Alvarlegasta rangfærslan um EES-samninginn

EES-samningurinn hefur verið heilög kýr síðan hann var gerður. Þöggun hefur ríkt um hann í 25 ár, umræður um EES hafa jafnóðum verið kveðnar niður. Beitt hefur verið villandi hártogunum og fölskum fullyrðingum. Opnun umræðunnar í vetur leið leiddi í ljós að uppplýsingar, sem bornar eru á borð fyrir almenning um EES, eru margar falskar eða hálfsannar og mina meir á sjónhverfingar en upplýsingar.

Alvarlegasta rangfærslan er „EES tryggir aðgang að innri markaði ESB“ og er þar með gefið í skyn að Íslendingar verði útilokaðir frá viðskiptum við ESB-lönd þegar EES verður sagt upp.

Þetta er gróf og alvarleg afbökun á stöðu mála.

Íslandi var tryggður tollfrjáls aðgangur að mörkuðum Evrópubandalagsins fyrir allar helstu útflutningsafurðir landsins með fríverslunarsamningi sem tók gildi 1973. Samningurinn hefur verið uppfærður og er í fullu gildi og notkun í dag. Helstu útflutningsafurðir Íslands í dag bera 0-toll inn á markaði í ESB samkvæmt honum. Tollskrifstofa ESB.

Takmarkaðan hluta útflutningsins er hagstæðara að tolla samkvæmt EES-samningnum en það veltur á tiltöllega smáum upphæðum. Samið var um að þegar þegar EES fellur úr gildi heldur Fríverlsunarsamningurinn áfram gildi sínu. Tollaákvæði WTO taka gildi ef þau eru betri en í Fríverslunarsamningnum. En Tollar samkvæmt WTO eru lágir, það er ein af ástæðum þess að mörgum Bretum hugnast að ljúka samningaferlinu um útgöngu úr ESB með „no deal“, þ.e. að nota WTO-samningana. Bretland, og Ísland, hafa ágætis „deal“ um viðskipti við umheiminn með aðildinni að WTO samningunum.

Á ESB-máli þýðir „innri markaður“ svæðið þar sem ESB hefur tilskipanavald.

-Hvað er að innri markaði ESB? Það er til einfalt, stutt og skorinort svar við þeirri spurningu: Hann er í raun ekki til! Innri markaðurinn er á margann hátt hugarburður. Margir gera ráð fyrir að hann sé til af því að það er talað um hann í svo löngu máli að menn fá á tilfinninguna að hann hljóti að vera til. Raunveruleikinn er þó að hann er aðeins til að nafninu til. Það eru miklar hindranir á milliríkjaviðskipti í ESB og markaðurinn er háður mörgum óvissuþáttum-“ ECIPE hugveitan.

Markaðir ESB eru ekki eins áhugaverðir og áður, hlutur ESB í alþjóðaviðskiptum hefur hrönað jafnt og þétt í áratugi (úr 30% 1980 í 17% ). Stöðnun er viðvarandi í ESB (efnahagöxturinn 1.78% á ári 1996-2018 en verðbólgan 1.97% 1980-2018), atvinusköpun lítil og atvinnuleysi landlægt.

Vaxandi safn verslunarhafta, kvaða, leyfiskerfa og regluverks í ESB (og EES) gera sölu á markaði ESB kostnaðarsama. Leyfi sem kosta milljónir króna þarf fyrir ýmsum hráefnum, vottanir og stimpla þarf á búnað og tæki, „markaðsleyfi“ á sérvörur o.s.frv. EES-regluverkið er farið að spilla sölustarfi íslenskra fyrirtækja á álþóðamörkuðum. Einn forsvarmaður íslensks útflutningsfyrirtækis sagði:

-“fyrirtækið er gert ósamkeppnishæft á alþjóðamörkuðum utan ESB vegna EES-regluverksins-“. Regluverk EES gerir íslensk fyrirtæki ósamkeppnishæf.

Markaðir ESB-landa sitja í vaxandi reglufeni innan haftamúra ESB/EES. Íslensk fyrirtæki eru mörg í vexti og mega ekki við hamlandi regluverki EES við sókn sína ut á alþjóðamarkaði. EES-samningurinn setur höft á viðskipti Íslands við sögulega mikilvægustu viðskiptalaöndin, USA, Rússland, Austur-Asíulönd. Og Bretland frá og með apríl á næsta ári.

ESB-fyrirtæki hafa einokunaraðgang að íslenskum mörkuðum á vissum sviðum með hjálp ýmissra reglna frá ESB. Afleiðingin er hærra vöruverð hér en ef vörurnar væru af alþjóðamarkaði og keyptar beint hingað. Bíla, frá öðrum stöðum en ESB, er frágangssök flytja inn vegna regluverks ESB. Nema á háu verði í gegnum umboð eða flutningsskrifstofur í ESB. Niðurgreiddum landbúnaðarafurðum ESB er verið að koma fyrir á markaði hér, innan múra ESB/EES. Stærri útboð á framkvæmdum, og jafnvel inkaupum öðrum, eru einskorðuð við verktaka í ESB/EES.

Hagkvæm vöruinnkaup á alþjóðamarkaði eru oft ógerleg vegna verslunarhafta ESB inn á EES.

ESB þarfnast íslenskrar vöru og mun ekki sjá sér hag í útilokunartilburðum eða refsiaðgerðum gegn Íslandi og Noregi þegar EES verður sagt upp. Íslenskar vörur eru almennt vel seljanlegar á alþjóðamörkuðum utan ESB og stundum borgar sig ekki að fá dýran stimpil eða uppfylla kvaðir ESB/EES.

Þjónustuviðskipti við ESB munu halda áfram með eða án EES. Þau eru byggð á alþjóðasamkomulagi, GATS, sem veitir Íslandi aðgang að alþjóðamörkuðum fyrir þjónustu.

EES hefur litla jákvæða þýðigu fyrir sölu íslenskra vara og þjónustu á „innri markaði“ ESB. En vaxandi neikvæða þýðingu vegna kvaða, hafta og regluverks sem gera ESB-markaðina óaðgengilegri og EES samninginn byrði á mörgum útflutningsfyrirtækjum, sérstaklega þeim sem starfa á alþjóðamarkaði.

Aðrir samningar sem Ísland hefur gert, s.s. Fríverlsunarsamningurinn við EB, WTO- og GATS- samningarnir og fríverlsunarsamningar sem EFTA hefur gert eða stjórnvöld hér á eigin vegum, tryggja Íslandi betri aðgang að mörkuðum heimsins en EES samningurinn.

Posted in EES | Comments Off on Alvarlegasta rangfærslan um EES-samninginn

Fyrirvarar við þriðja orkupakka ESB?

