvernig það skuli gert og ríki hafa því töluvert svigrúm til aðgerða um hvernig markmiðum skuli náð. Íslensk stjórnvöld hafa lagt fram aðgerðaáætlun til að marka leiðina að minnkun losunar og aukningu í kolefnisbindingu til 2030. Þar er m.a. gert ráð fyrir áframhaldandi þátttöku í ETS-kerfinu, á grunni skuldbindinga í EES-samningnum og að sú losun sem falli þar undir uppfylli einnig kröfur Parísarsamningsins með því. Þar er einnig m.a. gert ráð fyrir kolefnisgjaldi og ívilnunum fyrir rafbíla og önnur vistvæn ökutæki, svo dæmi séu tekin. Aðgerðir Íslands eru að hluta þátttaka í alþjóðlegum og svæðisbundnum skuldbindingum, en að hluta aðgerðir sem íslensk stjórnvöld ákveða án þess að þar liggi neinar skyldur um í alþjóðasamningum. Íslensk stjórnvöld gætu vissulega sett upp innanlandskerfi með losunarkvóta ef Ísland tæki ekki upp ETS-kerfið í gegnum EES-samninginn – eða sleppt því að koma á slíku kerfi.