Eyðilegging orkukerfisins tekur toll

Niðurrifsstefna íslenskra stjórnvalda og stjórn ESB á íslenskum málum heldur áfam að taka sinn toll. Alvarlegur samdráttur er í atvinnu, verðmætaskapandi störfum fækkar en fjölgar í opinberri þjónustu. Áhrif ESB í orkukerfinu eru að koma fram með þunga. Iðnaðurinn sem nýtir raforku er að huga að lokun. Fyrirtækin eru ofþyngd af of háu orkuverði og þurfa að eyða stórfé í „losunarheimildir“ sem enginn heilvita stjórnvöld í heiminum leggja á, aðeins ESB enda hrörnar grunniðnaður þar stöðugt.

Þriðjungur af gjaldeyristekjum landsins kemur vegna orufreks iðnaðar og starfsemi sem hefur byggst upp á grundvelli hans. Iðjuverin halda uppi ríkisfyrirtækinu Landsvirkjun og fleiri orkufyrirtækjum auk margs konar starfesmi sem gefur mikla atvinnu og tekjur. Álver ÍSAL skilar margmilljarða tekjum til sinna starfsmanna og viðskiptavina. Orkuverðið sem ÍSAL greiðir er svo hátt að það gefur um 40% af tekjum orkufyrirtækjanna af álverunum meðan ÍSAL framleiðir um 25% af álinu.

Óstjórn og áhrif ESB/EES hafa komið af stað niðurbroti og „samkeppnisvæðingu“, í raun græðgisvæðingu orkufyrirtækjanna og sett af stað als kyns gæluverkefni og spil með orkukaupendur. Landsvirkjun, fyrirtæki þjóðarinnar sem lengi byggði upp atvinnustarfsemi í landinu hefur, eftir að áhrif ESB tóku völdin, hækkað orkuverð upp úr öllu valdi. ÍSAL, sem var helsta ástæða þess að Landsvirkjun byggðist upp, hefur orðið illa fyrir barðinu á okrinu.

Stjórnvöld Íslands styðja ekki framleiðsluiðnað þó nærri öll samkeppnislöndin geri það. Orkuverð til orkunýtandi iðnaðar í ESB og víðar er niðurgreitt. Í helstu samkeppnislöndum Íslands fá álverin ríkisstyrk. Ekkert af þessu hafa stjórnvöld hér látið í té. Iðjuverin hafa getað staðið óstudd meðan orkuverðið var eðlilegt og kvaðirnar ekki of miklar.

Mengandi stóriðja er ein afsökun ESB og öfgafullra umhverfisflokka fyrir andstöðu við iðnað. ESB hefur í krafti EES dregið Ísland með í aðgerðir í „loftslagsmálum“. Á stefnuskránni er að útrýma „mengandi iðnaði“ þó iðjuverin á Íslandi mengi lítið. Nýtísku mengun samkvæmt fyrirskipunum ESB er „koltvísýringur“. Losun koltvísýrings hefur ekki mælanleg áhrif á loftslag, gastegundin hefur engin einkenni mengunar en er mikilvægasta sporefni loftsins.

ÍSAL er komið á fremsta hlunn með að loka einu mikilvægasta iðjuveri landsins. Stjórnvöld hér hafa ekki stutt við fyrirtækið, frekar staðið í vegi fyrir þróun þess. Og nú þegar allt er komið í óefni eftir áratuga óstjórn gerir ríkisstjórnin ekkert nema að skipa einhverjar nefndir! EES/ESB reglukviksyndið verður áfram í gildi. Stjórnvöld okkar eru svo verklítil í atvinnumálum að þau munu ekki hreinsa til í málum orkufyrirtækjanna, þau munu ekki setja þeim nýtt erindisbréf um til hvers þau eru starfrækt. Orkufyrirtækin munu því áfram leika sér í græðgisvæðingu EES og setja atvinnufyrirtæki landsins í þrot. Þar til er landið fær stjórnvöld sem eitthvað geta.

This entry was posted in EES, Orka. Bookmark the permalink.