Bjarni Jónsson rafmagnsverkfræðingur skrifar um 3. orkumarkaðslagabálk ESB

                                                                  

                                                                      Laxárvirkjun

Fundur Heimssýnar o.fl. 10.09.2018:

Þann 10. september 2018 tjáðu 5 Alþingismenn skoðun sína á Þriðja orkumarkaðslagabálki ESB á fundi Heimssýnar á Háskólatorgi Háskóla Íslands. Upphaflega átti að taka málið til afgreiðslu Alþingis vorið 2018, og nú er búizt við þingsályktun frá utanríkisráðherra um að heimila innleiðingu þessa orkubálks í EES-samninginn og þar með í lög landsins haustið 2018, eða ársbyrjun 2019, þótt ekkert sé víst í þeim efnum. Framsögumenn úr hópi þingmanna á þessum fundi virðast ekki hafa notað sumartímann til að kafa til botns í þessu orkumarkaðsmáli, og er þeim vorkunn, því að gögn ESB um Þriðja orkumarkaðslagabálkinn eru bæði langdregin og tyrfin. Af þessu leiðir, að misskilningur getur hæglega skapazt við lesturinn, og einmitt þess vegna er nauðsynlegt að hafa varann á sér og rannsaka betur atriði, þar sem óvissa virðist vera um túlkun, en þeir staðir eru allmargir í Þriðja orkumarkaðslagabálkinum. Þegar þingmenn að lokum móta afstöðu sína í þessum efnum, er þeim hollt að hafa í huga, að ýmislegt er á huldu um framkvæmd laganna. Hafa verður ríkulega í huga, að hvað Ísland varðar er það að lokum EFTA-dómstóllinn, sem sker úr deilumálum, og Evrópuréttur er ríkjandi í lagaumhverfi þessa dómstóls. Þar sem fordæmi eru fyrir hendi frá ESB-dómstólinum, sem ranglega er nefndur Evrópu-dómstóll, fylgir EFTA-dómstóllinn honum.

Nú skal greina frá því, að hjá einum þingmannanna komu óvænt fram hugmyndir hans eða annarra í þingflokki hans um að gera þrjá fyrirvara við samþykkt Þriðja orkumarkaðslagabálksins á Alþingi. Skal hér eindregið vara við því að halda, að í slíkum fyrirvörum sé nokkurt einasta hald, enda fela slíkir fyrirvarar Alþingis ekki í sér nokkra lagalega skuldbindingu fyrir ESB/ACER, Landsreglarann eða aðra á þeim vængnum. Um þetta eru fordæmi frá Noregi, eins og nú skal greina:

Fyrirvarar Noregs:

Djúpstæður ágreiningur var í norska Verkamannaflokkinum haustið 2017 og veturinn 2018 um afstöðuna til Þriðja orkumarkaðaslagabálksins. Grasrót flokksins, verkalýðsfélögin um endilangan Noreg, var algerlega andvíg samþykkt Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB og beitti í málflutningi sínum sams konar röksemdafærslu og grasrót Sjálfstæðisflokksins gerir nú, m.a., að samþykktin muni leiða til hærra raforkuverðs og þar af leiðandi versnandi samkeppnisstöðu atvinnuveganna. Einnig var lýst yfir algerri andstöðu við þá hugmyndafræði, sem leidd er til öndvegis með markaðsvæðingu rafmagnsins í anda ESB, að rafmagnið sé vara, sem fara eigi til hæstbjóðanda. Andspænis þessu er stillt viðteknum viðhorfum í Noregi og á Íslandi, að rafmagnið sé afurð náttúruauðlinda, sem ekki verði aðgreind frá náttúruauðlindinni sjálfri og hljóti þess vegna að lúta auðlindastjórnun, eins og t.d. Íslendingar beita nú um stundir með samspili vatnsaflsvirkjana og jarðgufuvirkjana til hámörkunar þjóðarhags.

Skilyrði hluta norsku stjórnarandstöðunnar í marz 2018 fyrir stuðningi á Stórþinginu við frumvarp norsku ríkisstjórnarinnar um innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn og norska löggjöf voru 8 talsins og komu flest frá Verkamannaflokkinum. Eitt þeirra var, að eignarhald og rekstraryfirráð ríkisfyrirtækisins Statnetts (norska Landsnets) á núverandi sæstrengjum til útlanda héldust óhögguð, þótt Noregur gengi í Orkusamband ESB, og að hið sama mundi gilda um nýja strengi, sem teknir verða í rekstur í framtíðinni, t.d. NorthConnect, sem tengja á saman skozka og norska raforkukerfið. Það er hæpið, að ESB geti fallizt á þetta varðandi nýja strengi, því að slíkt fæli í sér, að norska ríkið væri með samkeppnishamlandi aðgerðir á raforkumarkaði, sem er eitur í beinum ESB, enda eiga allir að standa jafnt að vígi í samkeppninni um að flytja „vöruna“ rafmagn á milli landa.

Stórþingið samþykkti þessa 8 fyrirvara við téðan orkubálk, en festi hann ekki í lög. Þótt fyrirvararnir hefðu verið festir í norsk lög, hefðu þeir ekki skuldbundið ESB/ACER á nokkurn hátt. Í dagblaðinu, Nationen, var þann 2. júní 2018 eftirfarandi haft eftir utanríkisráðherranum, Ine Eriksen Söreide:

Bréfið [til ESB með fyrirvörum Stórþingsins-innsk. BJo] ber að skoða sem yfirlýsingu frá Noregi. Það gerir grein fyrir forsendum þess, að Stórþingið gaf samþykki sitt til að tengja Noreg við Þriðja orkumarkaðslagabálkinn. Það er ekki lagalega bindandi, en það lýsir skoðun annars aðilans.“

Sigbjörn Gjelsvik, Stórþingsmaður Miðflokksins, gagnrýndi þessa aðferð ríkisstjórnarinnar við að koma fyrirvörum þingsins á framfæri, enda hefði utanríkisráðherrann neitað að svara því, hvort einhver viðbrögð hefðu borizt frá ESB. Hann benti á, að önnur vinnubrögð hefðu verið viðhöfð við innleiðingu Evrópugerðarinnar um bankaeftirlitið. Þá hefðu báðir aðilar komið sér saman um sameiginlega yfirlýsingu. Það væri meira hald í slíku. Gjelsvik lagði áherzlu á, að ramminn um orkustefnu ESB væri breytingum undirorpinn. ESB ynni nú að s.k. Vetrarpakka, sem á að verða stefnumótandi eftir 2020.

Gjelsvik er gagnrýninn á meðhöndlun hinnar ESB-sinnuðu ríkisstjórnar Noregs á orkumálunum gagnvart ESB:

Þetta er mjög þunnt, og það fellur að ákveðnu mynztri. Þegar Noregi fyrr í ár var boðið á ESB-fund um framtíðarþróun regluverks Orkusambandsins, tók Terje Söviknes [iðnaðarráðherra-innsk. BJo] þann kostinn að sitja heima. [Hvað gerði iðnaðarráðherra Íslands, Þórdís Kolbrún Reykfjörð ?-innsk. BJo]. Þetta er léleg frammistaða hjá ríkisstjórninni og sýnir, hvernig EES-samningurinn virkar. Annar aðilinn sér um samþykktirnar, og hinn aðililinn afritar þær. Þetta ætti að opna augu þeirra, sem ímynda sér eitthvað annað, gagnvart því, að Noregur getur ekki stjórnað framtíðar þróun í ESB. Innan ESB er nú rætt að veita ACER meiri völd, og það er ósennilegt, að við munum hafa fullt vald á orkustefnumótun í framtíðinni.“

Á opnum fundi Heimssýnar o.fl. 10.09.2018 setti Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, fram eftirfarandi hugmyndir um skilyrði þess að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara um samþykki Alþingis á gjörningi Sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 5. maí 2017, þegar hún illu heilli án nokkurra fyrirvara samþykkti einróma að gera téðan orkubálk að hluta EES-samningsins:

  1. Sæstrengstenging við útlönd má ekki hafa áhrif á raforkuverð á Íslandi.

  2. Dómsvald í ágreiningsefnum, er varða téðan orkubálk, skal vera á hendi Íslendinga.

  3. Ákvörðun um sæstreng skal verða í höndum Alþingis.

