EES-aðildin kostar iðnaðinn og flugið stórfé

ESB fyrirskipaði (tilskipun nr. 2003/87/) að útblástur gróðurhúsalofttegunda, aðallega koltvísýrings, skyldi háður kaupum á heimildum og setti á verslunarkerfi með þær, s.k. ETS. Orkuver, iðnaður og síðar flugið lentu í kerfinu. Þannig kerfi og skylda að kaupa losunarheimildir er ekki í samkeppnislöndum Íslands utan EES sem þýðir að íslensk fyrirtæki hafa fengið verri samkeppnisstöðu. Eyðslan í kerfið eykst stöðugt, síðasta heila árið fyrir Covid, 2019, mjólkaði ETS um 2 milljarða króna úr íslenskum fyrirtækjum.

ETS, verslunarkerfi ESB með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda, var sett inn í EES samninginn og lögleitt sem “loftslagsmál” hér 2012. Íslensk stjórnvöld hefðu ekki þurft að taka loftslagsmál ESB inn í EES og íslenskt regluverk. Ísland hafði alla möguleika til að koma eigin stjórn á losun gróðurhúsalofttegunda og hefði getað sneytt framhjá samkeppnishömlum og kvótakerfi ESB. (Skuldbindingar íslenskra stjórnvalda um losun gróðurhúsalofttegunda). ETS hefur reynst leikvöllur spákaupmennsku og svindls. Verðið á heimildunum hefur rokið upp, á síðustu árum hefur það fimmfaldast, var nýverið 25 evrur á tonn og sumir spá að það verði 65 evrur eftir um áratug. Enginn veit en ljóst er að óþörf peningaeyðsla íslenskra fyrirtækja í ETS mun halda áfram að aukast.

Flugfélög hafa eytt vaxandi fúlgum í kaup á losunarheimildum síðan kerfið var lagt yfir flugið 2012 en þá var tilskipunin um það (2008/101) lögleidd hér. Á fyrstu 5 árunum, 2012-2016, eyddi Icelandair nærri einum milljarði króna (M 7,5 milj USD) í ETS. Á árunum 2017-2019 hækkuðu upphæðirnar stöðugt og þurfti Icelandair að eyða tæplega 2 milljörðum króna (13,5 milljónir USD) á þeim 3 árum. Samanlögð eyðsla Icelandair í ETS kerfi ESB var þannig komin í nærri 3 milljarða króna (21 millj. USD) 2019. Tilskipanavald ESB nær ekki út fyrir EES, flugfélög utan ESB/EES þurfa því ekki að borga slíkar álögur. Miðað við þau er íslenskum flugfélögum mismunað. Ferðalangar frá Íslandi til ESB/EES hafa í raun ekki aðra valkosti en flug, aðrir íbúar ESB/EES geta farið með lestum, almenningsvögnum eða bílum milli áfangastaða. Íslendingar eru í raun í nokkurs konar vistarböndum EES og þurfa að borga með hærra flugmiðaverði til að fá að far út. Fjarlægðin frá Íslandi til þeirra ESB-landa sem Íslendingar ferðast mest til er oft meiri en milli ESB-landa. Kostnaðaraukinn við losunarkvótakaup og þar með hærri fargjöld í flugi er því meiri og óumflýjanlegri fyrir Íslendinga en íbúa ESB almennt.

Iðjuverin eyða fúlgum í ETS-kerfi ESB. Frá því kerfið skall á iðjuverin hefur eyðslan farið vaxandi. Þau eyða nú samanlagt um 1 milljarði króna á ári í kaup á ETS-losunarheimildum. Þau hafa ekki fengið endurgreiðslur eða ríkisstyrki eins og álver í Noregi, ESB, Kína og fleiri samkeppnislöndum. ESB/EES hefur komið í veg fyrir að íslensk stjórnvöld geti niðurgreitt orku til iðjuvera. En í Noregi hafa stjórnvöld látið hluta þeirra tekna sem ríkið fær við uppboð ETS-losunarheimildanna renna til iðjuveranna. Áætlaðar tekjur ríkissjóðs Íslands af sölu losunarheimilda á yfirstandanadi ári eru 1,1 milljarður króna sem kæmi til greina að nota til að létta byrði iðjuveranna. ESB-lönd endurgreiða einnig losunarheimildir og veita ríkisstyrki til stórnotenda orku. Orkunotkun íslensks atvinnulífs er hlutfallslega margfalt meiri en ESB-landa en útblástur koltvísýrings fylgir slíkri framleiðslu þó í takmörkuðum mæli hér á Íslandi þar eð sjálf orkuframleiðslan er reyklaus. En þó ESB veiti iðjuverum ýmiss konar ívilnanir fer orkufrek framleiðsla í ESB stöðugt minnkandi vegna reglugerða, umhverfiskvaða og hás orkuverðs, og flyst til landa utan ESB/EES þar sem kvaðir ESB gilda ekki (það kallast „kolefnisleki“ á ESB-ísku!).

Samkeppnisstaða íslenskra fyrirtækja í iðnaði og flugi hefur versnað með þátttöku Íslands í ETS-kerfi ESB og fyrirtæki farin að skoða rekstur í löndum sem eru laus við kvaðir ESB/EES.

Orðskýringar:Gróðurhúsalofttegund“: Loftegund sem getur tek upp varmageislun, aðallega er átt við koltvísýring en einnig haugloft, kælimiðla og fleiri gastegundir. Áhrif þeirra í andrúmsloftinu eiga ekkert skylt við varmabúskap í gróðurhúsum. Varmaupptaka lofthjúps Jarðar stafar að mestu af loftraka en hann er ekki kallaður gróðurhúsalofttegund í tilskipunum ESB. Orðið loftslagsmál“ felur yfirleitt í sér regluverk frá ESB um „gróðurhúsalofttegundir“ frá mönnum þó þær hafi hverfandi áhrif á loftslag.

This entry was posted in EES, Orka. Bookmark the permalink.