Eru dagar EES taldir?

Eft­ir Bjarna Jóns­son

ESB þrýst­ir á EFTA-lönd­in í EES að fella Þriðja orku­markaðslaga­bálk ESB inn í EES-samn­ing­inn. Slíkt mun svipta lönd­in full­veld­inu á orku­mála­sviði.“

Samn­ing­ur­inn um Evr­ópska efna­hags­svæðið – EES var samþykkt­ur á Alþingi 12. janú­ar 1993 og gekk í gildi á Íslandi í árs­byrj­un 1994, tveim­ur árum seinna en í Nor­egi. Hér­lend­is risu á sín­um tíma úfar um það, hvort samn­ing­ur­inn bryti í bága við Stjórn­ar­skrána. Verj­end­ur samn­ings­ins töldu full­veld­is­framsalið nægi­lega tak­markað til að rúm­ast inn­an hins leyfi­lega. Reynsl­an hef­ur leitt í ljós, að mikið ójafn­ræði er með EFTA- og ESB-ríkj­un­um við fram­kvæmd samn­ings­ins, og neit­un­ar­vald EFTA-ríkj­anna gagn­vart viðbót­um í samn­ing­inn hef­ur ekki virkað. Þetta verður baga­legra, eft­ir því sem valda­samþjöpp­un ESB vind­ur fram.

Ísland hef­ur að mörgu leyti notið ávinn­ings af Innri markaðinum, en gall­ana mætti losna við með fríverzl­un­ar­samn­ing­um við ESB og Breta.

Vel væri við hæfi í til­efni ald­ar­fjórðungsaf­mæl­is EES-samn­ings­ins, að t.d. Hag­fræðistofn­un Há­skóla Íslands – HHÍ mundi leggja mat sitt á ár­leg­an heild­ar­kostnað hag­kerf­is­ins af aðild­inni og ár­leg­an heild­arávinn­ing miðað við að Ísland nyti að fullu sömu fríverzl­un­ar­rétt­inda við ESB og Kan­ada­menn sömdu ný­lega um. Til­gáta höf­und­ar er sú, að þjóðhags­leg­ur ávinn­ing­ur af upp­sögn EES-samn­ings­ins sé ótví­ræður og vax­andi.

Orku­sam­band ESB

Grund­völl­ur­inn að aukn­um samruna ESB-ríkj­anna var lagður í stjórn­ar­skránni, sem hlaut nafnið Lissa­bon­sátt­mál­inn, eft­ir að Frakk­ar og Hol­lend­ing­ar felldu upp­haf­legu gerð henn­ar. Í Lissa­bon­sátt­mál­an­um er t.d. forskrift um, að orku­mál ríkj­anna skuli verða á valdsviði ESB, og árið 2009 var fram­kvæmda­stjórn­inni heim­ilað að setja á lagg­irn­ar stjórn­valds­stofn­un með rík­ar vald­heim­ild­ir á orku­mála­sviði.

Sam­eig­in­leg mat­væla­stefna er við lýði inn­an EES síðan 2009, og EFTA-dóm­stóll­inn hef­ur gert Alþingi aft­ur­reka með varnagla sinn gagn­vart inn­fluttri ógn við lýðheilsu og búfjár­heilsu hér­lend­is. Lög­saga Alþing­is á Íslandi fór þar fyr­ir lítið, og þykir mörg­um nóg um.

Annað dæmi um sam­bands­rík­isþróun er banka­sam­band EES með sam­eig­in­legu fjár­mála­eft­ir­liti.

Þriðja dæmið er þó tilþrifa­mest. Það er nú í deigl­unni í EFTA-lönd­un­um. Þar er komið að Orku­sam­bandi ESB með höfuðstöðvum í Lju­blj­ana og kall­ast „Agency for the Cooperati­on of Energy Reg­ulators“ – ACER, sem hóf starf­semi árið 2011. Þar á hvert ESB-ríki einn full­trúa með at­kvæðis­rétti, en EFTA-rík­in aðeins áheyrn­ar­full­trúa án at­kvæðis­rétt­ar. Sam­eig­in­lega EES-nefnd­in, með full­trú­um frá ESB og EFTA, samþykkti 5. maí 2017, að fella skyldi Þriðja orku­markaðslaga­bálk ESB inn í EES-samn­ing­inn, og þess vegna ligg­ur hann nú á frum­varps­formi fyr­ir norska Stórþing­inu og vænt­an­lega á Alþingi til um­fjöll­un­ar á vorþingi 2018.