Varðar a: íslenzk yfirvöld hvorki geta né mega stjórna raforkuverðinu hér innanlands. Slíkt væri brot á Öðrum orkumarkaðslagabálkinum og alger þversögn undir þeim þriðja, þar sem mælt er skýrt fyrir um frjálsa verðmyndun á raforku.

Varðar b: það er algerlega óhugsandi samkvæmt Þriðja orkumarkaðslagabálkinum, að dómsvaldið vegna gjörða Landsreglarans eða ákvarðana ESB/ACER verði hjá innlendum dómstólum. Úrskurðarvald verður undantekningarlaust hjá Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, og dómsvaldið verður hjá EFTA-dómstólinum.

Varðar c: það verður hlutverk reglusetningararms Orkustofnunar ESB, ACER, á Íslandi, sem nefndur hefur verið Landsreglarinn, að semja tæknilega og viðskiptalega skilmála fyrir allar millilandatengingar rafmagns. Ef umsókn frá fjárfesti uppfyllir þessa skilmála, verður leyfisveitandanum, Orkustofnun, ekki stætt á að hafna umsókninni. Geri hún það samt, mun umsækjandinn að öllum líkindum kæra úrskurðinn til ESA, og ágreiningurinn hafnar að lokum fyrir EFTA-dómstólinum, ef ekki nást sættir. Þetta ferli er með öðrum orðum alfarið á hendi framkvæmdavaldsins, og það er stjórnskipulega rangt, að Alþingi blandi sér í þetta mál. Í Noregi mundi það t.d. aldrei gerast, að Stórþingið færi að grípa fram fyrir hendur framkvæmdavaldsins í leyfisveitingamáli („konsesjonsbehandling“). Slík framganga mun án vafa sæta kvörtun og þrýstingi að hálfu Landsreglara, ACER og framkvæmdastjórnar ESB, þar sem Alþingi hefur með banni þar með lagt stein í götu Kerfisþróunaráætlunar ESB, sem þingið í raun undirgekkst að styðja með því að samþykkja Þriðja orkumarkaðslagabálkinn. Bann Alþingis mundi án nokkurs vafa reyna mjög á samstarfið innan EES og jafnvel verða metið til ígildis brots á þeim samningi.

Posted in EES, Orka | Comments Off on Fyrirvarar við þriðja orkupakka ESB?

Boðvald yfir engu, er það ekkert?

Elías Elíasson, sérfræðinur í orkumálum, skrifar um þriðja orkupakka ESB.

                                                                     Fljótsdalsstöð

Vald er margs konar. Í stjórnskipun Íslands er valdinu skipt í löggjafarvald, framkvæmdavald og dómsvald, en þetta er það vald sem lögfræðingar og ráðuneyti tala um, þegar þau segja að samþykkja megi orkupakkann vegna þess, að meðan sæstrengur komi ekki, þá hafi það vald sem ACER hefur yfir athöfnum fyrirtækja hér á landi enga virkni. Þetta finnst fólki skrítin rök. Enginn getur fullyrt í dag, að sæstrengur komi ekki og á þá að fara að samþykkja lög sem verða ólög um leið og strengurinn sá er tengdur en breyta engu þangað til?

Með innleiðingu þriðja orkupakkans verður breyting á stjórnskipun Íslands og Alþingi þarf að samþykkja lög þess efnis. Orkustofnun, sem nú lýtur ráðherra og er aðalráðgjafi hans í orkumálum þarf að koma sér upp nýrri deild sem verður landsreglari, sem skal vera óháður stjórnvöldum og hafa úr nægum mannskap að moða til að skrifast á við ACER, skrifa skýrslur fyrir þá stofnun og senda mann reglulega þangað á fundi, auk annarra starfa svo sem að samþykkja og/eða setja reglugerðir. Ein af skyldum landsreglarans verður að knýja á um tengingu við önnur lönd Evrópu, sæstreng.

Landsreglarinn mun þurfa að standa skil á verkum sínum gagnvart ACER og mun fá þaðan tillögur og ráð rökstudd með tilvísunum í lög ESB. Fari hann ekki eftir þessu upplýsir ACER framkvæmdastjórn bandalagsins þar um og hún tekur ákvörðun um hvort fylgt skuli eftir með formlegri hætti gegnum ESA. Vald ACER yfir landsreglaranum verður því ekki formlegt vald, heldur sterkt áhrifavald á snið við íslensk stjórnvöld með bakhjarl í lögformlegu valdi framkvæmdastjórnar ESB. Þetta finnst hinum venjulega Íslendingi ekki í lagi, sérstaklega vegna þess, að landsreglarinn mun í raun stjórna raforkuvinnslu og þar með vinnslu úr orkuauðlindum landsmanna sem fólki finnst eiga að vera þjóðareign eins og auðlindir hafsins.

Allt þjónar þeim eina tilgangi að séð verður, að hér verði kominn „frjáls“ markaður með sama fyrirkomulagi og í Evrópu og lúti sömu reglum þegar sæstrengur tengist. Í formála að tilskipun ESB, sem við þurfum að lögleiða er í tölulið 6 að finna lýsingu í tveim setningum á því hvað slíkur markaður gerir, einskonar gróf verklýsing fyrir hönnun raforkumarkaða. Þar segir í óformlegri þýðingu EES nefndarinnar:

Vel starfhæfur innri raforkumarkaður skal veita framleiðendum viðeigandi hvatningu til fjárfestingar í nýrri orkuframleiðslu, þ.m.t. rafmagni frá endurnýjanlegum orkugjöfum, með sérstaka áherslu á einangruðustu löndin og svæðin á orkumarkaði Bandalagsins. Vel starfhæfur markaður skal einnig tryggja neytendum nægilegar ráðstafanir til að stuðla að skilvirkari orkunotkun, og forsenda þess er örugg orkuafhending.“

Í fyrri setningunni er verið að tala um, að markaðurinn myndi hæfilega hvata fyrir fjárfesta til að reisa nýjar aflstöðvar, en sérstaða hins íslenska orkukerfis er slík, að markaðurinn getur ekki tryggt þessa hvata.

