Engin varanleg hlýnun loftslags á Suðurströndinni í 80 ár.

Rannsóknir á hitabreytingum í gufuhvolfinu yfir lengri tímabil, öld eða meir, eru vandkvæðum bundnar. Margir hitamælar eru staðsettir í þéttbýli sem hefur vaxið mikið áratugum saman eða lengur. Mælarnir sumir eru komnir í skjól mannvirkja og gróðurs. Útgeislun varma frá húsum og dökkum götum hita loftið á sólardögum, heitur reykur farartækja og véla hitar loftið í kyrrviðri sem breytir meðaltölum mæligilda. Mælar í eða nálægt þéttbýli gefa því hitastig við aðrar aðstæður en fyrir áratugum eða öld og eru ónothæfir við að meta loftslagsbreytingar. Þetta á t.d. við elsta mælistað Íslands í Stykkishólmi.

Yfir 7/10 jarðaryfirborðs er haf og þar er lítið um hitamælingar (nema úr gerfihnöttum). Hitamælingar sem birtar eru gefa því oftast til kynna hitastig á landi sem er undir 3/10 jarðaryfirborðsins. Með landföstum mælum gefa hitamælingar nálægt sjó, ótruflaðar af mannabyggð, einna bestu myndina af hitafarinu á 7/10 hlutum jarðar.

Hitamælingar á Íslandi

Lofthiti syðst á Íslandi mótast mikið af hitastiginu á meginsvæði Norður-Atlantshafsins sunnan Íslands. Upplýsingar um hitafar við Norður-Atlantshafið gefa hitamælar, fjarri mannabyggð, nálægt suðurströnd Íslands. Mælirinn á Stórhöfða er fjarri þéttbýli, á syðsta odda Heimaeyjar og stendur á kletti yfir sjó, nærri óhindraður veðragangur er þar úr öllum áttum. Mælingar með honum ættu að gefa sæmilega mynd af hitaþróuninni syðst á Norður-Atlantshafsströnd Íslands.

Loftslagsbreytingar við suðurströndina 1918 – 2018

Hlýjasta tímabil frá upphafi mælinga er um 1940 syðst á landinu. Hæsti hiti sem mælst hefur á landinu frá upphafi mælinga mældist árið 1939. Miklar sveiflur hafa orðið síðustu hundrað árin. Mikill kuldi var um 1918 og aftur um 1980 og var kólnunin 2,5 C° frá 1940. Eftir 1980 hlýnar aftur og hlý ár milli 2003-2014 ná svipuðum hitastigum og árin um 1940.

Greina má í línuritinu yfir ársmeðalhita á Stórhöfða tilhneigingu til kólnunar síðustu árin. Árið 2015 var það 76., árið 2016 það 11., árið 2017 það 25. og árið 2018 það 35. hlýjasta á tímabilinu 1918-2018, með hitastig sem líkjast meira þeim sem mældust á kuldaskeiðinu 1960-1990.

 

Í línuritinu yfir Stórhöfða sjást tvær svipaðar sveiflur:

1) Mikil hlýnun eftir kuldana um 1919

Hlýindaskeið 1930-1960. Hlýindin ná hámarki um 1940

Mikil kólnun 1960-1979

2) Mikil hlýnun eftir kuldana um 1979

Hlýindaskeið 1990-2018. Hlýindin ná hámarki 2003-2014

Vísbending um kólnun eftir 2018

Ef hitasveiflur síðustu hundrað ára halda áfram að endurtaka sig í

sama takti verður áframhaldandi kólnun 2020-2040.

Heitasta árið frá upphafi mælinga á Stórhöfða var árið 1941, þau köldustu 1979 og 1919. Hlýindaskeiðið 1990-2018 er með óvæntu kuldakasti (1992-1995) sem getur verið eðlileg sveifla en er líklega að hlua til vegna eldgossins mikla í Pinatubo 1991 sem losaði um 20 milljón tonn af brennisteinstvíildi upp í heiðhvolfið sem dró úr sólarhitun jarðar næstu árin.

Svipaða loftslagsþróun og á Stórhöfða er hægt að finna syðst á landinu þar sem lengri mæliraðir eru til, fjarri þéttbýli. Á Hrepphólum sjást svipaðar sveiflur og á Stórhöfða, hlýjasta árið frá upphafi mælinga þar er 1939. Á Vatnsskarðshólum eru mælingar birtar á vef Veðurstofunnar aftur til 1949, hlýjasta árið þar er 1960. Í mælingum á Keflavíkurflugvelli má greina tilhneigingu til kólnunar 2003-2018. Á mörgum stöðum á landiu, t.d. í Reykjavík, eru 6 af 10 hlýjustu árunum á hlýskeiðinu 1930-1960 eins og á Stórhöfða.

Hitaþróun vestanhafs

Í Bandaríkjunum hafa nákvæmar hitamælingar verið framkvæmdar í langan tíma. Bæði loft- og hafstraumar liggja þaðan til nyrsta hluta N-Atlantshafsins og Íslands. Hitaferlið á Stórhöfða líkist í meginatriðum ferli meðalárshitans á landi í Bandaríkjunum. Toppar og botnar hitastigslínurita þar fylgja svipuðum sveiflum og á Íslandi en eru nokkru á undan samsvarandi toppum og botnum í hitalínuritum fyrr Ísland.

