Mesta vá mannkyns

Sjúkdómsfaraldrar hafa alltaf verið mesta vá sem steðjar að mannkyninu. Eftir að læknavísindin þróuðust hafa afleiðingarnar minnkað en faraldrar leggja samt milljónir manna í gröfina árlega. Þeir eiga oft upptök sín í þéttbýlum heitum löndum þar sem hreinlæti er ábótavant en lífríki fjölbreytt. Margir faraldrar sem hingað hafa komið hafa átt upptök sín inni í Asíu, sérstaklega Kína, þó suma megi rekja til annarra svæða og langt aftur í tímann.

Svartidauði. Miklar loftslagsbreytingar hófust á 12 öld, langvarandi kuldaskeið, Litla ísöldinn, sem varaði meir og minna fram yfir 1900 (sjá línurit Abrantes et al). Lífsskilyrði versnuðu, sjúkdómar herjuðu. Það var snemma á því tímaskeiði sem versta plága sem komið hefur til landsins kom upp. Árið 1333 voru miklir þurrkar í Kína em urðu til þess að nagdýr, sem svartadauðasýkillinn herjar á, drápust en flærnar sem lifa á blóði nagdýranna lögðust þá á menn og báru í þá sýkilinn. Plágan kom til Ítalíu 1347 en til Íslands ekki fyrr en 1402. Líklega dóu meir enn 50% landsmanna.

Flensur og Stórabóla. Og síðan kom hver plágan af annarri. „Flensurnar“ eru oft raktar til ársins 1580, faraldurinn þá byrjarði í Asíu og var kominn til Norður-Evrópu hálfu ári eftir að hann kom til Suður-Evrópu. Þegar kuldinn og örbirgðin voru einna verst kom Stórabóla, afrísk plága, til Íslands og drap líklega meir en 30% landsmanna á árunum 1707-1709.

Covid 19 kom upp inni í Kína snemma vetrar 2019. Smitið barst í menn úr leðurblökum. Veiran var komin til Íalíu um tveimur og hálfum mánuði síðar en útbreiðsluhraðinn náði hámarki um þrem mánuðum síðar í Kína. Þar hafa nú flestir náð sér, um 70 af 80 þúsundum sýktra. Dánartíðnin virðist vera á bilinu 1% – 4% að meðaltali en langhæst hjá öldruðum. Í árvissum flensum er dánartíðnin talin um 0,1% en þær leggja þó 290.000-650.000 manns árlega í valinn í heiminum (WHO). Fjöldi þekktra covid-19 smitaðra á Íslandi, miðað við höfðatölu, er með því hæsta á heimsvísu, mögulega vegna þess hve margir hafa verið skimaðir (20.3.2020). https://www.worldometers.info/coronavirus/

Hræðsluáhrifin. Á Vesturlöndum og víðar hafa aðgerðir yfirvalda gegn faraldrinum leitt af sé einhveja mestu röskun á daglegu lífi sem orðið hefur í manna minnum. Áhrifin á efnahag og líf venjulegs fólks verða líklega meiri og alvarlegri en áhrif veirunnar. Íslensk stjórnvöld og fagfólk heilbrigðismála hafa sýnt sjálfstæði og aga í sínum aðgerðum sem gefur von um að fljótt verði hægt að endurreisa samfélagið.

Kínverjar hafa nú náð árangri í að hemja covid-19 veiruna þó þeir hafi verið seinir að segja öðrum frá vánni. Í framtíðinni þurfa þjóðir heims að vinna hratt með kínverskum stjórnvöldum til að hefta útbreiðslu faraldra. Íslendingar eiga betra um vik að berjast gegn smitburði en margar aðrar þjóðir. Bæði er Ísland fámenn eyja en einnig er hér þróað og sjálfstætt heilbrigðiskerfi sem er miðað við staðhætti hérlendis.

                    Hitasveiflur á Norðurhveli síðustu 2000 árin

              (Abrantes et al, Climate of the Past. Discussions, 16.3.2017, EGU)

This entry was posted in Umhverfismál, Utanríkismál. Bookmark the permalink.