Í síðari setningunni er fjallað um að spara eldsneyti sem við notum ekki, en takið eftir lokaorðum setningarinnar „forsenda þess er örugg orkuafhending“. Til að geta veitt þá tryggingu sem hér er talað um verðum við að taka upp stýringu á vinnslu úr orkuauðlindunum. Sem stendur annast Landsvirkjun þessa stýringu fyrir sinn og þar með stærsta hluta vatnsorkukerfisins, en þegar raforkumarkaðurinn er kominn undir hina „frjálsu“ stjórn landsreglarans ræður hann þegar rekst á við auðlindastýringu Landsvirkjunar. Það er reyndar líklegt, að landsreglarinn fylgi ráðum flestra markaðssérfræðinga sem tjáð sig hafa um raforkumarkað hér, skipti Landsvirkjun upp í smærri eindir og sundri þannig auðlindastýringunni. Þessi stýring verður því alfarið að vera í forsjá íslenskra stjórnvalda, ná til alls landsins og lög þar um verða að taka gildi áður en orkupakkinn er innleiddur.

EES samningurinn sem notaður er til að þvinga þessum orkupakka inn í löggjöf okkar var góður samningur og þrátt fyrir alla þá dellu sem fulltrúar okkar í sameiginlegu EES nefndinni hafa misst fram hjá sér og við innleitt er EES samstarfið okkur hagstætt enn. En af öllu því sem flotið hefur þessa leið með ýmsum góðum nýmælum þá er þriðju orkupakkinn það arfavitlausasta til að innfæra í okkar aðstæður. Annar orkupakkinn var slæmur og reyndar mikil mistök, en það bætir þar úr skák, að við höfum aldrei þurft að hlíta sumu því sem þar er kveðið á um, meðal annars því að setja hér upp „frjálsan“ raforkumarkað sem virkar ekki.

Venjulegt fólk telur, að of mikið vald yfir auðlindunum sé fært til ACER með orkupakkanum og hvort þar sé um formlegt vald að ræða eða sterkt áhrifavald sé aukaatriði. Aðalatriðið sé að landsreglarinn, sem er armur ACER hér á landi hafi boðvald yfir sem minnstu og alls ekki auðlindum okkar, en hann má skrifast á við ACER. Við stöndum þess vegna frammi fyrir því, að koma á kerfi til að stýra vinnslu úr auðlindunum og reglur þess verða að standa framar reglum landsreglarans. Ella kann þetta mál að auka svo á andstyggð venjulegs fólks á EES samningnum, að honum verði hætt.

Posted in Orka | Comments Off on Boðvald yfir engu, er það ekkert?

Regluverk EES gerir íslensk fyrirtæki ósamkeppnishæf

Lög og reglur, sem fyrirtæki hérlendis starfa samkvæmt, eru farinskaða samkeppnishæfni þeirra á alþjóðamörkuðum. Regluverkið er orðið risavaxið og er að verulegu leyti EES-tilskipanir. Ekki aðeins þróuð fyrirtæki sem starfa á alþjóðamarkaði eru hömluð af regluverkinu heldur hefur uppbygging gjaldeyrisaflandi fyrirtækja almennt (annarra en ferðageirans), s.s. iðnaðarfyrirtækja og þjónustufyrirtækja, verið hæg síðustu ár og örlað á samdrætti og landflóta. Regluverkið gerir einnig stofnun og uppbyggingu nýrra og lítilla fyrirtækja, nýsköpunarfyrirtækja eða sprotafyrirtækja, erfiða og hægir á endurnýjun atvinnulífsins.

Viðskiptaráð gerir hið opinbera regluverk að umfjöllunarefni á heimsíðu sinni. Þar kemur fram hjá stjórnendum íslenskra fyrirtækja:

– Íslendingar eru mjög lítil þjóð. Regluverkið á Íslandi risavaxið-

-Regluverkið er oft mjög þungt. Mótvægi við óhagræði á Íslandi (fjarlægðir o.fl.), og gegn þrýstingi um að flytja starfsemina til annarra landa, væri hægt að veita með því að minnka álögur og kröfur með breytingum á lögum og regluverki-

Regluverkið og utanumhaldið um það er í lamasessi –Evrópureglur eru teknar óritskoðaðar og innleiddar á Íslandi sem veldur því að iðnaðurinn getur lent í vonlausri samkeppnisaðstöðu. Evrópuregluverkið hefur gert öflug fyrirtæki ósamkeppnishæf á alþjóðamörkuðum utan ESB-

EES-tilskipanirnar eru almennt orðnar mjög íþyngjandi fyrir íslenskt atvinnulíf eins og kemur fram víða á þesari heimasíðu. Um helmingur af reglugerðum sem stjórnarráðið hefur gefið út upp á síðkastið eru EES-tilskipanir. Nýlega var árlegur kostnaður beinn og óbeinn áætlaður um 165 milljarðar króna

Hér á eftir eru nokkur dæmi um umsagnir fagaðila um EES-regluverkið:

Fjármálastarfsemin

-Sífellt er verið að leggja nýjar kvaðir á fjármálafyrirtæki hvað varðar upplýsingagjöf og regluverk: Ný persónuverndarlög, PSD2-tilskipun um greiðsluþjónustu, MiFID II tilskipun um markaði fyrir fjármálagerninga og alþjóðlegu IFRS 9 reikningsskilastaðlana-

-Það er auk þess fokdýrt að uppfylla kröfur sem upprunnar eru í ESB-regluverki sem samið er með fyrirtæki og markað af allt annarri stærðargráðu í huga-

Starfsleyfi og uppbygging

-Afstaða sambandsins er sú að alls ekki sé til bóta að búa til svo viðamikla reglugerð þar sem blandað er saman lítt skyldum efnisreglum og leitast þurfi við að halda reglum um starfsleyfisútgáfu eins einföldum og aðgengilegum og frekast er kostur-

-gengið allt of langt gangvart smærri atvinnurekstri-

Lög um mat á umhverfisáhrifum

-Samtök atvinnulífsins og Samband íslenskra sveitarfélaga eru því andvíg frumvarpi umhverfis- og auðlindaráðuneytisins í heild-

Dýpkun hafna

-túlka varp dýpkunarefnis í hafið sem námuiðnað og sækja skuli um dýpkunarverk hversu smá sem þau eru undir formerkjum þess að hér geti verið um matsskylda framkvæmd að ræða-

Persónuverndarlög

-Verkefnið er mjög stórt og dýrt- löggjöfin er afar umfangsmikil og mun hafa gríðarlega mikil áhrif á opinbera aðila sem og einkaaðila.-Löggjöfin kallar á mikinn kostnað- brot geta varðað háum sektum-

-samrýmist illa kröfum réttarríkisins um lagasmíð og í raun er verið að gera flókið og margslungið réttarsvið enn flóknara og óskýrara en ella-

Staðhæfingarnar hér að ofan sýna ábyrgir aðilar hafa áhyggjur af slæmum áhrifum af stjónvaldsafskiptum ESB á starfsemi fyrirtækja hérlendis. EES-regluverkið er farið að standa í vegi fyrir starfi íslenskra fyrirtækja á alþjóðamörkuðum.