Nákvæmar og öruggar mælingar hitamæla á landi frá Bandaríkjunum og víðar er erfitt að finna í aðgengilegum gögnum. Sumar stofnananna, sem gefa sig út fyrir að rannsaka loftslagsbreytingar, eru á síðustu árum farnar að birta „aðlagaðar“ hitatölur sem þýðir að þær gefa ekki upp mældan hita frá þeim tíma sem gildin voru lesin af mælunum.

Kólnunin í Norður-Atlantshafinu

Í Norður-Atlantshafi við Íslandsströnd hefur orðið nær samfelld kólnun í 15 ár. Hitamælingar í sjónum víða við Íslandsstrendur sýna 1,5-2,5°C kólnun á árunum 2003-2018. Við Vestmannaeyjar hefur sjávarhitinn lækkað um 1,5°C frá 2003.

Kólnunin í Norður-Íshafinu

Sjávarhitinn við Norður-Íshafsströnd Íslands hefur farið lækkandi eins og í N-Atlantshafinu. Við Grímsey hefur sjávarhitinn lækkað um 2,5°C 2003-2018. Sumarútbreiðsla hafíssins 2018 var um 1 milljón ferkílómetrum meiri en 2012. Rúmmál hafíssins hefur vaxið og er nú (feb. 2019) meira en síðustu árin á sama árstíma. Kólnunin í hafinu nær þannig til alls hafsvæðisins í kringum Ísland. Afleiðingin er að loftslag á landinu kólnar eins og tilhneigingin syðst á landinu sýnir.

Niðurstaða um loftslagsbreytingar á Íslandi

Engin varanleg hlýnun loftslags hefur orðið á syðsta hluta Íslands í um 80 ár, frá 1940, en miklar sveiflur. Sjórinn við Íslandsstrendur hefur kólnað 2003-2018 og greina má merki um loftslagskólnun á sama tímabili. Ef loftslagssveiflur síðustu hundrað ára halda áfram í svipuðum takti og styrk er að vænta áframhaldandi kólnunar loftslags næstu tvo áratugina.

Það þýðir kuldaskeið með harðæri: Minni afli, minni uppskera, landflótti og hafís þegar kemur fram um 2030-2040, sambærilegt við ástandið 1970-1980. Kuldaskeið þarf að undirbúa í tíma til að ráða við áföllin ef þau verða að veruleika. Þessi spá, eins og allar loftslagsspár, hafa mikla tilhneigingu til að vera rangar og er svo að vona. Margar stofnanir í loftslagsmálum hafa spáð mikilli hlýnun loftslags í meir en tvo áratugi. Þær spár hafa allar reynst rangar.

Tölur um lofthita eru frá Veðurstofu Íslands. Upplýsingar um sjávarhita eru frá Hafrannsóknastofnun. Upplýsingar um hafís eru frá DMI.

Tafla: Ársmeðalhiti, C°, á Stórhöfða 1918-2018

1918 4,2
1919 3,94
1920 4,57
1921 4,48
1922 4,61
1923 4,5
1924 4,79
1925 4,5
1926 5,2
1927 5,2
1928 5,81
1929 5,68
1930 4,99
1931 5,09
1932 5,73
1933 6,07
1934 5,45
1935 5,33
1936 5,22
1937 5,08
1938 5,27
1939 6,08
1940 5,42
1941 6,26
1942 5,62
1943 5,06
1944 5
1945 6,04
1946 6,17
1947 5,26
1948 5,39
1949 4,62
1950 5,24
1951 4,79
1952 4,83
1953 5,79
1954 5,2
1955 4,78
1956 5,5
1957 5,28
1958 5,38
1959 5,42
1960 6,07
1961 5,37
1962 4,87
1963 5,18
1964 5,69
1965 5,19
1966 4,65
1967 4,65
1968 4,86
1969 4,26
1970 4,46
1971 5,06
1972 5,4
1973 4,38
1974 5,34
1975 4,62
1976 4,87
1977 4,97
1978 5,01
1979 3,71
1980 5,04
1981 3,96
1982 4,56
1983 4,09
1984 4,65
1985 4,92
1986 4,82
1987 5,59
1988 4,79
1989 4,43
1990 4,77
1991 5,35
1992 4,52
1993 4,68
1994 4,67
1995 4,35
1996 5,44
1997 5,47
1998 5,26
1999 4,84
2000 5,12
2001 5,6
2002 5,85
2003 6,23
2004 6
2005 5,41
2006 5,93
2007 5,89
2008 5,55
2009 6,02
2010 6,17
2011 5,7
2012 5,81
2013 5,24
2014 6,24
2015 4,78
2016 6,01
2017 5,6
2018 5,4

Friðrik Daníelsson. Greinin birtist í Morgunblaðinu 20.2.2019.