Hvor­ugt þess­ara ríkja get­ur þó haft nokk­urt gagn af þess­ari lög­gjöf, en aft­ur á móti geta þau orðið fyr­ir stór­tjóni af henn­ar völd­um. Stofnaður verður raf­orku­markaður í Nor­egi, og á Íslandi eft­ir lagn­ingu sæ­strengs, sem tengd­ir verða orku­markaði ESB. ESB fær þannig aðgang að „grænni raf­hlöðu“ Nor­egs og Íslands, og til þess eru ref­irn­ir skorn­ir. Get­ur þá raf­orku­kaup­andi í hvaða EES-landi sem er boðið í þá raf­orku, sem til reiðu er. Í þessu kerfi tíðkast ekki lang­tíma­samn­ing­ar um orku­af­hend­ingu, og end­ur­nýj­un þeirra verður óleyfi­leg. Orku­sæk­inn iðnaður í Nor­egi og á Íslandi sér þannig sína sæng upp reidda, því að helzta sam­keppn­is­for­skot iðnaðar í þess­um lönd­um er aðgang­ur að vist­vænni raf­orku sam­kvæmt lang­tíma­samn­ing­um.

Ef Alþingi samþykk­ir Þriðja orku­markaðslaga­bálk ESB inn í EES-samn­ing­inn, fær­ist stjórn­sýslu- og fram­kvæmda­vald raf­orku­flutn­inga á Íslandi, og til og frá Íslandi, frá Iðnaðarráðuneyt­inu, Orku­stofn­un og Landsneti til ACER og úti­bús þess á Íslandi, sem verður stjórn­sýslu­stofn­un raf­orku­flutn­inga, óháð inn­lend­um yf­ir­völd­um og hags­munaaðilum, og tek­ur aðeins við fyr­ir­mæl­um frá ACER/​ESB með ESA sem millilið. Stjórn­sýslukvört­un­um verður að beina til ESA. ACER get­ur t.d. tekið ákvörðun um lagn­ingu aflsæ­strengs til Íslands og teng­ingu hans við stofn­kerf­in í sitt hvorn enda. ACER ákveður kostnaðar­skipt­ingu sæ­strengs­verk­efn­is­ins á milli hlutaðeig­andi landa, ef þau ná ekki sam­komu­lagi sín á milli. Lítið land get­ur þar þurft erfiðum bita að kyngja.

Útganga Breta

Ákvörðun Breta um að segja sig úr lög­um við ESB er sögu­leg og mun hafa mik­il áhrif um alla Evr­ópu. Efna­hags­kerfi ESB minnk­ar um allt að fjórðung í einu vet­fangi, og tekj­ur þess minnka til­finn­an­lega. Viðskipta­kost­um landa utan ESB fjölg­ar. Þessi staða er vatn á myllu EFTA-land­anna, sem eiga nú þegar mik­il viðskipti við Bret­land. Fríverzl­un­ar­samn­ing­ur verður vafa­laust gerður á milli ESB og Bret­lands, og það væri und­ar­legt, ef EFTA-lönd­un­um byðist ekki sams kon­ar tví­hliða viðskipta­samn­ing­ur. Gagn­kvæm toll­frjáls viðskipti á milli Íslands, Nor­egs, ESB og Bret­lands blasa við árið 2020, þótt EES verði aflagt.

Niðurstaða

Stefnu­mörk­un­in um æ nán­ari stjórn­sýslu­leg­an samruna ESB-ríkj­anna hlaut að leiða til klofn­ings, eins og nú er orðin raun­in, og get­ur hann hæg­lega magnazt. Nor­eg­ur og Ísland hafa haldið stjórn auðlinda­mála utan seil­ing­ar ESB, og hið sama verður að gilda um ráðstöf­un ork­unn­ar, þótt slíkt kosti til­vist EES.

(Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 3.2.2018)