Posted in EES | Comments Off on Regluverk EES gerir íslensk fyrirtæki ósamkeppnishæf

EES-kostnaðurinn kominn í flugmiðaverðið

Alþingi setti lög um losun góðurhúsaloftegunda árið 2007 enda komin EES-tilskipun (2003/87) þarum. Lögin skylda íslensk fyrirtæki, með útblástur frá brennslu, til að afla sér losunarheimilda fyrir koltvísýring að viðurlögðum háum sektum. Þáverandi íslensk stjórnvöld komu síðan á stjórn ESB yfir losunina með því að samþykkja að íslenskur atvinnurekstur sé undir kerfi ESB um losun, ETS, frá árinu 2008. Flugið var svo sett í kerfið með EES-tilskipun 2008/101. ETS hefur sýnt sig að vera gallað og svindlvænt og árangurinn af því vafasamur. Mikið fé fer úr landi gegnum kerfið sem gæti nýst til uppgræðslu hér innanlands og þar með framleiðslu lífefnis úr loftkoltvísýringnum og verðmætasköpunar hérlendis ef losunarkerfið væri íslenskt.

Íslensk iðjuver glata hluta af sinni samkeppnishæfni vegna kostnaðar við losunarheimildakaup. Þau misssa þess vegna smám saman markaðshlutdeildd til fyrirtækja í öðrum löndum þar sem ekki er þörf á að kaupa losunarheimildir. Samkeppnislönd Íslands í iðnaði eru almennt ekki komin undir kvaðir um losunarkvótakaup. Stærri iðjuverum sem þurfa að kaupa losunaheimildir fækkar stöðugt í ESB, þau flytjast burt.

Reglufen á EES um flug hefur dýpkað með hverju ári. Kostnaðurinn á jörðinni, þ.á.m. við reglubyrði og eftirlit, er orðinn mjög hár og ekki bætir úr skák þegar olíuverð hækkar eða samkeppnin eykst og flugfargjöld samkeppnisaðilanna lækka. Nýr og vaxandi kostnaður er líka farinn að leggjast á flugfélögin: Kaup á koltvísýringslosunarheimildum frá ESB kerfinu. Kaup losunarheimilda fyrir flug eru yfirleitt ekki skylduð á heimsvísu, það er aðallega flug í ESB sem þarf að borga. Þar sem vöxtur er í flugi, eins og á Íslandi, legst ETS-kostnaðurinn þyngra á flugfélögin. Braskið með losunarheimildirnar á ETS-markaðnum hefur valdið háu verði á heimildunum um þessar mundir (Mbl 30.8.2018).

Tilgangurinn með ETS var að minnka losun gróðurhúsalofttegunda. Árangurinn þar er óljós en virðist vera hverfandi lítill. Sumir telja að afleiðingin sé þveröfug við ætlunina: Þeir sem hafa fjármagn geta mengað meira!

Reynslan af ETS hefur líka sýnt að kerfið hefur verið notað til að svíkja út fé. Svindlið er útbreitt og hefur málarekstur verið um háar fjárhæðir í svindlmálum.

Kostnaðartölur íslensku flugfélaganna við að þjóna ESB- losunarkerfinu hafa ekki verið birtar opinberlega en það eru vaxandi fúlgur sem sogast út úr flugfélögunum og til ESB. Íslendingar geta hvorki farið með lestum eða bílum til útlanda en þurfa að borga hærra flugmiðaverð til að komast þangað vegna EES-samningsins.

Posted in EES | Comments Off on EES-kostnaðurinn kominn í flugmiðaverðið

Norska ríkisstjórnin rekur áróður á Íslandi

Stortinget

Vinir okkar í Noregi, Nei til EU, sem tvisvar hafa forðað Norðmönnum frá ESB, voru búnir að vara okkur við að norska ríkisstjórnin gæti reynt að fá þá íslensku til að samþykkja 3. orkutilskipanapakka ESB. Það reyndist rétt: Utanríkisráðherra Noregs mætti hér í áróðursferð með bæði Evrópusambandsdauninn og Rússagrýluna með sér. (Mbl 17.8.2018)

Aðalerindi norska ráðherrans var að fá ríkisstjórn og Alþingi til að samþykkja 3. orkutilskipanapakka ESB. Auk þess að efla hatursáróður gegn Rússum (sem ekkert hafa gert Norðmönnum eða Íslendingum). Væntanlega þurfti ekki að efla ESB-dauninn í ráðuneytunum, þau hafa verið samdauna ESB síðan þau misstu völd þangað fyrir aldarfjórðungi. En alþingismenn þurftu áróður. Norski ráðherrann veifaði sömu blekkingum og landsölumenn hér heima: „— aðgengi að innri markaðnum gríðarlega mikilvægt—“ (helstu útflutningsvörur Íslands hafa verið á innri markaðnum síðan 1973 og breytir EES litlu þarum auk þess sem WTO leyfir núorðið ekki mikla tolla þegar Ísland og Noregur ganga úr EES). Ráðherrann sagði að í umræðunni í Noregi hafi verið “—margar mýtur um málið—” (þetta þýðir á íslensku að hafi veri margar sögusagnir um málið). Þeir sem fylgdust með gátu staðfest að fölskustu sögusagnirnar voru aðallega frá Evrópusambandssinnum í Noregi.

Norska ríkisstjórnin er hrædd um að ESB fari í baklás ef Ísland hafnar orkutilskipanapakkanum. Það var hræðsluáróður norsku stjórnarinar sem barði tilskipunina í gegnum Stórþingið í trássi við þjóðarvilja Norðmanna. Tilskipanapakkinn öðlast ekki gildi nema Ísland sé með. En Noregur getur auðveldlega gert samning við ESB um orkuflutnig þangað. ESB girnist „umhverfisvæna“ orku Noregs.  Ákvarðanir Alþingis skipta þar ekki máli.

Nú er það Alþingi og ekki hið norska Storting sem mun sýna hvort svigrúmið í EES-samningnum er fyrir hendi og hvort til eru stjórnmálamenn sem hafa kjark til að nýta það. Í þessari stöðu varar Nei til EU mjög ákveðið við því að norsk stjórnvöld setji á einhvern máta einhvers konar stjórnmálalegan þrýsting á okkar íslensku bræðraþjóð og Alþingi. Hvorki norska né íslenska þjóðin munu líða það“. https://www.frjalstland.is/2018/03/26/akvardanir-althingis-munu-hafa-ahrif-i-noregi/                

En norski ráðherran gat ekki leynt aðaláhyggjuefninu sem er að Evrópusambandið er að liðast í sundur. Evrópusambandsdaunninn í norsku ráðuneytunum er ekki skárri en í þeim íslensku. En mBREXIT geta bæði Noregur og Ísland losnað úr heljartaki EES.

Posted in EES, Orka | Comments Off on Norska ríkisstjórnin rekur áróður á Íslandi

Gagnslaus fundur um orkumál og EES-samninginn

Fundurinn var haldinn í HR í gær, ræðumenn voru embættismenn frá ESB og Íslandi og lögfræðingar frá opinberum og hálfopinberum aðilum á Íslandi og Noregi. Enginn reyndur fagmaður í tæknimálum eða starfrækslu orkuvera eða orkukerfa hérlendis var á mælendaskrá. Ekki heldur neinn sem þekkir feril ESB í orkukerfum þarlendis eða hefur gagnrýnt valdahrifstilraunir ESB yfir íslenskum orkumálum. Lítið sem varðar hætturnar, vandamálin eða reynsluna af stjórn ESB á orkumálum Íslands eða annarra var reifað. Svör við ákveðnum mikilvægum spurningum fengust ekki þegar eftir var leitað.

