Uppvakið landvinningaveldi

Barátta Breta við að komast út úr ESB hefur afhjúpað eðli sambandsins. Aukin samvinna aðildarlanda hefur verið yfirlýst markmið ESB á meðan það hefur unnið leynt og ljóst að miðstýringu með sýndarlýðræði („Evrópuþing“) og innlimun þjóða Evrópu í sambandið. Ólýðræðisleg stjórn (framkvæmdastjórn ESB) setur lög og reglur yfir aðildarríkin, án þess að þau hafi mælanleg áhrif, og sendir þeim tilskipanir eins og einvaldar fyrri tíma. Bretar eru fyrstir stórþjóðanna til að reka ESB-báknið af höndum sér:

Niðurtalningin

Kjarkur Breta vísar okkur veginn, þeir telja nú niður dagana til þjóðfrelsisins. Það er ekki breska þingið sem fær heiðurinn af að frelsa bresku þjóðina undan oki Evrópusambandsins. Það er baráttufólk og almannasamtök utan þingsins sem fá hann. Mest áhrif hafði UKIP sem barðist gegn ESB-aðild í tvo áratugi og fékk að lokum breska þingið til að leggja málið fyrir bresku þjóðina.

Íhaldsflokkurinn tók af skarið. Íhaldsflokkurinn kom á þjóðaratkvæðagreiðslu 23.6.2016 sem er nú að leiða til þessa að frelsi og lýðræði Bretlands er verið að endurreisa. Það var svo hið lýðræðislega kjörna breska þing og ríkisstjórn sem fengu verkefnið sem hefur reynst þrautaganga í nærri hálfan áratug. Það eru aðeins þeir allra staðföstustu sem treysta sér til að segja húsbóndanum upp en svo vel vill til að Bretar eru ein staðfastasta lýðræðisþjóð heims. Þeirra bestu mönnum datt aldrei í hug að hvika frá þjóðarviljanum.

Þjóðþingin máttlaus. Þjóðþing hafa oft reynst vanhæf til að verja hagsmuni sinna þjóða í stóru málunum, það hefur þurft að vísa þeim til þjóðanna sjálfra. Íslenska þjóðin hafnaði Icesave-fjárkúguninni, ekki Alþingi. Norðmenn höfnuðu ESB-aðild tvisvar í þjóðaratkvæðagreiðslum. En ESB er ekki lýðræðisríki, þjóðaratkvæðagreiðslur þar eru meiningarlausar. „Stjórnarskrá“ ESB var komið á þó þjóðir Frakklands (55-45%) og Hollands (62-38%) hafi hafnað henni.

Yfirþjóðlegt valdabákn. ESB vill ekki losa Breta undan valdi sambandsins í mikilvægum málum og hefur gert viðræðurnar erfiðar og langdregnar. Þeim hefur verið slitið og þær gangsettar gang eftir annan fram á síðustu stund vegna of mikils ágreinings um sömu mál. ESB krefst þess að regluverk sambandsins um umhverfismál, samkeppnislög, ríkisstuðning, vinnumarkað og fyrirtækjaskatta gildi í Bretlandi. Forustuliði ESB óar við að bresk fyrirtæki losni úr reglukviksyndi ESB og verði samkeppnishæfari.

ESB refsar Bretum. Útgönguna vill ESB gera eins ókræsilega og hægt er svo fordæmið leiði ekki til að allar hinar þjóðirnar sem vilja úr ESB komi á eftir. Staðfesta Breta er óhögguð, þeir hafa ákveðið útgönguna lýðræðislega. Það er aukaatriði hvort næst að semja um verslun fyrir áramót, sjálfstæðar þjóðir þurfa stöðugt að standa í samningum. ESB vill refsa Bretum segir Boris Johnson. ESB mun setja hömlur á samskipti Breta við ESB og EES sem Ísland mun fá að kenna á meðan EES er enn í gildi hér. En ESB verður að virða alþjóða viðskiptasamninga Alþjóða viðskiptastofnunarinnar sem duga Bretum vel eftir að þjóðfrelsið losar þá undan höftum ESB. Og breskir sjómenn geta nú aftur farið að koma með afla handa fiskgráðugum löndum sínum.

Frelsið vann. Ástæða þess að Bretar vilja út úr ESB er ekki viðskiptaleg, efnahagsleg eða hernaðarleg. Ástæðan er sterk þjóðfrelsisvitund, breska þjóðin kaus að fá landið sitt aftur, taka aftur heim yfirráð yfir sínum málum og setja sér sjálf lög og reglur. Margir stórfjölmiðlar hér og annars staðar útmáluðu í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar hve skaðlegt væri að ganga úr ESB. Samtök, flokkar, félög, bankar héldu uppi hræðsluáróðri. En gundvallar ástæðuna réðu ESB-sinnar ekki við: Breska þjóðin vildi frelsi og sjálfstæði.

Uppvakið landvinningabákn. Eðli ESB hefur opinberast í BREXIT. Sambandið sem átti loksins að binda stríðshneigð stórveldi í friðsamlegt samstarf er orðið endurfætt landvinningabákn sem virðir ekki lýðræði eða þjóðfrelsi. Græðgi og hroki ræður för eins og áður hjá herveldunum á meginlandi V-Evrópu. Það hefur lengi komið í hlut Breta vestast og Rússa austast að hemja landvinningabrölt þeirra. Sagan endurtekur sig.

Lærdómurinn. Bretar taka nú að sér að vísa veginn til frelsis þjóða hins misheppnaða Evrópusambands, fleiri lönd ESB og EES fylgja í fyllingu tímans. Lærdómurinn fyrir Ísland, sem á eftir að endurheimta sjálfstæðið eftir aldarfjórðungs dulið innlimunarferli í ESB, er að þjóðin sjálf þarf að ákveða og taka ábyrgðina á þjóðfrelsinu. Hægt er að ganga út frá stuðningi öflugra og sjálfstæðra nágranna með reynslu, Breta, sem telja nú niður dagana til endurfengins þjóðfrelsis 1. janúar, 2021. (Grein eftir Friðrik Daníelsson úr Morgunblaðinu 18.12.2020)

This entry was posted in BREXIT, EES. Bookmark the permalink.