Traust á fjölmiðla hríðfellur

Merkisberar tjáningarfrelsis Vesturlanda, Bandaríkin og Bretland, eru nú komin í þá stöðu að borgararnir treysta ekki fréttamiðlunum og hefur staðan lengi verið að versna. Í aðdraganda forsetakosninganna í Bandaríkjunum og Brexit þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Bretlandi 2016 keyrði um þverbak og traustið á fjölmiðlunum tók mikla dýfu.

Fjölmiðlarnir hafa í vaxandi mæli færst úr fréttaflutningi í áróður. Greinilegt er að ekki er eingöngu fréttafólki um að kenna heldur eru starfsaðferðirnar gallaðar og eigendur fjölmiðlanna líka ábyrgir. Vandaðar og nákvæmar eftirgrennslanir um fréttaefni eru sjaldgæfari enda kosta þær vinnu, þekkingu, vandvirkni og óhlutdrægni sem er oft af skornum skammti. Rýni og skoðun á fréttatilkynningum sem berast fjölmiðlunum utanfrá er mjög ábótavant og sleppur vaxand fjöldi af röngum og villandi fréttum þannig í gegnum fjölmiðlana. Algengastar eru „fréttir“ frá félögum eða samtökum um sérstök málefni og einhverjum sem eru kallaðir vísindamenn eða sérfræðingar án þess að standa undir nafni.

Tveir atburðir árið 2016, forsetaframboð Trumps og Brexitatkvæðagreiðslan, urðu til þess að fréttamiðlarnir tóku að útvarpa óáreiðanlegum og hlutdrægum fréttum í vaxandi mæli. Traustið tók þar með að hrynja af fréttamiðlunum og hefur ekki náðst aftur upp

Bandaríkin hafa mikinn fjölda fjölmiðla með umfangsmikla starfsemi. En nú er svo komið að aðeins 9% Bandaríkjamanna treysta fjölmiðlunum vel, 31% nokkuð. Þriðjungur, 33%, treysta fjölmiðlunum alls ekki. Aðeins 10% kjósenda Repúblíkanaflokksins treysta fjölmiðlunum, 60% treysta þeim alls ekki. Mikill munur er þar á trausti kjósenda Demókrataflokksins en af þeim eru heil 73% sem treysta fjölmiðlunum. Þetta undirstrikar að stór hluti fjölmiðlanna er kominn með mikla slagsíðu stjórnmálaáróðurs í fréttaflutningi. Og nú bætist við að nýja ríkisstjórn Bandaríkjanna ætlar að loka útvarpsstöðinni sem lengi hefur verið talin helsti merkisberti málfrelsis Ameríku til kúgaðra þjóða, Voice of America. https://news.gallup.com/poll/321116/americans-remain-distrustful-mass-media.aspx

Bretland er nú komið í svipaða stöðu og Bandaríkin. Áður en áróðurinn vegna Brexit sprakk út treysti helmingur, 50%, landsmanna fréttunum. Nú hálfum áratug síðar eru aðeins 28% sem hafa traust á fjölmiðlunum. https://www.expressandstar.com/news/uk-news/2020/06/16/public-trust-in-media-plummets-in-uk-with-just-28-trusting-most-news-research/

Flokkadrættir innanlands er ein af ástæðunum sem höfundar nýlegra rannsókna (Gallup og Reuters) telja að hafi áhrif á traust almennings á fjölmiðlum. Óaldarflokkar og skemmdarvargar fóru um borgir í Bandaríkjunum á síðasta ári brjótandi og bramlandi og afsökuðu sig með að verið væri að mótmæla einhverju sérstöku böli. Mikil götumótmæli voru í Bretlandi. Svo virðist sem upplausnaröfl hafi náð meiri völdum og áhrifum með vaxandi öfgaskoðunum og skoðanaágreining innan landanna. Borgarar Bandaríkjanna og Bretlands reyna að þjappa sér saman í hópa sem virðast vera orðnir mjög ólíkir hver öðrum.

Hér á Íslandi er fjölmiðlaástandið í raun ekki betra þó kannanir sýni ekki eins mikið vantraust. Fáokun og fábreytni dylja fyrir almenningi hina raunverulegu áróðursslagsíðu, yfirhylmingar og útiloknair meginfjölmiðlanna hérlendis. Obbinn af áróðrinum frá öðrum löndunum er handlangaður áfram og bergmálaður í íslenskum fjölmiðlum án rýni.

This entry was posted in Fjölmiðlar. Bookmark the permalink.