Forstöðumaður ACER, orkuskrifstofu ESB, sagði frá þeim umfangsmiklu verkefnum og völdum sem hún hefur yfir orkumálum ESB landa. Stofnunin hefur stjórnsýslu um mikinn fjölda stórra og smárra málefna sem varða orkuflutningskerfið og tengingu þess við orkuver og notendur.

Helsta ástæðan fyrir stofnun ACER var sögð vera eftirlit með flutningi orku milli aðildarlandanna. ACER á því lítið erindi til Íslands. En hún hefur líka fengið umsjón með að löndin fari eftir ESB-reglum á sínum heimamarkaði. Forstöðumaðurinn sagði að ábati af ESB-reglum og starfi ACER fyrir orkunotendur í ESB væri um 1 milljarður evra á ári. Aðspurður af hverju orkuverð í sumum löndum eins og í Svíþjóð hefði hækkað sagði hann að árangur væri misjafn í aðildarlöndum. Hann var spurður hvort rétt væri að meginverkefni ACER væri að aðstoða eftirlitsstofnanir aðildarlandanna við að koma tilskipunum ESB í framkvæmd, svaraði hann því játandi og sagði hann að hlýðni við tilskipanirnar væri grundvallaratriði. https://www.frjalstland.is/2018/03/04/yfirstjorn-orkukerfisins-flutt-til-esb/

Lektor í lögum frá HR sagði frá lagalegri hlið tilskipunarinnar um yfirtöku ESB á stjórnsýslu um orkukerfið. Hún lýsti því hvernig íslenska eftirlitsstofnunin (“Raforkumarkaðseftirlit Orkustofnunar“) verður gert „sjálfstætt“ sem þýðir á máli ESB að það verður ekki undir stjórn hins lýðræðislega uppbyggða stjórnkerfis Íslands heldur óháð íslenskum stjórnvöldum en lýtur valdsboðum ESB.

Spurt var í sal hvort þetta væri lögbrot en ekki fengust svör. Einnig var spurt hvenær og hverjir hefðu fengið ESB völd yfir íslenskum orkumálum, sem voru ekki í EES-samningnum upprunalega, en ekki fengust svör (formlega varð valdataka ESB í orkumálum Íslands með raforkulögunm 2003, svo virðist sem þingmenn hafi ekki áttað sig á að verið var að rétta ESB litlafingur)

Prófessor við lagadeild háskólans i Osló sagði frá miklum væringum vegna tilskipunarinnar í Noregi og eru þær ekki útkljáðar enn þó Stortinget hafi samþykkt þær með naumum meirihluta.

Lögfræðingur Samorku fjallaði um hvernig tilskipanirnar horfa við þeim samtökum og virðast viðhorfin þar vera enn í mótun.

Orkumálastjóri fór yfir hlutverk Orkustofnunar og kom inn á hlutverk „Raforkumarkaðseftirlitsins“ sem verður ekki undir stjórn íslenskra stjórnvalda en tekur fyrirmæli frá ACER/ESB.

Spurt var úr sal hvenær yrði hægt að aflétta sölukerfi ESB um „upprunavottorð“ á umhverfisvænni orku sem hefur gert íslenskum fyrirtækjum erfitt fyrir að sanna að þau noti vatns- og hveraorku. Ákveðið svar fékkst ekki en málið verður skoðað.

Eftirfaranadi mikilvægum álitamálum var ekki gerð viðhlítandi skil á fundinum.

Lögbrot: Ekki var hægt að fá svör um hvort afsal valds íslenskrar stjórnsýslustofnunar og stjórnarráðsins yfir einu mikilvægasta málasviði landsins til ESB/ACER væri brot á landslögum.

ESA. Hið nýja verkefni ESA, eftirlitsstofnunar EES, var ekki krufið. Tilskipanir eða valdsboð frá ESB um orkumálin verða nú send frá ACER en í gegnum ljósrituarvélarnar hjá ESA sem fær þar með völd í málunum. Þetta er brot á EES samningnum þar sem sameiginlega EES-nefndin átti að stimpla valdsboðin. Ráðherra gæti hafa gengist inn á þetta og er spurningin hvort (stjórnskipulegur) fyrirvari hafi verið gerður, Alþingi á að hafa úrslitavald í slíku máli.

Dómsmál. Ekki var krufið hvernig dómsmál yrðu til lykta leidd. Afsal dómsvalds til ESB er stjórnarskrárbrot

Samkeppnisvæðingin. Ekki kom fram hvernig á að koma við samkeppnisvæðingu ESB á markaðnum hér sem er of lítill og frábrugðin ESB-löndum til að hægt sé að nota regluverk ESB.

Sæstrengur Ekki var heldur reifað markmið ACER um sæstreng til að flytja raforku úr landi en hann á að vera tilbúinn 2027 samkvæmt verkefnalista ACER.

Árangur ACER í ESB-löndum. Samkeppnisvæðingin sýnir mismunandi árangur og hefur sumstaðar leitt til aukins kostnaðar og hækkunar orkuverðs. Ástæður þess voru ekki reifaðar nægilega.

Höfnun Alþingis. Hvað gerir ESB ef Alþingi hafnar tilskipuninni? Ákveðin vinnuferli eru til í slíku tilviki. Erindrekar ESB segja afleiðingarnar verða alvarlegar en málið var ekki reifað á fundinum.

Fundurinn var greinilega ekki til að upplýsa heldur frekar til þess að gera ásælni ESB í orkumál Íslands sakleysislega eða að réttlæta hana. Fundinn sóttu ráðherrar og fleiri stjórnmálamenn og forstöðumenn stofnana og fyrirtækja. Í þeim heyrðist lítið og fyrirspurnatími var mjög stuttur.

Blekkingartilraunir ráðuneytanna um tilskipanirnar hafa ekki verið dregnar til baka. https://www.frjalstland.is/2018/04/26/frjalst-land-motmaelir-villandi-stadhaefingum-utanrikis-og-atvinnuvegaraduneyta-um-tilraunir-esb-til-ad-taka-til-sin-vold-yfir-islenskum-orkumalum/

Posted in EES, Orka | Comments Off on Gagnslaus fundur um orkumál og EES-samninginn

Samkeppnisvæðing sænska orkukerfisins hefur skaðað Svíþjóð

                                                       Tännforsen

Sænska raforkukerfið gekk vel og var hagkvæmt og öruggt þegar Svíar gengu í ESB. Nú eftir meir en tveggja áratuga flóð af ESB-tilskipunum hefur orkukerfinu hrakað mikið. Regluverk ESB var sagt mundu auka samkeppni og afköst, gera rafmagnið ódýrara og auka valkosti kaupenda. Vissulega hafa valkostir neytenda aukist en afleiðingarnar eru að öðru leiti hörmulegar. Orkuverð til notenda hefur hækkað mikið á sama tíma og eigendur hinna einkavæddu orkufyrirtækja taka út milljarðaágóða úr fyrirtækjunum.

