Eftir Friðrik Daníelsson og Sigurbjörn Svavarsson. Morgunblaðið 13.10.2020.
“Það eru gleðifregnir að ríkisstjórn Íslands og stuðningsmenn hennar skuli vera farin að taka upp baráttuna fyrir sjálfstæði landsins”
ESB segir að lög þess séu æðri íslenskum lögum. Ríkisstjórn Íslands og hennar stuðningsmönnum á Alþingi er ofboðið og hafa snúist til varnar íslensku sjálfstæði og löggjafarvaldi.
Ávirðingar frá ESA
ESA, eftirlitsstofnunin með að Noregur, Ísland og Liechtenstein hlýði valdboðum ESB og ákvæðum EES-samningsins, hefur nú sent ríkisstjórn Íslands enn eitt bréfið, sk. „rökstutt álit“ (Decision No. 002/20/COL), sem segir m.a.: „Ísland hefur látið undir höfuð leggjast að láta innleitt EES-regluverk verða æðra íslenskum lögum – og þar með vanrækt að uppfylla sínar skyldur samkvæmt bókun 35 og grein 3 í EES-samningnum – ESA leggur fyrir Ísland að viðhafa nauðsynlegar aðgerðir til þess að hlýða þessu rökstudda áliti innan þriggja mánaða.“ Bréfið er langloka með 79 atriðum með ávirðingum við íslensk stjórnvöld, margar athugasemdir varða dómstóla landsins, þar á meðal Hæstarétt Íslands.
ESA svarað
Ríkisstjórn Íslands sendi ESA bréf 10.9. 2020, sem svar við bréfi um sama efni frá 2017, þar sem m.a. er vísað í það mat utanríkisráðuneytisins að í ljósi dóms stjórnlagadómstóls Þýskalands sé ekki tímabært að huga að breytingum á lögum til samræmis við framkomnar athugasemdir ESA á meðan óvissa ríkir í þessum málum almennt á EES-svæðinu. Stjórnlagadómsóll Þýskalands gaf nýlega út dóm sem fylgir ekki dómi dómstóls Evrópusambandsins.
Aðgangur ESB að orkuauðlindunum
Frjálst land spurði ríkisstjórnina (26.2. 2020) hvort meiningin væri að veita fjárfestum ESB aðgang að íslenskum orkulindum í framhaldi af „rökstuddu áliti“ ESA um að Ísland virti ekki ákvæði EES um jafnræði íslenskra og ESB-fjárfesta við útboð virkjanaréttinda.
Ríkisstjórnin svaraði (2.4. 2020) að frumvarp sem lagt hafði verið fram um málið hefði verið dregið til baka. „Komið hafi upp rökstuddar efasemdir um að þjónustutilskipunin (nr. 123/2006 sem ESA vísaði m.a. til) eigi við um raforkuframleiðslu. Íslensk stjórnvöld hafa því ákveðið að fresta fyrirhuguðum lagabreytingum uns betri visssa er fengin fyrir því hvaða þjóðréttarlegu skuldbindingar hvíla á íslenska ríkinu að þessu leyti,“ segir í svari ríkisstjórnarinnar.
Ríkisstjórnin í varnarbaráttu
Þetta er alveg ný staða í íslenskum stjórnmálum, hingað til hefur íslenska ríkisvaldið hvorki æmt né skræmt þegar valdboð hafa komið frá Brussel, bara hlýtt. Það eru miklar gleðifregnir að ríkisstjórn Íslands og stuðningsmenn hennar skuli vera farin að taka upp baráttuna fyrir sjálfstæði landsins. Þeim fylgja góðar óskir en vert að minna á að nágrannar okkar Bretar tóku fjögur og hálft ár í að endurheimta sjálfstæðið og eru þó margfalt stærri þjóð en Íslendingar.
Höfundar sitja í stjórn Frjáls lands.