Gleymdum við Bandaríkjunum?

frjalstland.blog.is 1.5.2018 | 13:15

north-atlantic-treaty-organization-nato-member-countries-highlighted-blue-world-political-map-states-june-111521883.jpg

Bandaríkin voru fyrsta landið til að viðurkenna sjálfstæði Íslands (strax 14.10.1942) og þau hjálpuðu okkur að komast úr fátækt, komu með fé til uppbyggingar, byggðu mannvirki og opnuðu á viðskipti. Og vildu hafa okkur sem bandamenn í NATO og hafa varnarsamning og hafa hér herstöð um skeið. En þau, stórveldið sjálft, reyndu aldrei að hrifsa til sín stjórnvald yfir landinu eða senda okkur tilskipanir eins og Evrópusambandið gerir.

Nú er komið í ljós að mikil hræðsla er við að segja upp EES-samningnum við Evrópusambandið. Þegar hann var gerður áttuðu menn sig ekki á að verið var að leiða gömlu stríðsþjóðir Evrópu, sem Bandaríkin hafa jafnan þurft að friða, til valda hér, og að EES-samningurinn mundi spilla viðskiptum okkar við Bandaríkin.

En Bandaríkin hafa ekki slitið vinskapnum við Ísland, á hann hefur jafnan verið hægt að treysta og verður áfram hvernig sem samskipti Íslands við Evrópusambandið verða. Þess vegna þurfa Íslendingar ekki að vera hræddir við að segja sig úr EES.

“Við megum aldrei gleyma fortíðinni en við verðum líka að vera vakandi fyrir því að Ísland og Bandaríkin þurfa að takast á við framtíðina – saman. Hvert sem næsta skref verður er ég þess fullviss að samstarf okkar mun halda áfram að þróast og aðlagast sameiginlegum markmiðum okkar um frið og velsæld til handa okkur öllum”. Jill Esposito, starfandi sendiherra Bandaríkjanna, í Morgunblaðinu 1.5.2018.