Viðhald sænska raforkukerfisins hefur versnað og slysum fjölgað. Atvinnuöryggið minnkað og álag á starfsfólk vaxið. Ríkisvaldið sá áður um að kerfið væri öruggt í óhappatilfellum. En orkufyrirtækin voru klofin í sundur og samkeppnisumhverfið gerir óhagkvæmt að halda í afhendingaröryggið. Þetta er ekki einstakt: Samskonar ESB-tilskipanir hafa farið illa með járnbrautirnar, póstinn, símann, gasfyrirtækin og flugið í Svíþjóð. http://nejtilleu.se/2018/06/avreglerade-elmarknaden-ett-misslyckande/

Athyglisvert er að stóra sænska orkufyrirtækið Vattenfall, sem ætíð hefur verið í eigu sænska ríkisins, hafa Svíar ekki einkavætt þrátt fyrir einkavæðingartrúboðið. Enda er Vattenfall mjög gamalt í hettunni og mikilvægt sænskum þjóðarhag og í einokunar- eða fáokunaraðstöðu við að nýta auðlindir sænsku þjóðarinnar. Það á meðal annars stórar vatnsaflsvirkjanir og kjarnorkuver.

Árið 2003 hóf Alþingi afdrifarík skemmdarverk á íslenska orkukerfinu þegar það leiddi í lög tilskipun ESB (nr 96/92) um að kljúfa íslensku orkufyrirtækin í sundur í framleiðslu og sölu annarsvegar og flutning og dreifingu hinsvegar. Tilgangurinn var sagður vera að koma á samkeppni sem átti að leiða til hagræðingar og sjálfbærrar nýtingar, notendum rafmagnsins og eigendum að auðlindinni til hagsældar. Þetta eru samskonar blekkingar og viðhafðar hafa verið í Svíþjóð.

Áframhaldandi alvarleg skemmdarverk eru nú áformuð með nýrri EES-tilskipun, s.k. 3. orkupakka ESB, sem Alþingi átti að koma í landslög í vor leið en frestaðist til haustsins. Andstaða við tilskipunina er mikil í landinu enda aðstæður hér þannig að regluverk ESB getur ekki hentað á raforkumarkaðnum hérlendis.

—Auk þess að vera agnar smár í samanburðinum skortir íslenska orkumarkaðinn það umhverfi sem tryggir framleiðendum raforku á meginland Evrópu jafnstöðu (En: „level playing field“) Þetta er vegna þess, að náttúra Íslands leikur eitt stærsta hlutverkið á markaðnum hér og hún blæs á samkeppni. Náttúran tryggir ekki að jarðvarmi og vatnsorka séu á innbyrðis samkeppnishæfu verði eins og alþjóðlegir eldsneytismarkaðir gera með kol og gas. Náttúran tryggir heldur ekki, að hinir mismunandi virkjunarkostir sem hún bíður upp á séu á samkeppnisfæru verði hvor við annan eða markaðinn á sambærilegan hátt og fæst með samspili heimsmarkaða með vélar og rafbúnað við raforkumarkaði. Til að ráða bót á þeim hnökrum sem af þessu verða á íslenskum orkumarkaði þarf samráð, ekki samkeppni—“ https://www.frjalstland.is/2018/06/12/orkupakkinn-er-ohagraedi-fyrir-island/                                                                                                                                                     

Posted in EES, Orka | Comments Off on Samkeppnisvæðing sænska orkukerfisins hefur skaðað Svíþjóð

Við viljum fá landið okkar aftur

Bretar ákváðu í þjóðaratkvæðagreiðslu 23. júní 2016 að ganga úr Evrópusambandinu. Ein meginástæðan fyrir þeirri ákvörðun var að meirihluti landsmanna „vildi fá landið sitt aftur“ undan stjórn Evrópusambandsins eins og túlkendur atkvæðagreiðslunnar orðuðu það. Sams konar almenningsálit um stjórn ESB á íslenskum málefnum hefur nú verið að byggjast upp hér á þessu ári. Ástæðurnar eru aukin umræða um EES-samningin og afleiðingar hans en einnig vaxandi valdahrifs Evrópusambandsins hér í skjóli EES-samningsins.

Alþingi og ráðuneytin hafa það sem af er ári, eins og síðustu 25 ár, stimplað eina tilskipunina eftir aðra í hundraða vís frá ESB og, sem verra er, sumar mjög illa viðeigandi hérlendis og sumar mjög dýrar og íþyngjandi eða óþarfar og skaðlegar. EES-tilskipanir, sem og valdsboð frá erindrekum EES-samningsins (ESA og EFTA-dómstólnum) hafa þannig breyst í íslensk lög, reglugerðir og stjórnvaldsaðgerðir. Stjónvald mikilvægra málasviða landsins hefur nú færst undir Brussel: Yfir fjármálafyrirtækjunum, samkeppnismálefnum og fyrirtækjarekstri, umhverfismálum, verslun við útlönd, aðgerðum í utanríkismálum svo nokkur dæmi séu nefnd. Og nú í sumar bættust við lög um meðferð upplýsinga um einstaklinga. Þau höfðu það að meginmarkmiði af hálfu ESB að leggja stein í götu bandarískra upplýsingatæknifyrirtækja á markaði ESB. Við gleyptum lögin sem „framför í persónuvernd“! Þau eru torskilin og flókin langloka, 112 smáletraðar síður, að miklu leyti orðrétt tilskipun frá Brussel.

Forseti Bandaríkjanna sagði eftir samtöl við ESB-forkólfa nú í sumar að ESB væri óvinur Bandaríkjanna í verslun, ástæðan er einmitt sú að ESB -löndin hafa riðið feitu hrossi frá viðskiptum við Bandaríkin síðan í síðari heimsstyrjöld en eru nú búin að koma upp umfangsmiklu haftakerfi gegn bandarískum fyrirtækjum.

Með þessum „persónuverndarlögum ESB“ fara milljarðar króna í vaskinn hérlendis, ESB fær framkvæmdavald framhjá stjórnarráðinu yfir málaflokknum hér og dómstóll ESB fær dómsvald hérlendis. Þetta heitir fullveldisafsal.

Morgunblaðið 21. júlí 2018 gerir grein fyrir umfangsmiklum uppkaupum erlendra fjárfesta á íslensku landi. Það er í samræmi við ákvæði og heimildir EES-samningsins. Í sama blaði upplýsir Hjörleifur Guttormsson, f.v. ráðherrra, að ekki sé einungis um að ræða land á yfirborði jarðar heldur einnig auðlindir, svo sem jarðhita, undir yfirborði. Hann afhjúpar í grein sinni þau mistök sem gerð voru með EES-samningnum.

