Um fullveldið og framkvæmd EES-samningsins

Eftir Sigurbjörn Svavarsson

Þegar EES samningurinn var samþykktur á Alþingi í 13. janúar 1993 var meirihluti þingsins þeirrar skoðunar „að samþykki Alþingis á EES-samningnum brjóti ekki í bága við stjórnarskrána“. Texti samningsins gefur þó glögglega í skyn að Alþingi var að færa löggjafavaldið yfir efnisatriðum samningsins frá sér, því í 2. gr. hans segir: „Meginmál EES-samningsins skal hafa lagagildi hér á landi.“ Hins vegar má efast um hvort þingmenn hafi getað séð fyrir sér umfang og framkvæmd samningsins á þeim 25 árum sem liðin eru frá samþykkt samningsins.

Á þessum 25 árum hefur Ísland innleitt um 11.000 tilskipanir ESB hér á landi, ýmist með lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum. Samskipti stofnanna EFTA og ESB á grunvelli samningsins byggist á svokölluðu tveggja stoða kerfi. Á milli stoðanna eru sameiginlegar stofnanir sem vettvangur samvinnu og sameiginlegra ákvarðanna um hvað skuli taka upp í EES samninginn. Að hálfu EFTA voru settar á stofn 5 undirnefndir auk 32 sérfræðinganefnda til að fara yfir efni fyrirhugaðra lagasetninga ESB sem gætu fallið undir EES samningin, álit þeirra fari síðan til sameiginlegu EES nefndarinnar til endanlegrar afgreiðslu.

Framkvæmd EES samningsins

Þróunin hefur hinsvegar orðið sú að í stað samvinnu í undirbúningi löggjafar ákveður framkvæmdastjórn ESB hvað af tilskipunum þeirra skuli tekið upp í EES samninginn. Flestum beiðnum EFTA ríkjanna um undanþágu eða sérlausnir er hafnað og ekki mörg dæmi um að EFTA ríkin hafi getað haft áhrif á ESB gerðir. Samkvæmt samningnum þarf sameiginlega EES nefndin að afgreiða mál einróma og ef ágreiningur er um einstök efni er það afgreitt með tímabundnum undanþágum.

Innleiðing tilskipanna.

Við samþykkt þeirrar nefndar öðlast gerðin lagagildi á EES svæðinu þann sama dag og þar með á Íslandi. Það er síðan hlutverk ráðuneyta að setja þessar gerðir í lagafrumvarp eða stjórnvaldsfyrirmæli sem Alþingi verður að afgreiða. Ef dráttur verður á afgreiðslu þessara gerða á Alþingi gefur Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) Íslandi aðvörun og að 12 mánuðum liðnum er drátturinn kærður til EFTA dómstólsins sem ávallt dæmir samkvæmt niðurstöðu sameiginlegu EES nefndarinnar.

Þó deila megi um hvort EES samningurinn og framkvæmd hans skerði innra fullveldisrétt landsins, þ.e. réttinn til að ráða innri málefnum sínum, hefur miðstýrt tilskipunarvald Brussels valdið síaukinni andstöðu innan EES sem og innan ESB. Það er ástæðan fyrir úrgöngu Breta úr ESB og miklu óþoli í Noregi við EES samninginn.

Fyrir 100 árum lauk tilskipunarvaldi Kaupmannahafnar í málefnum íslendinga sem staðið hafði um aldir, en fyrir 25 árum tók við tilskipunarvald ESB um innlend málefni okkar. Spurningin er, hversu lengi mun það standa?

(Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 1.2.2018)