Skömmu eftir Seinni heimsstyrjöldina voru Norðurlönd fyrirmynd smáþjóða um sjálfstæði, hlutleysi, velmegun og efnahag. Þau höfði byggt upp sterk iðnaðarsamfélög og voru í fremstu röð í tækni og vísindum. Þau stóðu utan ríkjasambands stríðshrjáðra þjóða V-Evrópu úr Seinni heimsstyrjöldinni. Þau héldu á lofti hlutleysi og friðarstefnu gegn stríðsrekstri stórvelda. Nú um átta áratugum síðar hafa þau glatað fyrirmyndarhlutverkinu, sóað norrænu sjálfsmyndinni, sjálfstæðinu og hlutleysinu.
Norðurlöndin lágu ekki í rústum eins og mörg lönd Evrópu eftir Seinni heimsstyrjöldina. Þvert á móti græddu sum þeirra á stríðinu. Ísland breyttist úr fátækralendu í velmegunarland og endurheimti fullt frelsi og sjálfstæði. Svíþjóð tókst að standa utan átakanna frá byrjun og hélt áfram að lifa góðu lífi á sínum jarðefnum, málmiðnaði og skógi. Svíar áttu flest alþjóðafyrirtæki miðað við höfðatölu en eftir að ungliðarnir í Sósíaldemókrataflokknum tóku við landstjórninni síðsumars 1968 misstu þeir mörg þeirra og efnahagsleg afturför hófst.
Ísland, Noregur og Danmörk urðu aðilar að NATO í framhaldi af samstarfi við Bandamenn í heimsstyrjöldinni. Eftir yfirlýsingar Churchill um járntjald sem Rússar áttu að hafa dregið í gegnum miðja Evrópu, hófst „kalt stríð“ sem stefndi V-Evórpu og N-Ameríku gegn Ráðstjórnarríkjunum. NATO var auglýst sem „varnarbandalag“ gegn Moskvukommúnistum. Það urðu hatrömm mótmæli gegn aðildinni í Noregi, Danmörku og Íslandi, á Austurvelli urðu hreinir götubardagar 30. mars 1949. Nú, meir en sjö áratugum síðar, hefur komið í ljós að andstæðingar NATO-aðildarinnar höfðu mikið til síns máls, NATO hefur reynst hernaðarbandalag Bandaríkjanna og þeirra fylgisveina í Evrópu og hefur gert fjölda hernaðarárása hervörnum Atlantshafslanda óviðkomandi. Hættan frá Moskvukommúnistum sýndi sig að vera ímynduð og hvarf 26.12.1991.
Danmörk lenti fyrst Norðurlanda undir Evrópusambandinu en hefur haft margar undanþágur frá lögum þess. Svíþjóð og Finnland soguðust inn í Evrópusambandið 1995 í kjölfar efnahagsþrenginga en Ísland og Noregur urðu 1994 aðilar að EES sem er nokkurs konar hjálenduaðild að Evrópusambandinu. Vald Evrópusambandsins yfir Norðurlöndum varð með þessu umfangsmikið og stjórnmálalegt sjálfstæði Norðurlanda rýrnaði. Á blómatímanum um og eftir miðja 20. öld var almenn sannfæring á Norðurlöndum að þau ættu ekki samleið með Evrópubandalaginu sem var litið á sem bandalag til að endurreisa þjóðir úr rústum stríðsins.
Andstaðan við NATO-aðild á Norðurlöndum var mikil þó þrjú þeirra hafi sogast með strax í byrjun. Í Svíþjóð og Finnlandi entist hlutleysisstefnan lengst, aðild að NATO kom ekki til greina og var ekki einu sinni rædd af alvöru fyrr en nýlega. NATO var álitið stríðssamtök andstæð hlutleysi og friði. Framferði NATO-landa síðustu áratugi hefur staðfest réttmæti þessa álits. Nú 78 árum eftir lok Síðari heimsstyrjaldarinnar er bæði sjálfstæðis- og hlutleysisvilji Norðurlandamanna orðinn svipur hjá sjón. Síðustu Norðurlönd til að gefa frá sér hlutleysið, Svíþjóð og Finnland, vilja nú í NATO.
Menningarleg hnignun. Samhliða stjórnmálalegri hnignun hefur menningarleg hnignun orðið. Norðurlandaþjóðirnar hafa misst sjálfsmyndina að mörgu leyti og stjórnvöld meðvitað rifið niður þjóðmenningu og sérstöðu. Milljóna innflutningur fólks frá fjarlægum menningarsvæðum hefur aukið upplausn og innanlandsósætti. Reynt er að breyta sögunni til samræmis við rétthugsunarbábiljur. Norðmenn tóku málverk af Leif Eiríkssyni úr sýningu af því að það var sögð „nýlendustefna“ í því. Sumum stofnunum Norðurlanda hefur hrakað, dæmi er Nóbelsnefndirnar sem hafa veitt óverðugum Nóbelsverðlaun. Norðurlönd eru að verða dæmi um hvernig bábiljur og tískusveiflur valda hnignun, hrakandi velsæld, aukningu glæpa og siðmenningarlegri upplausn.
Stjórnmálaleg hnignun. Norðurlönd eru komin að miklu leyti undir stjórn Evrópusambandsins og þar með Bandaríkjanna einmitt þegar Evrópusambandið er að trosna og Bandaríkin eru að verða menningarlegri upplausn að bráð. Innganga Svíþjóðar og Finnlands í hernaðarbandalagið NATO er síðasta skrefið í stjórnmálalegri hnignun Norðurlanda.
Sammanfattning på svenska:
Nordens förfall
De nordiska länderna var en förebild om frihet, välfärd och ekonomi efter Andra världskriget. Självständighet, alliansfrihet och fredsbudskap var Nordens varumärke ute i världen. Nu åtta årtionden senare har Norden förlorat sin självständighet, självbild och stolthet och ställningen som förebild för världens många små länder som kämpar mot stormakternas utsugning och våld. Sverige och Finland kommer att bli de senaste länderna i Norden som förlorar sin neutralitet som de har hedrat en mycket lång tid och varit en beundrad fördel för deras folk.