Núverandi ráðherrar hafa látið hafa eftir sér að hægt sé að stemma stigu við landakaupum með sérstökum aðgerðum „eins og t.d. Danir og Norðmenn“ gera. Greinilegt er að þeir hafa ekki skilið EES-samninginn. Það er hægt að krafsa með alskyns lögum og reglum en eftir stendur samningsákvæði EES, samþykkt af Alþingi, og yfirvofandi afskipti erindreka EES (ESA og EFTA-dómstólsins) ef Ísland hlýðir ekki.

Það er bara ein vís leið til að fá landið okkar aftur eins og Bretar: Að segja EES-samningnum upp.

Posted in EES | Comments Off on Við viljum fá landið okkar aftur

ESB ákveður utanríkisstefnu Íslands

Rússnesk stúlka í þjóðbúning

Stjórnarráðið stimplaði sex valdsboð frá Evrópusambandinu (nr. 2017/1561, 1547, 1549, 2214, 2426, 2212) í janúar sl. um refsiaðgerðir gegn Rússum vegna „ástandsins í Úkraínu“ og „innlimunar Krím“. Valdsboðin eru ákvarðanir í utanríkismálum sem sjálfstæðar þjóðir taka venjulega sjálfar. Þau eru um áframhaldandi þáttöku Íslands í refsiaðgerðunum.

Fyrstu valdsboðin frá ESB um refsiaðgerðir gegn Rússum komu í mars 2014. NATO- og ESB- ráðherrar héldu fund í byrjun apríl það ár þar sem samþykkt var að fordæma Rússa. Þar með var Rússagrýlan opinberlega endurreist. Íslensk stjórnvöld tóku þátt í refsiaðgerðunum sem varð til þess að gamalt og gróið viðskiptasamband við Rússa, eitt það mikilvægasta sem Ísland hefur átt, fór til spillis og Rússar settu viðskiptabann á móti. Afsökun íslenskra stjórnvalda var „að rjúfa ekki samstöðu vestrænna þjóða“ en eins og kunnugt er hefur sú samstaða ekki dugað þegar í harðbakka hefur slegið nema að Rússland hafi verið með. Rússar hafa aldrei gert sig líklega til hernaðar gegn Íslandi eða norrænu talandi Norðurlöndum og reyndar ekki heldur Vestur-Evrópu. Færeyjar höfnuðu aðild að refsiaðgerðunum. Líka samstarfsþjóð Íslands í EFTA, Sviss (sem er hvorki í EES, ESB né NATO).

Færeyingar hafa sýnt meiri þor og dug í utanríkisstefnu en Íslendingar. Þeir hugsa fyrst og fremst um hagsmuni landsins, en ekki pólitísk samskipti við aðrar þjóðir. Besta dæmi um þetta er viðskiptabann Vesturlanda á Rússland vegna innlimunar þess á Krímskaga og afskipta af stríðsátökunum í Austur-Úkraínu. Íslendingar kusu að fylgja meirihlutaákvörðun annarra vestræna ríkja og það þrátt fyrir meira tap hlutfallslega fyrir íslenskt þjóðarbú en fyrir nágrannalöndin. (Skinna.is)

Grunnástæða refsiaðgerða ESB og NATO var Úkraína neitaði að sækja um aðild að ESB í nóvember 2013 og var reynt að kenna Rússum um. Upplausnaröfl á Vesturlöndum, bæði á vegum ríkisstjórna, „fjárfesta“ og „samtaka“, hafa eytt fúlgum fjár í að koma Úkraínu í ESB og NATO.

Bandaríkjastjórn undir Obama hafði „fjárfest“ 5 milljarða dala í undirróðri þegar óeirðaseggir, á launum hjá „fjárfestum“ á Vesturlöndum, komu af stað götubardögum í Kænugarði í byrjun árs 2014. Þekkt spillingaöfl í ESB og Bandaríkjunum eyddu miklum en óþekktum fjárhæðum í að valda upplausn í Úkraínu. Markmiðið var og er að opna Úkraínu fyrir vestræna „fjárfesta“, eins og Grikkland og Litháen, og þrengja að Rússum. Upplausnaröflunum tókst að flæma löglega kjörna stjórn Úkraínu frá völdum og koma sínum leppum að. Þeir heyja nú borgarstyrjöld og kenna Rússum um. Að ríkisstjórn Rússlands eigi aðild að borgarastyrjöldinni hefur ekki sannast en það tæki rússneska herveldið stutta stund að leggja undir sig Úkraínu ef það væri ætlunin. „Ástandið í Úkraínu”  er að miklu leyti afleiðing afskipta ESB og NATO og spillingarafla þaðan.

Rússaveldi var stofnað í Úkraínu árið 882 og hefur Úkraína jafnan talist hluti af Rússaveldi síðan. Sterkt Rússaveldi hefur bjargð Evrópu frá stríðsþjóðum sem farið hafa um með drápum og eyðileggingu, Mongólum 1380, Frökkum 1812 og Þjóðverjum 1945.

Krímskagi er byggður Rússum að mestu og hefur verið rússneskt landsvæði í aldir. Þegar Ráðstjórnarríkin voru fallin notuðu ráðamenn í Úkraínu tækifærið og innlimuðu Krím ólöglega (1991-1995). Enginn á Vesturlöndum mótmælti. Krímbúar ákváðu síðan í þjóðaratkvæði að Krím yrði aftur rússneskt.

Ísland hefur oft farið sínar eigin leiðir í „vestrænni samvinnu“, meira að segja „rofið samstöðu vestrænna þjóða“. Rússar hafa ætíð staðið með Íslandi þegar „vestrænar þjóðir“ hafa reynt að traðka á Íslandi og þeir hafa stutt landið í baráttunni fyrir frelsi og sjálfstæði. Þegar okkar bandamenn Bretar settu hafnbann á Ísland (1952) björguðu Rússar efnahagnum og keyptu okkar afurðir. Í öll skiptin þegar átti að stöðva landhelgisútfærslurnar, m.a. á Alþjóða hafréttarráðstefnunni, stóðu okkar „bandamenn“ ekki með okkur en Rússar gerðu það. Þegar Bretar reyndu að fjárkúga Ísland (2008) buðu Rússar aðstoð.

Einfeldningslegar tilraunir Vestur-Evrópuríkja til að þvinga Rússa hafa aldrei borið árangur. Þetta viðskiptabann hefur leitt af sér að landbúnaður hefur stór aukist þar og eru Rússar nú orðninr stærstu úflytjendur grunn-fæðuvara s.s. hveitis.

Bönn á ferðir ráðamanna á fótbóltaleiki heimsmeistaramótsins í Rússlandi í júní 2018 sýna hvað sjálfbyrgingshátturinn og barnaskapurinn er stór hluti af Rússagrýlunni.

Íslensk stjórnvöld geta hafnað þátttöku í viðskiptabönnum gegn Rússum með vísan til viðsksiptahagsmuna og langtíma viðskiptasögu. Það er skortur á hagsmunagæslu stjórnvalda hér að láta Evrópusambandið segja Íslandi fyrir verkum með að framlengja viðskiptbann á land sem hefur ætíð verið vinveitt Íslandi og mikilvægt fyrir viðskipti landsins.

Posted in EES, Utanríkismál, Verslun | Comments Off on ESB ákveður utanríkisstefnu Íslands