Stjórnmálaflokkarnir láta ESB vaða yfir Alþingi

Stjórnmálaflokkarnir hafa í aldarfjórðung horft aðgerðalausir á hvernig ESB-tilskipanavaldið hefur vaðið yfir Alþingi og gert usla í þjóðlífinu í krafti EES. Nú eru svo komið að aðeins 1 af hverjum 5 landsmanna treysta Alþingi. Flokkarnir eru búnir að missa frumkvæði og sjálfstraust. Í komandi Alþingiskosningum virðast þeir hafa lítið nýtt og mikilvægt fram að færa. Stærstu málin eru ekki á stefnuskránni.

Alþingi getur ekki lengur sett lög óhindrað á sumum sviðum vegna laga frá ESB sem hafa verið látin ganga í gildi hérlendis. Stór hluti nýrra laga kemur frá ESB, á síðustu árum hefur um þriðjungur í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar verið vegna valdboða frá ESB.

Ráða ekki við stærstu málin. Reynslan hefur sýnt að Alþingi, með þeim stjórnmálaflokkum sem þar eiga sæti, ræður ekki við stærstu málin. Alþingi ræður ekki við valdahrifs ESB og EES-samninginn, það réð ekki við bankaútrásina sem regluverk EES kom af stað og gat ekki gripið inn nema með neyðarlögum. Alþingi réð ekki við Icesave. Stjórnmálaflokkarnir, sem forðuðu landinu frá verstu afleiðingum Hrunsins, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur, hafa ekki fylgt björguninni eftir og náð landinu undan EES. Alþingi hefur ekki getað forðað margháttuðum vanda og vaxandi fjáraustri sem blind hlýðni við ESB hefur valdið.

Eiginhagsmunir og tískustjórnmál. Algeng skoðun er að stjórnmálaflokkarnir vinni mikið í málum sem ekki eru áríðandi fyrir þjóðarheildina. En sinni frekar hagsmunamálum flokksins og stuðningsmanna. Eða tískustjórnmálum frá útlöndum sem er oft kostnaðarsamt fyrir skattgreiðendur án þess að þau skapi ávinning fyrir landsmenn, „sjálfbærni“, „kolefnishlutleysi“, „hringrásarhagkerfið“, „græn fjárfesting“, slagorð sem breiða oft út vanþekkingu og kreddur.

Flokkarnir, sem eru komnir inn á Alþingi (eða við þröskuldinn), hafa tekið löggjafarsamkunduna í nokkurs konar gíslingu og láta hana fjármagna sig, skattfé er þannig varið til að styðja við flokksáróður. Lýðræðið og traustið á Alþingi líður fyrir.

Vantar eigin stefnu. Stjórnmálaflokkarnir virðast í næstu kosningum ætla að bjóða kjósendum upp á trakteringar frá ESB. Tískustjórnmál, niðurgreidda ESB-matvöru, niðurgreidda rafhlöðubíla, skattaokur á eldsneyti, leiguíbúðir ESB-fyrirtækja, fleiri EES-tilskipanir. Frá eigin brjósti friðun uppblásins lands og einfeldningslega atvinnustefnu. Flokkana skortir vitlega stefnu í stórum málum og málum sem ESB hefur lagt undir sig, orkumálum, landbúnaðarmálum, iðnaðarmálum, „loftslagsmálum“, fólksinnflutningi og hælisleitendamálum sem ESB (Schengen) hjálpaði til að koma í vandræði.

Enginn flokkur með stærsta málið á stefnuskránni. Flokkarnir sem stóðu að stofnun lýðveldisins, stækkun landhelginnar, orkuverunum og uppbyggingu sterkra atvinnuvega, eru orðnir máttlitlir málfundahópar. Til þess að hægt sé að reka uppbyggjandi stefnu í málefnum landsins þurfa þeir að taka á sig rögg og fá völdin yfir landinu aftur heim.

Í Noregi, sem líka er undir stjórnvaldi ESB/EES, er sterk sjálfstæðishreyfing, þegar eru tveir stjórnmálaflokkar á Stórþinginu sem vilja leysa Noreg undan EES og þar með valdi ESB. Enginn íslenskur stjórnmálaflokkur er með sjálfstæðismálið á stefnuskránni.

This entry was posted in EES. Bookmark the permalink.